Morgunblaðið - 22.11.2021, Síða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 22. NÓVEMBER 2021
✝
Sigurfinnur
Sigurðsson
fæddist 11. desem-
ber 1931 í Birt-
ingaholti í Hruna-
mannahreppi.
Hann lést 9. nóv-
ember 2021 á
Heilbrigðisstofnun
Suðurlands á Sel-
fossi.
Sigurfinnur var
sonur hjónanna
Sigurðar Ágústssonar, kenn-
ara, tónskálds og organista, f.
13.3. 1907, d. 12.5. 1991, og
Sigríðar Sigurfinnsdóttur hús-
móður, f. 11.7. 1906, d. 16.5.
1983, en þau voru bændur í
Birtingaholti.
Systkini Sigurfinns eru: Ás-
geir, f. 19.11. 1927, d. 4.3.
2009, Ásthildur, f. 10.6. 1928,
d. 24.7. 1914, Arndís, f. 21.7.
1930, d. 10.1. 2012, Ágúst, f.
22.8. 1936, Magnús, f. 23.7.
1942, Móeiður, f. 27.11. 1943,
d. 18.1. 2002.
Sigurfinnur kvæntist 11.7.
1953 Ástu Guðmundsdóttur, f.
8. febrúar 1933, frá Högna-
stöðum í Hrunamannahreppi.
búskap, en Sigurfinnur fékk
berkla fimm ára gamall og
bar alla tíð merki þess. Á Sel-
fossi vann hann við skrif-
stofustörf, fyrst hjá KÁ en frá
1974 var hann skrifstofustjóri
hjá Vegagerðinni. Í millitíð-
inni sá hann um rekstur Sel-
fossbíós og var formaður und-
irbúningsnefndar að byggingu
Hótels Selfoss. Einnig sinnti
Sigurfinnur félagsmálum mik-
ið. Hann var í allmörg ár for-
maður Golfklúbbs Selfoss.
Hann starfaði mikið í röðum
framsóknarmanna á Suður-
landi. Þá var hann í stjórn
Starfsmannafélags ríkisstofn-
ana. Einnig sat hann í fjölda
samninganefnda og átti sæti í
félagsdómi á vegum BSRB.
Sigurfinnur vann mikið að
málefnum þroskaskertra, var
einn af stofnendum og fyrsti
formaður Þroskahjálpar á
Suðurlandi og átti sæti í svæð-
isstjórn um málefni fatlaðra á
Suðurlandi, auk þess sem
hann var skipaður formaður
stjórnarnefndar í málefnum
fatlaðra.
Sigurfinnur verður jarð-
settur frá Selfosskirkju í dag,
22. nóvember 2021, klukkan
14. Streymt verður frá útför-
inni og er slóðin inni á
www.selfosskirkja.is.
Hlekk á streymi má finna á:
https://www.mbl.is/andlat
Foreldrar hennar
voru Kristbjörg
Sveinbjarnar-
dóttir og Guð-
mundur Guð-
mundsson,
bændur á Högna-
stöðum.
Börn þeirra
eru: 1) Kristbjörg,
f. 24.4. 1953, gift
Eiríki Einarssyni,
synir þeirra eru
Birgir og Ragnar. 2) Sigríður
Jónína, f. 12.8. 1958, gift
Gunnari Sverrissyni, börn
þeirra eru Henrietta Ósk, Jón
Ágúst, Ásta og Sigrún. 3)
Snorri, f. 25.7. 1967, kvæntur
Sigrúnu Ólafsdóttur, þeirra
börn eru Ásta Sóley og Egill
Smári. Áður átti Sigrún Huldu
Dröfn og Ívar. 4) Sigurður
Már, f. 6.1. 1969. Langafa-
börnin eru 24.
Sigurfinnur og Ásta hófu
búskap og stofnuðu nýbýlið
Birtingaholt 2 árið 1953. Þau
bjuggu með garðyrkju, sauðfé
og hænsni til 1963 er þau
fluttu á Selfoss, er heilsa hans
leyfði ekki lengur að stunda
Góður maður er fallinn frá.
Tímaglasið hans pabba var orðið
tómt.
Elsku pabbi. Mikið er ég
þakklát fyrir hvað hann fékk þó
mörg ár. Ég kynntist honum svo
miklu betur mörg síðustu árin.
Pabbi fékk berkla í mjöðm sex
ára gamall og þurfti að liggja á
sjúkrahúsi í tvö ár og fastur í
gifsi í um þrjú ár. Það hefur ver-
ið erfiður tími.
Þegar hann var um eða fyrir
fermingu var hann viss um að
hann myndi aldrei ná því að
verða tvítugur. Þannig var að
vera með berkla.
Hann varð ungur skotinn í
elstu heimasætunni á Högna-
stöðum, henni Ástu, mömmu
minni. Og þau urðu hjón, giftust
10. júlí 1953. Þau stofnuðu ný-
býlið Birtingaholt 2 og voru
bændur í 10 ár. Bjuggu með
sauðfé, hænsni og ræktuðu
grænmeti yfir sumarið. En
heilsan leyfði ekki áframhald á
búskap. Þá fluttum við á Selfoss.
Við tók vinna við skrifstofustörf
o.fl.
Margar eru bernskuminning-
ar mínar, og allar fallegar og
góðar. Mér er minnisstætt þegar
hann sat með Sigga Má og fór
með þulur og söng fyrir hann.
Og Siggi lærði þær og naut þess.
Það voru fallegar og kærleiks-
ríkar stundir.
Pabbi var náttúrunnandi,
mjög skemmtilegur, glaðlyndur
og jákvæður, og vildi helst semja
um hlutina, svo allir yrðu
ánægðir. Þau mamma voru mjög
samhent í ræktun, nutu þessa að
rækta garðinn sinn og áttu fal-
legan verðlaunagarð árum sam-
an. Þau nutu þess líka mjög vel
að ferðast og það voru fáir staðir
hér á landi, sem urðu útundan.
Við fórum margar eftirminnileg-
ar ferðir saman. Sumarbústaða-
ferðir, ekki síst með bræðrum
pabba eða systrum mömmu,
ásamt mökum, voru í sérstöku
uppáhaldi. Bræðramótin voru
alveg einstök og þau voru mörg
og allir nutu vel. Og alltaf var
hann hrókur alls fagnaðar.
Pabbi var mjög vel lesinn og
fróður. Hafði t.d. mikinn áhuga á
jarðfræði og hafði óskaplega
gaman af því þegar hann hitti
jarðfræðinga, sem stundum
henti í starfinu hjá Vegagerð-
inni. Þá vildi hann rökræða,
fræðast og segja sitt álit. Hann
var vel hagmæltur. Kunni marga
kvæðabálkana utan að og fór oft
með af þvílíkri innlifun að unun
var að hlusta á. Pabbi í stólnum
hans afa síns, að flytja ljóð sitt
um stólinn hans afa, með sinni
sterku, hljómmiklu rödd, er
ógleymanlegt.
Pabbi sinnti félagsmálum
mjög mikið. Starfaði í Fram-
sóknarflokknum, kenndi ræðu-
mennsku og tók þátt í kjarabar-
áttunni. Réttlætiskenndin var
mjög sterk. Hann sinnti mikið
málefnum fatlaðra. Margar ferð-
ir fór hann í menntamálaráðu-
neytið. Fræðslulögin frá 1974
kváðu á um að öll börn ættu rétt
á skólagöngu. Og hann gafst
ekki upp, var harður og ákveð-
inn, og náði því í gegn að fötluð
börn fengju líka að ganga í
skóla. Hann sagði mér oft, að
hann hefði orðið hvað stoltastur
af þessu afreki sínu um ævina.
Honum sveið sárt að yngsti son-
urinn, Siggi Már, sem er með
Downs, ætti ekki að fá að ganga í
skóla. Að læra það sem honum
væri mögulegt.
Nú hleypur pabbi um græna
hagana á þann hátt sem hann
gerði fram að sex ára aldrinum.
Frjáls og heilbrigður, þannig vil
ég sjá hann fyrir mér, glókollinn.
Og fara svo inn til mömmu og fá
gamla matinn.
Sigríður J. Sigurfinnsdóttir.
Nú er komið að kveðjustund.
