Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt 2017, Qupperneq 17

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt 2017, Qupperneq 17
17Siglfirðingablaðið Um mánaðarmótin október/nóvember kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum ævisaga hins eina sanna Alla Rúts sem þrætt hefur marga stigu mannlífsins, suma jafnvel nokkuð myrkvaða. Í bókinni, sem Helgi Sigurðsson, sagnfræðingur og dýralæknir, hefur skrifað er meðal annars þetta: Voveiflegir atburðir verða í Fljótum. Sprúttsali festir tappana ekki vel. Landsþekktur danskennari er hrekktur. Jeppi er pikkfastur í Meyjarhafti. Tunnuverksmiðjan brennur. Rangur brandari er sagður á réttum stað. Bílar og hestar eru seldir og gengur á ýmsu. Bankastjóri þiggur mútur. Laumast er inn á gjörgæsludeildina. Þjófóttur Rúmeni heimsækir landið. Hauskúpa veldur uppþoti í tollinum. 112 milljónir eru óvart lagðar inn á bankareikning. Forsætisráðherrann segir ósatt. Gjaldþrot verður og ekki bara eitt. Túristar eru vaktir með brunabjöllu og svona mætti lengi telja upp viðfangsefni þessarar bókar. Hér á eftir fer lítið kaflabrot úr bókinni: Ástvaldur, verkstjóri í Tunnuverksmiðjunni, var velunnari Alla, giftur móðursystur hans og faðir Heiðars Ástvaldssonar, sem í gegnum tíðina hefur kennt mörg þúsund manns að dansa. Eitt sinn var Heiðar, sem var nokkrum árum eldri en Alli, að sveifla sér í kaðli niðri á bryggju. Kaðallinn var festur í löndunarkrana sem slútti fram yfir bryggjuna. Sveiflararnir fóru því fram og til baka yfir sjónum og var þetta vinsæl iðja hjá ungmennum bæjarins, þótt ekki væri hún með öllu hættulaus eins og gefur að skilja. Og núna sveif Heiðar þarna um og gaf Tarzan ekkert eftir. Alli gat ómögulega stillt sig, hann bara varð að gera sveiflaranum kröftuga smágrikk, svo hann klifraði upp í kranann án þess að nokkur yrði þess var og skar á kaðalinn. Augnabliki síðar svamlaði Heiðar um í grútarsjónum. „Samskiptum“ Heiðars Ástvalds og Alla var þó hvergi nærri lokið. Eftir að Heiðar var fluttur suður og orðinn fullnuma í dansmenntinni kom hann reglulega norður á Siglufjörð til að kenna dans. Hann ók þá stundum um bæinn á jeppa föður síns og hengdi á ljósastaura auglýsingar um danskennsluna. Einhverju sinni var Heiðar uppi á Hlíðarvegi í þessum erindagjörðum. Meðan hann gekk á milli stauranna og skellti á þá auglýsingu læddist Alli að jeppanum og tók hann úr handbremsu. Bíllinn rann af stað, en Heiðar varð þess strax var og brá á það ráð að setja fót fyrir annað framhjólið. Með þessu tókst honum til allrar guðslukku að stöðva ferð bílsins, en um leið stóð hann þarna pikkfastur - með dekkið ofan á ristinni og tók það langan tíma að losa hann úr prísundinni. Það komst upp um Alla og Heiðar bannaði honum að sækja umrætt dansnámskeið. Strákur var ekki sáttur við það og ákvað að hefna sín. Danskennslan fór fram í Alþýðuhúsinu. Alli vissi af dúfnahreiðri í viftunni þar og meðan á einum danstímanum stóð setti hann viftuna í gang með þeim afleiðingum að dúfnaeggin og dágóður slatti af fiðri splundraðist yfir salinn. Þrátt fyrir að Heiðar hefði virkilega fengið að kenna á klækjum Alla þá fyrirgaf danskennarinn prakkaranum og seinna áttu þeir í góðu samstarfi á suðvesturhorninu, því Alli kom oft fram á jólaskemmtunum hjá Heiðari – sem jólasveinn! Bókin um Alla Rúts er jólabókin í ár: Siglfirskur braskari, skemmtikraftur og prakkari 1000 kr. af söluandvirði bókarinnar um Alla Rúts renna til Skálahlíðar, dvalarheimilis aldraðra á Siglufirði.

x

Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni
https://timarit.is/publication/627

Link til dette eksemplar: Númer 62 (okt 2017)
https://timarit.is/issue/423070

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.

Númer 62 (okt 2017)

Iliuutsit: