Víkurfréttir - 14.07.2021, Blaðsíða 11
Ást á landbúnaði
Við sem elskum landbúnað viljum öll sjá það sama:
• Bætta afkomu bænda
• Bætt rekstrarumhverfi landbúnaðar
• Fleiri tækifæri til matvælaframleiðslu
• Aukna nýsköpun í landbúnaði
• Betri nýtingu hliðarafurða
• Aukna fagmennsku til að byggja upp jákvæða
ímynd
En okkur greinir eins og er um
leiðir að settu marki.
Ég hef verið með sterkar skoð-
anir á samfélagsmálum allt frá
því ég var unglingur. Áður en ég
gekk til liðs við Viðreisn þá hafði
ég áður verið virkur í starfi stjórn-
málaflokks sem sagðist vera mikill
landbúnaðarflokkur. Eftir að hafa
kynnst starfinu þar kom í ljós að
það voru fortíðarást og forræðis-
hyggja sem réðu þar för.
Ást er að mínu mati sú tilfinning
að vilja sjá hlutina sem maður
elskar vaxa og dafna. Hvort sem
það snýr að börnunum okkar,
okkur persónulega eða að land-
búnaðinum, þá viljum við sjá það
sama: Vöxt fram á veginn þar sem
landbúnaðurinn vex og verður fjöl-
breyttari með hverju árinu sem
líður.
Sýn Viðreisnar heillaði mig frá
byrjun og verandi bæði búfræð-
ingur frá LBHÍ og nú matvæla-
fræðingur frá Háskóla Íslands þá
leyfi ég mér að fullyrða að framtíð-
arsýn Viðreisnar stuðli að öflugum
landbúnaði ásamt byggðafestu á
landsbyggðunum.
Viðreisn hefur sýnt í verki að
flokkurinn er fyrstur til að að-
stoða bændur, samanber þegar
verð á dilkakjöti hrundi árið 2017.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
sem þá var landbúnaðarráðherra,
kom fram með 650 milljóna króna
björgunarpakka sem þáverandi
fjármálaráðherra, Benedikt Jó-
hannesson, samþykkti án þess að
hika. Með þessari aðgerð sýndu
þau í verki hve mikilvægt það er
Viðreisn að það sé öflug byggð og
landbúnaður í landinu.
Það er brýn þörf á breytingum
í landbúnaði. Lægsta afurða-
stöðvaverð í Evrópu til bænda
og strangar takmarkanir á fram-
leiðslu smáframleiðenda til neyt-
enda þurfa ekki að vera komin til
að vera. Það þarf kjark til að breyta
þessu og þor til að rugga bátnum
en báðir þessir eiginleikar eru Við-
reisn eðlislægir.
Núverandi kerfi hefur og er að
skila íslenskum bændum hag-
ræðingu, á formi færri bænda. Af-
koma bænda er aftur á móti ekki
að batna. Það þarf að staldra við þá
stöðu og skoða hvað er að klikka í
kerfinu eins og það er byggt upp
núna.
Viðreisn talar fyrir virkri sam-
keppni á markaði, bændum og
neytendum til hagsbóta. Við viljum
gefa bændum frelsi og tækifæri til
fjölbreyttrar framleiðslu því við
vitum hver gæði íslenskrar fram-
leiðslu eru og hve mikil aðlögunar-
hæfni bænda er. Ein leið til þess
er að draga úr framleiðslutengdri
niðurgreiðslu og beina henni frekar
yfir í jarðræktarstuðning, tengja
við dreifbýlisstuðning og styrkja
nýsköpun og vöruþróun í mat-
vælaiðnaði.
Ég býð mig fram fyrir Viðreisn
því ég vil sjá sterkari og fjöl-
breyttari landsbyggðir og breyt-
ingar í landbúnaði fyrir komandi
kynslóðir þar sem almannahags-
munir munu ráða för.
Axel Sigurðsson.
Höfundur er búfræðingur,
matvælafræðingur og í 5. sæti
Viðreisnar í Suðurkjördæmi.
Sátt um aflaheimildir
í þágu sjávarbyggða
Í þeirri orrahríð sem útgerð hér
á landi hefur staðið í síðastliðin
misseri hefur sjónum aðallega verið
beint á neikvæða þætti. Sjávarút-
vegur á Íslandi er ein af mikilvæg-
ustu atvinnugreinum landsins. At-
vinnugrein sem skapar mikilvæg
störf bæði beint og óbeint og skilar
þjóðinni mikilvægum tekjum í ríkis-
kassann. En umræðan hefur aðal-
lega snúist um misnotkun á valdi,
yfirgang gagnvart starfsfólki, brask
og brall.
Í samtölum okkar við fjölda fólks,
meðal annars sjómenn og fisk-
verkafólk, hefur komið fram að þau
sem starfa í greininni hafa áhyggjur
af ímynd hennar. Þarna er oft um
að ræða fólk sem hefur unnið við
greinina í tugi ára. Það hefur áhyggjur
af afkomu sinni og samfélagsins sem
það býr í. Þetta eru áhyggjur sem
mikilvægt er að hlusta á.
Stofnum þjóðarsjóð til að
efla byggð alls staðar
Oft hefur því verið borið upp á Við-
reisn að markmið flokksins sé að
eyðileggja greinina og stundum sagt
að flokkurinn sé að leggja hana í ein-
elti. Því fer víðs fjarri.
Við viljum einmitt vernda greinina
og skapa sátt um umhverfi hennar,
meðal annars til að efla byggðir
landsins. Við viljum styrkja þá veg-
ferð sem hún hefur verið á með sjálf-
bærum veiðum, öflugri nýsköpun
og sterku gæðakerfi. Við erum með-
vituð um að sjávarútvegur, eins og
aðrar atvinnugreinar, sé í stöðugri
framþróun. Þetta sést til að mynda
þegar kemur að öryggis- og um-
hverfismálum, þó alltaf sé hægt að
gera betur.
Viðreisn talar fyrir því að tíma-
binda réttinn til veiða um lengri
tíma, meðal annars til að skapa ró
um úthlutanir á heimildum og nýt-
ingu auðlindarinnar sem sannarlega
er eign þjóðarinnar.
Við tölum fyrir gegnsæi og sann-
gjörnu gjaldi af auðlindinni sem
nýtast mun öllum landsmönnum,
ekki síst þeim sjávarbyggðum sem
treysta á atvinnugreinina. Þar væri
til dæmis hægt að horfa til þjóðar-
sjóðs sem styrkt gæti sérstaklega
ákveðin verkefni sem tengist ungu
fólki, íþrótta-, menningar- og æsku-
lýðsstarfi.
Sjálfbærar veiðar,
öflug nýsköpun og
sterkt gæðakerfi
Viðreisn talar fyrir aukinni ný-
sköpun í greininni og styður áfram-
haldandi uppbyggingu sjávarklasa
og vill aukin tengsl sjávarútvegs
við menntastofnanir á öllum skóla-
stigum. Þá er einnig mikilvægt að
horfa til nýrra afleiddra greina sem
tengjast tækni-, markaðs- og sölu-
málum í sjávarútvegi.
Við tölum fyrir möguleikum fólks
og þá ekki síst ungs fólks til að eiga
framtíð í sjávarbyggðum, meðal
annars með því að tryggja nýliðun
og hátæknistörf í greininni svo ungt
fólk sem aflað hefur sér menntunar
geti snúið aftur til baka og átt sína
framtíð þar sem það ólst upp óski
það þess.
Viðreisn styður skynsama upp-
byggingu í fiskeldi og telur mikilvægt
að ákvörðunarvaldið sé hjá fólkinu
sjálfu, þar sem heimafólk fær um
það ráðið hvort og þá hvar slík starf-
semi fer fram og skipulagsvaldið sé
á hendi viðkomandi sveitarfélaga.
Við viljum ábyrga og umhverfisvæna
framleiðslu.
Sköpum sátt
Í samtölum aðila sem vinna í nánum
tengslum við sjávarútveg á fundi í
Hörpu í júní kom fram að sjávar-
útveg verði að kynna betur fyrir
þjóðinni. Það er mikilvægt fyrir
þjóð eins og Íslendinga að þekkja
betur eina af mikilvægustu grunn-
atvinnugreinum þjóðarinnar. Það
er hlutverk okkar allra að skapa já-
kvæða umræðu um sjávarútveg og
lyfta umræðunni á hærra plan. Fólk
sem vinnur við þessa mikilvægu at-
vinnugrein á það skilið.
Umræðan um sjávarútveg hefur
verið of neikvæð í allt of langan tíma.