Það er sárt að kveðja elsku
pabba sem var ekki einungis
pabbi minn heldur líka vinur alla
tíð. Þær óteljandi góðu og hlýju
minningar sem við eigum ylja og
gleymast mér seint og auðvitað
milda þær sársaukann. Pabbi
var ákaflega fróður maður og
víðlesinn. Ungur að árum, í sín-
um erfiðu veikindum, las hann
Íslendingasögurnar upp til
agna. Náttúruunnandi var hann
með mikla jarðfræðiþekkingu.
Hann var ljóðaunnandi mikill og
var, eins og það er kallað í dag,
límheili. Hann mundi flestöll ljóð
sem hann las. Það var unaður að
hlýða á hann fara með ljóð með
sinni sterku og líflegu rödd. Svo
var hann mjög hagmæltur sjálf-
ur og skildi eftir sig töluvert af
ljóðum í bókinni sem hann tók
saman og gaf út fyrir ári. Alla tíð
gat ég leitað til pabba, í hans
viskubrunn eða til að fá góð ráð.
Alla tíð fylgdist hann vel með
þjóðfélagsumræðunni. Og póli-
tískur var hann, fylginn sér en
sanngjarn. Fáum dögum áður en
hann féll frá spurði hann mig og
átti þá orðið erfitt með mál hvort
það væri búið að mynda ríkis-
stjórn. Það lýsir honum vel. Þær
voru fjölmargar gæðastundirnar
í garðinum í Starengi, sumarbú-
staðaferðirnar, útilegurnar,
fjallaferðirnar og ættarmótin og
ávallt var pabbi hrókur alls fagn-
aðar, glaður með g og t að grilla
lambalæri. Syngjandi og farandi
með ljóð. Þannig mun ég muna
elsku pabba minn. Þetta samdi
pabbi á einni gleðistundinni:
Þó glaumnum sé lokið og glasanna
kliður
oss glymji í eyrum, finnst engum það
miður.
Nú ríkir í brjósti mér birta og friður.
Ég byrjaði um dagmál að drekka mig
niður.
Blessuð sé minning elsku
pabba, gæfumanns í leik og
starfi.
Snorri Sigurfinnsson.
Ég tók fyrst í höndina á Sig-
urfinni Sigurðssyni í janúarmán-
uði 1978 og mörg og hlý urðu
þau handaböndin næstu áratug-
ina. Ég var nefnilega kominn til
að vera. Síðast tókumst við í
hendur þremur dögum áður en
hann kvaddi þennan heim.
Handtakið að sjálfsögðu farið að
linast og hin djúpa og sterka
rödd sem alltaf hafði verið hans
aðalsmerki var brostin. Hann
var á förum og var alveg tilbú-
inn.
Þegar ég kem inn í fjölskyld-
una eru Sigurfinnur og Ásta ný-
flutt í hálfklárað húsið sitt að
Starengi 15. Þau gerðu þetta hús
og garðinn að sannkölluðum
sælureit sem tekið var eftir. Sig-
urfinnur var maður skipulagsins
og reglufestunnar. Við vorum
gjörólíkir að því leytinu, en aldr-
ei setti hann ofan í við mann og
sýndi mér alltaf fullt traust í
einu og öllu. Að vísu hafði hann
áhyggjur af því að ég væri ekki
framsóknarmaður, en það er nú
ekki öll nótt úti.
Í þessari löngu og hamingju-
ríku sambúð okkar Siggu Jónu
höfum við farið í mörg og
skemmtileg ferðalög með Sigur-
finni og Ástu. Þar lágu áhugamál
okkar allra saman.
Þau Sigurfinnur og Sigga
Jóna voru mjög náin og áhugi
þeirra á náttúrufræði, ekki síst
jarðfræði, sameinaði þau mjög.
Að lokum vil ég þakka Sigur-
finni allt og allt og þótt fyrir því
finnist ekki „garantí“ þá sjáumst
við kannski síðar.
Þinn tengdasonur,
Gunnar.
Hann Sigurfinnur bróðir
minn, alltaf kallaður Siggvi af
okkur systkinunum, hefur nú
kvatt jarðlífið næstum 90 ára.
