Feykir


Feykir - 02.06.2021, Síða 10

Feykir - 02.06.2021, Síða 10
Tíminn flýgur ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer. Þessar línur Megasar fljúga stundum um huga minn þegar mér finnst tíminn hlaupa óþarflega hratt frá mér. Já, stundum hreinlega fljúga frá mér. En einhvers staðar stendur að það þýði að manni leiðist ekki - og það get ég alveg tekið undir. Ég held að mér leiðist afar sjaldan. Ég fór að hugsa um hvers vegna þetta væri svona - að tíminn væri alltaf floginn án þess að við neitt sé ráðið. Meira að segja í Covid-ástandi þegar hægðist á öllu og allir höfðu allt í einu svo mikinn tíma - þá hefði ég alveg getað þegið meiri tíma á köflum, t.d. til að sinna náminu sem ég skráði mig í… Kannski er bara erfitt að gera mér til geðs í þessum efnum. Líklegasta niðurstaða mín er sú að ég hafi hreinlega áhuga á of mörgu, reyndar verður það meira að segja svo að vinnutíminn fer að þvælast óþarflega mikið fyrir áhugamálunum, þrátt fyrir að ég hafi sko mjög gaman af vinnunni minni. Mér finnst gaman að hreyfa mig og fer mjög reglulega í gönguferðir eða í tíma hjá Erlu minni Jakobs. (Þó svo hún segi áreiðanlega að ég hafi lítið sést undanfarið ef þið spyrðuð hana). Og nú þegar við hjónin erum búin að sækja reiðhjólin úr vetrargeymslu þá nýti ég hjólið mitt ekki bara til að hjóla í vinnuna heldur líka til heilsuræktar. „Spæni“ um götur bæjarins og nágrannasveita. Mér finnst gaman að syngja og mæti nokkuð reglulega á æfingar hjá snillingnum honum Eyþóri organista. Það er svo gott að syngja. Það að syngja hressir, bætir og kætir - ef einhver efast þá kemur hér áskorun um að mæta á söngæfingu hjá einhverjum hinna fjölmörgu kóra sem starfræktir eru á svæðinu. Það er líka svo gaman að vinna handavinnu - að prjóna, hekla og sauma. Hannyrðir róa nefnilega hugann, ja sko nema þegar illa gengur og það þarf að rekja upp. Það hefur þveröfug áhrif - en þá þarf bara að nýta þroskann sem komið hefur með hækkandi aldri og gefast ekki upp þó móti blási. Nota þrautseigjuna sem ég vil að nemendur mínir búi yfir. Lestur bóka er nokkuð sem allir ættu að temja sér og gera bara sem mest af og oftast. Þannig örvum við hugann, fræðumst og ferðumst til ókunnugra staða. Hittum fólk sem við myndum vilja þekkja – eða bara alls ekki! Lestur er sko bestur. Ekki má gleyma hvað það er gaman að hitta fólk! Það er ekki ofsögum sagt að maður er manns gaman. Ég trúi því að margir hlakki til tilslakana sem færri smit og fleiri bólusetningar bera (vonandi) í skauti sér. Er ekki gaman að vera til? - - - - - - Ég skora á samkennara minn, Lilju Jóhönnu Árnadóttur, að taka við keflinu – enda komin í sumarfrí frá kennslu og hvað er þá betra en að setjast við skriftir. Auðunn og Berglind. MYND AÐSEND Magdalena Berglind Björnsdóttir Blönduósi Heilir og sælir lesendur góðir. Það er Gylfi Þorkelsson sem er höfundur að fyrstu vísunum að þessu sinni, munu þær ortar, þegar nokkuð hörð umræða varð á vinnumarkaði um hvort afköst eða menntun ættu að ráða launakjörum. Neysluna við nögl ég skér nýti úr gömlum fötum. Eftir vinnu varpa mér vanalega flötum. Hver er næstur sjálfum sér að smeygjast fyrst að jötum. Lítið gagnast menntun mér við moðið, svona lötum. Sá góði hagyrðingur okkar Húnvetninga, Jón S Bergmann, mun einhverju sinni á leið sinni til Skagafjarðar hafa farið um Strjúgsskarð snemma morguns í miklu blíðskaparveðri. Urðu