Morgunblaðið - 07.12.2021, Síða 15

Morgunblaðið - 07.12.2021, Síða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. DESEMBER 2021 Skuggamyndir Tignarlega hesta ber við himininn, en sólin þykir lækka flugið heldur hratt á þessum síðustu dögum ársins 2021. Myndast þá þessar fögru skuggamyndir í landslaginu. Eggert Það voru vonbrigði að sjá ekki í stjórn- arsáttmála nýrrar ríkis- stjórnar að hún ætli að stíga skref í þá átt að breyta og reyna að ná sátt um stjórnun fisk- veiða við landið með því að bjóða upp aflaheim- ildir. Það hefur kannski eitthvað að gera með að sumir hafa kosið að túlka niðurstöður kosn- inganna á þann veg að þjóðin vilji óbreytt ástand hvað þau mál varðar, en það er mikil einföldun því kann- anir benda til þess að mikill meiri- hluti kjósenda vilji breytingu og nýj- asta könnun bendir til þess að það eigi við um alla stjórnmálaflokka. Líklega er stjórnun fiskveiða við strendur Íslands það þjóðfélagsmál sem fjallað hefur verið einna mest um hér á landi síðustu áratugi. Enda um að ræða stjórnun þeirrar auðlindar sem skilað hefur þjóðarbúinu mest- um arði og hefur verið grundvöllur að þeirri hagsæld sem við búum við í dag. Á níunda áratug síðustu aldar voru gerðar grundvallarbreytingar á stjórnun fiskveiða þegar kvótakerfið var innleitt. Í framhaldi var síðan framsal kvóta leyft árið 1990. Án nokkurs vafa hefur innleiðing þessa kerfis skilað miklum árangri, annars vegar með takmörkun á sókn í fiski- stofna við Íslandsstrendur með verndun hans að leiðarljósi, og hins vegar með því að leyfa framsal kvót- ans sem tryggt hefur hagræði í gegnum sam- einingar og samþætt- ingu í starfsemi í sjávar- útvegi og þannig aukið arðsemi í greininni. Það hefur hins vegar lengi ríkt óánægja með að út- hlutun kvótans hafi ver- ið án endurgjalds og án tímamarka. Erfitt verið að ná sátt Hvað greiðslu fyrir afnot varðar var tekin ákvörðun af Alþingi um að leggja á veiðileyfisgjald í fyrsta skipti á fisk- veiðiárinu 2004/2005 til að koma til móts við þær gagnrýnisraddir, auk þess sem það var þá talið sanngjarnt. Erfitt hefur hins vegar verið að ná sátt um hvert veiðileyfisgjaldið eigi að vera á hverjum tíma og verið árlegt þrætuepli á Alþingi hvernig það skuli reiknað og vera gagnvart mismun- andi útgerðum. Við útreikning á fyr- irkomulagi veiðileyfisgjalds í dag er jú til hliðsjónar einhvers konar reikni- líkan en því hefur verið erfitt að fylgja. Ástæðan fyrir þessum erfiðleikum er að taka þarf tillit til alltof margra breyta vegna mismunandi aðstæðna útgerðarfélaga, sem auk þess geta tekið verulegum breytingum milli ára. Kallar þetta því á árlega endur- skoðun á útreikningum og ákvörðun veiðileyfisgjalds. Það er því ljóst að fyrirkomulag þetta er ekki til þess fallið að það tryggi eðlilegt og sann- gjarnt veiðileyfisgjald og sátt náist um það til framtíðar, verður eilíft þrætuepli sem snýr að því hvort greitt sé sanngjarnt veiðileyfisgjald sem endurspeglar einhvers konar markaðsverð. Hvetjandi sé fyrir útgerðir að fjárfesta í greininni Það er óumdeilt að fiskveiði- auðlindin sé í eigu þjóðarinnar og Al- þingi fyrir hennar hönd sá aðili sem ákveður verðlagningu fyrir aðgang að auðlindinni og reglur um úthlutun kvóta. Við úthlutun kvóta til einstakra út- gerða er bæði eðlilegt og réttlátt að sett séu tímamörk við veitingu leyfis, það er augljóst þegar um er að ræða takmarkaða auðlind í eigu heillar þjóðar. Tryggja þarf þó að nýting- arréttur