Minningar frá barns- og ung-
lingsárunum koma strax í hug-
ann, 10 ár á milli okkar. Erfið
veikindi vegna berkla herjuðu á
hann í æsku og skildu eftir sig
ör, en hann lét slíkt lítið á sig fá
og ekki var kvartað. Siggvi varð
snemma fluglæs, sem kom sér
vel í allri spítalalegunni, og að-
allestrarefnið voru Íslendinga-
sögurnar og hjálparhellan þar
var séra Magnús Helgason afa-
bróðir. Góðar voru þær stundir
þegar Siggvi las fyrir okkur
yngri systkinin, minnist ég sér-
staklega Njálssögu og Benna-
bókanna. Röddin hans svo mikil
og hljómfögur að við urðum hug-
fangin. Siggvi las alla tíð mikið,
kunni ógrynni af ljóðum og flutti
heilu ljóðabálkana þegar svo bar
undir enda var hann vel hag-
mæltur sjálfur.
Siggvi var mikill áhugamaður
um íþróttir og tók þátt þrátt fyr-
ir fötlun sína, keppti bæði í kúlu-
varpi og kringlukasti á Þjórsár-
túni. Þá var hann mikilvirkur í
UMFH, meðal annars í leik-
starfsemi félagsins.
Vel man ég eitt atvik, við
mamma inni í eldhúsi og Siggvi
kemur sposkur á svip með hend-
ur fyrir aftan bak og sagði við
mömmu „ég á kærustu“ og sýndi
henni mynd af henni Ástu sinni á
Högnastöðum, falleg stund það.
Eftir Héraðsskólann á Laugar-
vatni lá leiðin í Garðyrkjuskól-
ann að Reykjum í Ölfusi.
Árið 1953 voru stofnuð tvö ný-
býli í Birtingaholti og var partur
þeirra Ástu, Birtingaholt II. Þau
byrjuðu með kartöflurækt og
útiræktun á grænmeti, eggja-
framleiðslu og nokkrar kindur.
Smám saman kom í ljós að erf-
iðisvinna hentaði Siggva illa og
að ráðleggingu lækna þurfti
hann að breyta um starfsvett-
vang. Það varð úr og flutti fjöl-
skyldan á Selfoss árið 1962 og
hefur átt þar heima síðan.
Við starfslok tók Siggvi til við
að skera út úr tré hina fallegustu
gripi og hélt sýningu á þeim.
Eitt verka hans er mér ofarlega í
huga, hann smíðaði líkan af
æskuheimili sínu, gamla bænum
í Birtingaholti sem brann árið
1951. Líkanið verður varðveitt á
Minjasafni Árnesinga.
Það var sannarlega gott að
koma á heimili Ástu og Siggva
allt frá fyrsta ári til þess síðasta.
Allar samverustundir með þeim
Ástu og Siggva hafa verið okkur
ljúfar og góðar, við hjónin höfum
notið þess að vera með þeim.
Mörg seinustu árin hafa verið
haldin bræðramót okkar þriggja
með elskunum okkar enda ein-
staklega kært alla tíð með hópn-
um. Bræðramótin hafa verið á
hinum ýmsu stöðum, bæði heima
og að heiman. Ég vil enda þessi
skrif á orðum bróður míns um
góða stund á bræðramóti.
Í Landbroti
Fagurt er umhverfið, fögur er sveit,
fjallasýn slíka ég óvíða leit.
Öræfajökull í austrinu rís,
á ógnþrunginn Lómagnúp stefna ég
kýs.
Systrafoss niðar og Síðan er ljúf,
svartbrydduð hraunbreiðan grettin og
hrjúf.
Enn þá við hittumst og ennþá er kátt.
Enn þá vor bræðramót trufla skal fátt.
Konurnar bera fram krásir af list,
krúsirnar tæmast, af engu skal misst.
Ásta og Bubba og Sigga með söng,
seiða okkur til sín um vorkvöldin löng.
(Sigurfinnur Sigurðsson)
Magnús H. Sigurðsson.
Það er margs að minnast þeg-
ar horft er til baka við kveðju-
stund. Ásta og Frændi (sem er
nafnið sem við frændsystkinin
ólumst upp við að kalla Siggva)
voru tíðir gestir í Birtingaholti á
mínum uppvaxtarárum enda
hófu þau sinn búskap þar og var
því samgangur ætíð mikill. Náin
tengsl voru alla tíð á milli for-
eldra minna og Ástu og Frænda
og ferðuðust þau um landið og
nutu ætíð samverunnar.