þá þessar vísur til. Létt er yfir Langadal lyftir dagur brúnum. Skrifar breiðan blómasal björtum geislarúnum. Eygló býður öllum grið árla og síð um daginn. Mörk og hlíðar mynnast við munarþýðan blæinn. Þrátt fyrir fallegan morgun mun veður hafa skyndilega versnað er á dag leið, þá trúlega með norðanstormi til hafsins eftir næstu vísu Jóns að dæma. Friðarandinn flýr af stað fyrir strandarskærum þar sem Blanda ólmast að ystu landamærum. Erlendur Gottskálksson mun hafa verið virtur og góður bóndi í Garði í Kelduhverfi skömmu fyrir aldamótin 1900. Mun hann einhverju sinni hafa verið svikinn um hestlán og þá ort svo. Fótgangandi flækjast má féll oft styttan reista. Það er djöfull, aðra á eitthvað þurfa að treysta. Það er Hjálmar Freysteinsson sem segir fréttir í næstu limru. Eðlishvöt sumra er ýkt og erfitt að ráða við slíkt. Þegar Ólöf á Bakka eignaðist krakka sagð‘ún: „Já þetta var Þorsteini líkt.“ Ágætur vinur hagyrðinga, Ármann Þor- grímsson, lítur yfir farinn veg og yrkir svo. Oft mig hefur andann skort, endar þá í rugli flest. Ljóðið, sem var aldrei ort alltaf fannst mér vera best. Sá ágæti hagyrðingur og vísnavinur Ólafur Stefánsson lætur hugann reika til fyrri ára þegar hægt var að fá öl að eigin vali. Vísnaþáttur 785 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Margs oft saknar maður hvur - mest af skrýtnu tagi. Ef ég fengi aftur Spur yrði flest í lagi. Fleiri kættust við að heyra af sínum uppá- halds drykk, Ágúst Marinósson var einn af þeim. Helgi í Góu er góður þó, glaður bissness stundar. Selur núna Sínalco sómi í honum blundar. Guðmundur Stefánsson lýsir sinni reynslu frá yngri árum. Hoppa ég á léttri löpp líð ei fyrir strengi. Saup ég fyrr á Sevenöpp sem ég bý að lengi. Sá snjalli Friðrik úr Mývatnssveitinni fékk þef af þessum kveðskap og rifjaði upp að í hans æsku hefði Sana á Akureyri framleitt drykkinn Vallas, kom hann að góðum notum eftir vísu Friðriks að dæma. Fátítt var menn færu á bar þó fullir væru að slaga. Að blanda landa vinsælt var í Vallas forðum daga. Aftur vill Ólafur Stef rifja upp fyrri tíma. Ef ég horfi aftur smá að æsku í Þjórsárveri. Ljúfust nautn var löngum þá lítil kók í gleri. Ágúst Marinós er til í að rifja upp fleiri minningar frá yngri árum. Á sveitaböllum sopið var sukkið slæmt á drengnum. Sjenever á brúsa bar buxna þá í strengnum. Vel man undirritaður þá tíma þegar vin- sældir þessa óþverra drykks voru hvað mestar. Var hann þá seldur í leirbrúsum þykkum og þungum sem tóku líter, af þess- um auma drykk. Varð oft að sulla honum í kjaftinn ef ekkert betra var til og þá jafn- framt vitað að illt verk yrði að æla næsta morgun. Ekki voru allir sammála þessari skoðun undirritaðs á þeim árum sem ég var á vertíð í Eyjum. Einn af góðum kunningjum sem þar var, alvöru sjómaður, hafði þann sið að ná talstöðvarsambandi við góðan vin sinn í Eyjum er hann vissi hvenær komið var í land og biðja hann að panta nóg af víni, var þá ekki komið ríki í Eyjum. Var það gert og sjenninn varð fyrir valinu. Var þar vel slegið út að ýmsra mati, en vininum þakkað fyrir með svofelldum orðum er hann fékk ölið. Þegar ég á þurru dvel þetta tvo þrjá daga í landi. Átján lítra öls ég tel engan vegin fullnægjandi. Veriði þar með sæl að sinni. Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 10 22/2021

x

Feykir

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.