sé til það langs tíma að það sé hvetjandi fyrir útgerðir að fjár- festa í greininni, stöðugleiki sé tryggður og atvinnugreinin geti þróast með hagkvæmum hætti. Rétt er einnig að allir þjóðfélags- þegnar eigi möguleika, með skyn- samlegum og sanngjörnum hætti, á aðkomu að auðlindinni og að bjóða í kvóta þar sem mótaðilinn er hið opin- bera fyrir hönd þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, það er jafn augljóst og hið fyrra. Sú leið sem tryggir eðlilegt verð, markaðsverð, fyrir nýtingu auðlindar og setur tímamörk á nýtingu og opnar fyrir beinan aðgang þjóðfélagsþegna að eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, hinu opinbera fyrir hönd þjóðarinnar, er svokölluð uppboðsleið, sem oft hef- ur komið upp í umræðunni. Útfærsla og upptaka uppboðsleiðar getur verið með margvíslegum hætti og að ýmsu að hyggja. Hér vil ég þó nefna þau atriði sem ég tel skipta mestu máli til að slík leið skili árangri og sem víðtækust sátt náist um þenn- an grundvallarþátt við stjórnun fisk- veiða. Leigutími heimilda verði langur Til að stöðugleika sé viðhaldið í greininni og hvati sé til fjárfestingar þarf leigutími aflaheimilda að vera til nokkuð langs tíma, eins og fram hefur komið, ekki væri óeðlilegt að miða við tuttugu og fimm til þrjátíu ár. Jafn- framt þarf að hafa í huga að núver- andi eigendur kvótans þurfa samhliða að skila inn þeim hluta kvótans sem byrjað verður að bjóða upp og þarf það að vera þeim fjárhagslega mögu- legt. Hér á eftir er miðað við þrjátíu ár. Árlega yrði þá einn þrítugasti kvótans boðinn upp til leigu til jafn margra ára á vegum hins opinbera sem yrði þá árlegt veiðileyfisgjald sem endurspeglaði markaðsverð eins þrítugasta af kvótanum til veiða í þrjátíu ár. Útgerðarfélög væru þá að skila inn núverandi kvóta með jöfnum hætti á þrjátíu árum. Einstakar fisk- tegundir yrðu boðnar upp í viðráðan- legum hlutum og leigðir hlutir yrðu framseljanlegir, sem er mikilvægt þegar horft er til hagkvæmni og mögulegrar hagræðingar í rekstri at- vinnugreinarinnar. Komið yrði á upp- boðsmarkaði sem héldi utan um ár- legt uppboð og miðlun á útistandandi veiðiheimildum milli einstakra aðila, sem væri þá eins konar eftirmark- aður. Öll viðskipti með kvóta færu í gegnum þennan uppboðsmarkað. Með framangreindum hætti yrði þannig tryggt að allir þjóðfélags- þegnar ættu möguleika á að kaupa kvóta til leigu á því verði sem mark- aðurinn segir til um á hverjum tíma, bæði með beinum kaupum af hinu op- inbera á markaði og á eftirmarkaði. Mikilvægt að ná fram sátt Mikilvægt er að hafa í huga að áfram yrði tekin ákvörðun um kvóta fyrir hvert fiskveiðiár byggt á niður- stöðu okkar bestu sérfræðinga um ástand einstakra fiskstofna. Jafn- framt eins og fram hefur komið yrði framsal aflaheimilda heimilt. Ekki er hér heldur verið að leggja til breyt- ingar á þeim lögum sem gilda í dag um takmörkun á hámarks- umráðarétti yfir kvóta. Undirritaður hvetur ríkisstjórn og Alþingi til að hlusta á mikinn meiri- hluta þjóðarinnar og gera breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á kjör- tímabilinu í þá veru að hluti fisk- veiðikvótans sé reglulega boðinn upp. Ná þannig fram víðtækri sátt um stjórnun fiskveiða á Íslandi til fram- tíðar. Eftir Þorgils Óttar Mathiesen »Hvet ég ríkisstjórn og Alþingi til að hlusta á meirihluta þjóð- arinnar og gera breyt- ingar á fiskveiðistjórn- unarkerfinu á kjör- tímabilinu í þá veru að hluti