Ég var síðan þeirrar gæfu að-
njótandi að vera nágranni
Frænda og Ástu á Selfossi í tæp
40 ár og ég er afar þakklát fyrir
allar okkar samverustundir,
hann oftar en ekki í afastól inni í
stofu eða spjall yfir kaffisopa;
sögustundirnar og öll ljóðin sem
hann gat flutt af mikilli innlifun
með sinni hljómmiklu röddu.
Krakkarnir mínir muna líka vel
eftir að kíkja í heimsókn, spjalla
við þau hjónin og sníkja mjólk-
urkex úr búrinu, eða stela jarð-
arberi í garðinum.
Á ættarmótum var Frændi
hrókur alls fagnaðar og oftast
með þeim síðustu í háttinn, því
að sjálfsögðu mátti ekki missa af
einhverju skemmtilegu.
„Þá er komið að leiðarlokum í
bili“ var eitt af því sem hann
sagði við mig þegar við hittumst
í síðasta skiptið sem ég sá hann.
Elsku Frændi, takk fyrir all-
ar dýrmætu minningarnar. Mér
þótti svo vænt um þegar þú
sagðir að ég væri eins og þriðja
stelpan þín. Ég mun sakna sam-
verustundanna okkar.
Hvíldu í friði.
Þín
Hulda.
Það var um jól í árlegu boði
fjölskyldunnar í Birtingaholti.
Ég var smá spons og varð vör
við æsing og tilhlökkun hjá eldri
frændsystkinum mínum því
Frændi var kominn. Frændi
með stóru F. Hann var alltaf svo
skemmtilegur og til í að leika.
Lengra nær þessi minning ekki
en eftir því sem árin liðu kynnt-
ist ég æ betur þessum gleði-
pinna sem Frændi var. Hann sat
ekki úti í horni og horfði á aðra
skemmta sér og hann fór sko
ekki fyrstur heim úr gleðskap.
Ónei, hann tók þátt af öllum lífs-
og sálarkröftum, var raddsterk-
ur og sagði sögur, saup á, söng
mikið og ef spilaður var djass þá
ók hann sér öllum og naut tón-
listarinnar. Mikið sem við höfum
átt góðar stundir á ættarmótun-
um okkar í gegnum tíðina þar
sem Ásta og Siggvi komu sér
jafnan fyrir með A-hýsið sitt,
búið að blanda drykki, Siggvi
glaður við grillið og svo sungum
við Hudson Bay þegar líða tók á
kvöldið.
Á síðsumarskvöldi fyrir
nokkrum árum fór ég til
Frænda og Ástu í Starengið.
Siggvi kom til dyra en mátti
varla vera að því að heilsa, sagði
mér að drífa mig inn því hann
ætlaði alls ekki að missa af Usa-
in Bolt hlaupa 100 metrana á Ól-
ympíuleikunum. Þarna áttum
við virkilega góða kvöldstund,
hann fór með ýmis kvæði sem
hann hafði ort og m.a. kvæðið
um stólinn sinn gamla frá nafna
sínum og afa, Sigurfinni. Þetta
kvöld og oft síðar þegar við
spáðum í ljóð og sögur eða
gamla tíma sagði hann: Nú vant-
ar mig Dísu systur, hún mamma
þín mundi allt. Ég skynjaði allt-
af einhvern streng milli mömmu
og Siggva en á milli þeirra var
aðeins eitt og hálft ár og hafði
hann á orði þegar hún dó að
aldrei hefði hann grunað að
hann myndi lifa Dísu systur
sína.
Í barnæsku fékk Siggvi
berkla og lá lengi á sjúkrahúsi.
Um þá vist skrifaði hann Jóla-
sögu sem snerti mann að innstu
hjartarótum. Þar liggur hann
dapur, ungur drengur á jólum
og hugsar heim í Birtingaholt en
allt verður gott þegar mamma
birtist alveg óvænt á sjúkrastof-
unni.
Við kveðjustund get ég sam-
glaðst Frænda að þurfa ekki að
liggja lengur á sjúkrahúsinu né
að eyða þar komandi jólum held-
ur fái hann á ný að verja þeim
með englamömmu. Allt verði
gott á ný.
Far vel, Frændi og vinur,
minning þín mun lifa með okkur.
Innilegar samúðarkveðjur sendi
ég Ástu og kæru frændfólki.
Svanhildur Skúladóttir.
Veistu, ef þú vin átt,
þann er vel trúir,
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta
fara að finna oft.