Það er kominn tími til að skapa sátt
um þessa mikilvægu atvinnugrein og
við viljum leggja okkar af mörkum
svo það geti gengið eftir. Þekking
okkar og reynsla af sjávarútvegi sem
íbúa í sjávarbyggðum og í gegnum
störf okkar í sveitarstjórnum er
dýrmæt þegar þessi mikilvæga at-
vinnugrein er rædd í sölum Alþingis.
Eiríkur Björn Björgvinsson
skipar 1. sæti Viðreisnar
í Norðausturkjördæmi
Guðbrandur Einarsson
skipar 1. sæti Viðreisnar
í Suðurkjördæmi
Guðmundur Gunnarsson
skipar 1. sæti Viðreisnar
í Norðvesturkjördæmi
Deiliskipulag
í Reykjanesbæ
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti 1. júlí 2021
tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Í samræmi
við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér með
auglýst eftirfarandi deiliskipulagsbreyting.
Hafnargata 12
Breyting á deiliskipulagi
Breytingarnar eru þær að bílastæði á lóð verða
staðsett ofanjarðar í stað bílakjallara. Bílastæðafjöldi
á íbúð með tveimur svefnherbergjum verður 1.5 í
stað 1.4 og íbúð með einu svefnherbergi verður 1
í stað 1.4. Innkeyrsla lóðar er frá Norðfjörðsgötu í
stað Hafnargötu (í samræmi við umferðagreiningu
unnin af VSÓ ráðgjöf ehf. dags. 27. september
2018). Lóðarveggur við lóðarmörk Hafnargötu má
vera að hámarki 1.1m hár frá gólfkóta fyrstu hæðar,
lóðarveggur við Aðalgötu má vera að hámarki 1.1m
hár frá kóta nærliggjandi lóðar. Gera verður uppbrot
við vegg í samræmi við línu lóðarveggs í uppdrætti.
Minniháttar frávik uppbrots er heimil með samþykki
skipulagshönnuða, án breytingar á deiliskipulagi.
Dalshverfi og Stapaskóli
Breyting á deiliskipulagi
Breytinga á deiliskipulagi Dalshverfis 1. áfanga en þar
er skipulagsmörkum breytt lítilsháttar og í 2. áfanga
er skipulagi lóðar Stapaskóla breytt í samræmi við
niðurstöðu samkeppni um skólann og endanlegri
útfærslu.
Hafnargata 81-85
Breyting á deiliskipulagi
Í gildandi deiliskipulagstillögu er lagt upp með að
fjarlægja núverandi saltgeymslu og reisa þrjú háhýsi
á lóðinni. Breytingin felst í að halda saltgeymslunni
sem þjónustuhúsnæði og reisa tvö háhýsi á lóðinni.
Helstu breytingar: Niðurrif saltgeymslunnar fellur
niður, heimilaðar er þrjár hæðir fyrir þjónustu- og
verslunarhúsnæði ofan á saltgeymsluna, nýbygging
tveggja 7. hæða fjölbýlishúsa, í stað þriggja 5. hæða,
breytingu á götuheiti lóðar úr Hafnargötu 81, 83
og 85 í Hafnargata 81,83 og Víkurbraut 19. Vanda
skal alla hönnun mannvirkja á lóð, sem samsvarar
mikilvægi staðsetningar þeirra og skal hönnun útlits
húsanna og svæðisins vera lagt fyrir umhverfis-
og skipulagsnefnd, áður en formlega er sótt um
byggingarleyfi. Lögð skal vera áhersla um að fyrsta
hæð þjónustu- og verslunarhúsnæðis sé eins opin
(gegnsæ) eins og mögulegt er.
Tillögur verða til sýnis á skrifstofu Reykjanesbæjar
að Tjarnargötu 12 frá og með 8. júlí til 31. ágúst
2021. Tillögur eru einnig aðgengilegar á heimasíðu
Reykjanesbæjar: www.reykjanesbaer.is Þeim sem
telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn
kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar. Frestur
til að skila inn athugasemdum er til 31. ágúst 2021.
Skila skal inn skriflegum athugasemdum á skrifstofu
Reykjanesbæjar á Tjarnargötu 12 Reykjanesbæ - eða
á netfangið skipulag@reykjanesbaer.is
Reykjanesbæ, 8. júlí 2021.
Skipulagsfulltrúi
víkurFrÉttir á SuðurNESjuM í 40 ár // 11