fiskveiðikvótans sé reglulega boðinn upp. Þorgils Óttar Mathiesen Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar Höfundur er löggiltur endurskoðandi. Í fréttum nýlega hef- ur verið fjallað um hátt raforkuverð í Noregi o.fl. löndum Evrópu sem eru með samtengt raforkukerfi. Samteng- ing raforkukerfa var gerð til að bæta nýt- ingu, auka orkuöryggi og hafði einnig það markmið að leiða til hagstæðara raf- orkuverðs fyrir notendur. Í dag er staðan raforkuverð í hæstu hæðum í Evrópu. Hvað fór úrskeiðis? Sumir benda á að hátt raforkuverð sé „orkupökkum“ að kenna. Aðrir benda á að græningjar Evrópu hafi krafist lokunar fjölda kjarnorkuvera og kolaorkuvera, án þess að jafn- framt væru byggð ný græn raforkuver í stað þess sem lokað var. Nota hefði mátt t.d. metangas í stað kola í sömu orkuverum. Met- an er a.m.k. ljósgrænt miðað við brennslu kola. Orkuöryggi (raforka líka) er víða skilgreint sem æðsta stig í þjóðar- öryggi flestra þjóða. Það er því frekar furðu- legt að í sjálfu Þýska- landi skuli hafa verið „búin til raforkukreppa“ þar sem Þjóðverjar eru frægir fyrir vandað skipulag og nákvæmni. Nú „soga“ Þjóðverjar og fleiri Evrópubúar raforkuna frá Nor- egi, Frakklandi og fleiri löndum – gegnum samtengt raforkukerfi. Mér virðist að þeir sem bera ábyrgð á lok- un „skítugra orkuvera“ án þess að koma með grænni orkuver í staðinn beri mesta ábyrgð á þeirri raf- orkukreppu sem nú ríkir í Evrópu. Á Íslandi eru komnar fram vís- bendingar um að barátta „umhverf- isvænna græningja“ (Landverndar og co) sé í þann veginn að innleiða upphaf raforkukreppu á Íslandi. Forsvarsmenn Landverndar hafa í mörg ár barist gegn nýjum raforku- verum með þeirri fullyrðingu „að það sé til næg raforka“. Nýlega tilkynnti Landsvirkjun áform um skerðingu raforku til fisk- mjölsverksmiðja – og loðnuvertíðin ekki byrjuð! Vatnshæð Þórisvatns er mjög lág og ákvörðun Landsvirkj- unar því skiljanleg. Tíu stór fyrirtæki í vinnslu upp- sjávarafurða nota samanlagt orku á við þokkalegt álver þegar allt er í fullum gangi. Áformuð skerðing raf- orku nær einungis til gufufram- leiðslu við mjölvinnslu en þá þarf að nota olíu þegar skerðingar eru virk- ar. Raforkulausnir (til að koma í veg fyrir hátt raforkuverð) eru best fólgnar í því að hafa nægilegt fram- boð á raforku í samræmi við eftir- spurn. Verði raforkuskortur er hækkun á verði einn af þeim kostum sem til greina koma. Lausnin er að tryggja næga raforku, með því að virkja meira. Það er ekki nóg að tala um orku- skipti. Það þarf að taka til hendinni og flýta virkjanaframkvæmdum til að draga úr líkum á raforkukreppu á Íslandi. Hátt verð á raforku getur tæplega verið „orkupökkum“ að kenna þegar það liggur fyrir að það er raforkuskortur sem hækkar raf- orkuverð – eins og staðan er nú víða í Evrópu. Það tekur 4-15 ár að undirbúa og byggja raforkumannvirki, smærri, miðlungs eða stærri vatnsaflsvirkj- anir. Það er búið að gera leyfiskerfið kringum virkjanir allt of flókið með alls konar hindrunum sem þvælast fyrir vinnandi fólki sem bíður eftir að geta aukið framboð raforku svo orkuskipti geti hafist í alvöru. Það verða lítil orkuskipti án meira fram- boðs raforku. Eftir Kristin Pétursson » Það er ekki nóg að tala um orkuskipti. Það þarf að taka til hendinni og flýta virkj- anaframkvæmdum. Kristinn Pétursson Höfundur er ráðgjafi í orkumálum. krp@simnet.is Orkuskipti og orkulausnir

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.