Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt. 2017, Side 15
15Siglfirðingablaðið
á Siglufirði svo það eru alltaf nægar
ástæður til að heimsækja heimahagana.
Siglufjörður finnst mér flottur bær í
dag. Þegar ég flutti frá Siglufirði var
ástandið frekar ömurlegt, fólk að flytja
burtu, húsin voru að grotna niður og
síldarplönin lúin og götótt og þar fram
eftir götunum.
Nú er búið að taka allt til, búið að
rífa gömlu bryggjurnar, byggja nýja
bryggju og stórt og glæsilegt hótel.
Það eru einnig flottir menningarstaðir
í bænum, glimrandi flott bakarí og
veitingastaðir og svo eru auðvitað
komin göng svo hægt er að keyra á
milli Siglufjarðar, Héðinsfjarðar og
Ólafsfjarðar. Það er stutt að keyra til
Akureyrar, bara skottúr. Þetta er ekki
eins og hér áður þegar þú fórst til
Akureyrar þá fórstu kannski í nokkra
daga.
Mér finnst bærinn orðinn aðlaðandi
og flottur í dag, það er gaman að
koma í heimsókn en ég gæti þó ekki
hugsað mér að eyða ellinni þar. Ég
er líka ánægður með veðráttuna úti í
Noregi meðal annars. Sarpsborg er í
suðaustur Noregi, næstum því niðri
við landamæri Svíþjóðar. það er heldur
ekki svo langt fyrir mig að keyra til
Gautaborgar en það tekur bara tvo
tíma og það tekur bara um fimm
tíma að keyra til Kaupmannahafnar.
Þetta finnst mér líka gefa mér frelsi,
og þess vegna finnst mér það tilheyra
framtíðinni að vera í Sarpsborg áfram,
að geta ferðast auðveldlega um og
slíkt.
Bærinn minn Siglufjörður,
samfélagið þar og lífsreynsla manns í
uppvextinum er þó það sem mótaði
mig og persónuleika minn. Það að
hafa farið að vinna ungur, öðlast
skilning og þroskast með tilsögn
frá þeim eldri og reyndari. Vinnan
mótar mann, maður lærir mikið af
reynslunni. Það eru bara ákveðnir
hlutir sem maður fékk í veganesti að
heiman frá Siglufirði sem ég hef alltaf
með mér, ákveðin gildi í lífinu.
Svo er það söngurinn, félagsstarfið í
barna- og gagnfræðaskólanum, leiklist
og söngur gaf einnig gott veganesti.
Í dag syng ég mikið með kór og svo
syng ég einnig einsöng með kórnum
mínum. Það má líka nefna að þó
mikill söngur sé í fjölskyldunni, þá
voru karlakórinn Vísir, Gautarnir
og fleiri, áhrifavaldar í tónlist, þetta
hlustaði maður á og hlustar á enn í
dag. Ég tek undir og syng með, ég
kann þessi lög. Ég er Siglfirðingur
sama hvað, af því að það er þar sem
ræturnar liggja.
Ég er með fjölda bekkjarsystkina á
Facebook og má segja að maður hafi
endurnýjað kynnin eftir að maður
varð fullorðinn. Ég var á árgangsmóti
í byrjun júlí 2016 sem var mjög
skemmtilegt. Þá endurnýjuðust einnig
kynni við gamla félaga en hins vegar
fann maður líka til söknuðar vegna
þeirra vina sem eru látnir. Það var
samt sem áður mjög gaman að hitta
skólasystkinin og endurnýja vinskap
og við höfum ákveðið að hittast aftur.
Það gefur manni mikið.
Framtíðin
Í dag vil ég lifa lífinu og stunda
áhugamálin. Pólitíkin er óskrifað
blað. Hvernig vil ég vinna í málum
og hvaða tækifæri hef ég. Vegna þess
að við erum í meirihluta í bæjarstjórn
þá er léttara fyrir mann að framfylgja
málum í gegnum bæjarstjórnina og
um leið að þróa og þroska Sarpsborg
sem bæ og samfélag. Sarpsborg er líka
bær sem mér þykir vænt um og ég gæti
aldrei hugsað mér að flytja annað. Þar
vil ég vera og búa. Ég vil nýta krafta
mína í þágu Sarpsborg, bæjarins míns
í Noregi.
Í framtíðinni vil ég vinna og leggja
grunn að góðum eftirlaunaárum Ég er
að koma mér upp litlu smíðaverkstæði
á lóðinni við húsið mitt, þannig að
þegar ég er orðinn ellilífeyrisþegi þá
hef ég tíma til að smíða og skapa,
jafnvel að selja handverk eftir mig.
Þetta fer bara allt eftir heilsunni. Það
væri líka gaman að geta heimsótt
Siglufjörð svona einu sinni til tvisvar á
ári, en það fer svo sem eftir því hvernig
fjölskylduaðstæður eru á Siglufirði
þannig sé ég þetta fyrir mér að koma
kannski að sumri og um jól og fá að
gæða mér á íslenskum jólamat. Það er
nefnilega svo, að Siglufjörður er minn
fæðingarbær og þar liggur hjartað.
Gunnar Rafn og Birgir Schiöth með árgangi 1956 í skólaferðalagi.