(Hávamál)
Sigurfinnur frá Birtingaholti
var vinur minn og nágranni,
garðarnir okkar lágu saman hér
á Selfossi. Hann var mér meira
en vinur, ég myndi segja vel-
gjörðarmaður. Ég var ungur
þegar hann tók mig ásamt mörg-
um öðrum ungum strákum á
ræðu- og félagsmálanámskeið.
Oft fórum við Margrét yfir girð-
inguna að kvöldi til að njóta fé-
lagsskapar við hann og Ástu
konu hans í heita pottinum. Sig-
urfinnur var minn Njáll. Oft leit-
aði ég til hans með álitamál og til
úrlausnar á erfiðum málum í
pólitíkinni. Aldrei kom ég að
tómum kofunum hjá honum.
Hann var djúpvitur og marg-
reyndur, og lagði gott til. Hann
var vel þjálfaður félagsmála-
maður og sóttist ekki eftir veg-
tyllum, þó víða kæmi hann að
málum og ætti trúnað samferða-
manna sinna. Afbragðsræðu-
maður var hann, röddin sterk og
þekk, íslenskumaður frábær,
sótti róminn til Haukdælanna
sem voru forystumenn Árnes-
inga í aldir.
„Mál hans rann sem Ránar-
fall/ rómurinn blíður hár og
snjall.“
Sigurfinnur var söng- og
ljóðamaður eins og Birtingarnir,
sonur tónskáldsins Sigurðar
Ágústssonar. Hann var víðles-
inn. Ungur lá hann á Landspít-
alanum vegna berkla í mjöðm og
bar hann þess menjar alla tíð.
Annar fóturinn var styttri en
samt tók hann þátt í íþróttum
með kjörorði hetjunnar; „eigi
skal haltur ganga meðan báðir
fætur eru jafnlangir“. Sigurfinn-
ur var heppinn í óheppni sinni
því hann var allæs sjö ára og
nýtti árin í rúminu eins og hann
sagði: „Ég las, las og las.“ Hann
bjó að þessari menntun sinni allt
lífið.
Það var unun að sitja við fót-
skör Sigurfinns og njóta mikillar
þekkingar hans og góðs minnis
og frásagnarlistar sem gerði
mann hugfanginn. Á gleðistund-
um var hann hrókur alls fagn-
aðar í fjölskyldu sinni og meðal
vina og vinnufélaga. Garðurinn
þeirra hjóna var lystigarður,
prýddur trjám og blómskrúði,
og grænmeti ræktuðu þau af
elju. Sigurfinnur var listrænn.
Hann orti ljóð og skrifaði sögur,
tálgaði í tré og meðal annars
smíðaði hann líkan af gamla
reisulega bænum í Birtingaholti.
Hann var mikill fjölskyldumað-
ur, mikill félagi barna og frænd-
fólks, naut þess að ferðast um
landið og um ókunnar slóðir er-
lendis. Fyrir ári gaf hann út bók-
ina Birtingaljóð með frænku
sinni, bókin geymir mörg af ljóð-
um föður hans og systur og dá-
lítið af eigin ljóðum og minninga-
brotum.
Gott var að vera gestur þeirra
hjóna og einstök var hamingja
þeirra og ástareldurinn brann
enn. Þau voru samhent og höfðu
einstaka nærveru. Fyrir mánuði
kom ég í heimsókn til þeirra og
alltaf sem áður tekið af alúð. Sig-
urfinnur sagði: „Gott þú kemur.
Vondu fréttirnar eru þær að ég
er á förum, kominn með krabba í
allan skrokkinn. Góðu fréttirnar
eru þær að ég finn hvergi til og
við eigum bara eitt verk eftir; að
skála og drekka gin og tónik eitt
kvöld.“ Ekki féll tár af hvarmi
heldur lofaði hann lífið og sam-
ferðina með fjölskyldu sinni og
vinum. Hann var tilbúinn níræð-
ur að ganga fyrir hinn mikla
dómara allra tíma.
Langri ævi er lokið.
Drengskaparmaður er genginn
á Drottins síns fund.
Við Margrét færum Ástu og
fjölskyldu Sigurfinns innilegar
samúðarkveðjur.
Guðni Ágústsson.
Sigurfinnur
Sigurðsson