Morgunblaðið - 11.05.2022, Síða 14
14
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. MAÍ 2022
Kæru Kópavogs-
búar.
Það hefur sennilega
ekki farið fram hjá
neinum, sem fylgist
með kosningabaráttu
sveitarfélaganna, að
húsnæðismál næstu 5-
10 árin eru eitt helsta
og mikilvægasta mál-
efnið. Ástæðan er ein-
föld og augljós. Allir
eiga skilið að hafa þak
yfir höfuðið og sá streituvaldur sem
fylgir óöryggi með húsnæði er nokk-
uð sem enginn á að þurfa að upplifa.
Kópavogur hefur staðið framar öðr-
um sveitarfélögum hvað varðar
byggingu nýrra íbúða síðastliðin 10
ár, en húsnæðisskortur er samt sem
áður gríðarlegur og það er verkefni
sem þarf að takast á við. Þegar þessi
grein er skrifuð eru samtals 29 íbúðir
til sölu í fjölbýli og það í öllum Kópa-
vogi, sem telur í dag tæplega 40.000
íbúa. Þegar litið er til leigumarkaðar
bæjarins er staðan enn verri og sam-
kvæmt upplýsingum á fasteignir.is
eru einungis fjórar íbúðir í boði.
Við vitum öll að þetta er staða sem
ekki verður við unað og hún þýðir að-
eins eitt: Næsta bæjarstjórn þarf að
vanda gríðarlega til verka og fara
gaumgæfilega yfir hvernig íbúðir á
að byggja og ekki síst fyrir hverja.
En hvað er hægt að gera? Síðast-
liðna mánuði hafa vextir verið hækk-
aðir verulega sem virðist þó ekki
hafa tilætluð áhrif, því
fasteignaverð heldur
áfram að hækka í
hverjum mánuði.
Landsbankinn og Ís-
landsbanki létu frá sér
greiningu í maí 2021 og
gerðu ráð fyrir 7%
hækkun á árinu 2022.
Hækkunin er hins veg-
ar nú þegar 7,4% og
það bara á fyrstu 3-4
mánuðum ársins og fá-
ir, ef einhverjir, sem
gerðu sér grein fyrir
hversu mikil áhrif
heimsfaraldur myndi hafa.
Erfiðast að kaupa fyrstu eign
„Hvernig getur verðið hækkað
endalaust?“ og „hvernig hefur fólk
efni á þessu?“ eru spurningar sem ég
fæ næstum daglega í mínu starfi.
Svörin geta verið mörg en mín svör
eru eftirfarandi: Um 80% kaupenda
eiga fasteign fyrir. Sú eign hefur
hækkað um 20 milljónir síðastliðin
tvö ár og eignin sem viðkomandi
kaupir hefur sömuleiðis hækkað um
20 til 30 milljónir. Fólk selur á háu
verði og kaupir á háu verði og því eru
um 80% af kaupendum í sama bátn-
um. Stóra vandamálið liggur hjá
þeim sem eru að kaupa sína fyrstu
eign og þar viljum við sjá breytingar.
Margar skýringar er að finna á þess-
ari miklu hækkun síðastliðin 2-3 ár;
áðurnefndur heimsfaraldur, lágir
vextir, auk annarra þátta, en ein
helsta skýringin er allt of lítið fram-
boð.
Vandinn stór og
krefst úrlausnar
Flestir eru sammála um þörfina og
telja að byggja þurfi 4.000 íbúðir á
ári næstu 10 árin (á landinu öllu), en
þess má geta að einungis fjórum
sinnum frá aldamótum hefur okkur
tekist að byggja 3.000 íbúðir á ári.
Aðeins sú staðreynd lýsir mögulega
stærðargráðu vandamálsins sem
blasir við og krefst bráðrar úrlausn-
ar. Staðan er að við Kópavogsbúar
getum byggt um fjögur til fimm þús-
und íbúðir á næstu 10-15 árum.
Svæði sem horft er til eru Glaðheim-
ar, Vatnsendahlíð, Vatnsendahvarf
og þéttingarreitir við Auðbrekku,
Hamraborg og Kársnes. Eftir að því
lýkur er eina leiðin til að byggja
meira að kaupa af öðrum sveitar-
félögum land sem liggur nálægt
Kópavogi.
Þétting byggðar er hins vegar
flókin í framkvæmd. Hver vill láta
þétta byggð beint fyrir framan sig?
Hver vill missa útsýnið sitt? Hver vill
fleiri bíla? Samt sem áður þarf að
þétta byggð og huga um leið að heild-
arhagsmunum Kópavogsbúa. Þeir
íbúar sem búa á þéttingarreitum
verða fyrir ónæði á byggingartíma
og þess vegna þarf gríðarlega mikið
samráð við íbúa og reyna eftir
fremsta megni að klára verkefnin á
sem skemmstum tíma. Einn ljós
punktur fyrir íbúa á þéttingarreitum
er sá að fasteignaverð hækkar mikið
í þeim hverfum þar sem byggð er
þétt með nýjum íbúðum, veitinga-
stöðum o.fl.
En fyrir hvaða hóp á að byggja og
hvernig íbúðir? Sextíu ára og eldri
eru um 20% íbúa Kópavogs en síðast-
liðin 10 ár hefur einungis eitt fjöl-
býlishús verið byggt fyrir þann hóp,
við Sunnusmára. Við viljum byggja
íbúðir fyrir fólkið sem byggði upp
bæinn okkar, fjölbýlishús með sam-
bærilegri þjónustu og við Gullsmára
og/eða Boðaþing. Þörf á slíkum íbúð-
um blasir við því engin svoleiðis eign
er til sölu. Að sama skapi þarf að
byggja íbúðir fyrir unga Kópavogs-
búa sem vilja búa í bænum okkar og
hafa lítið sem ekkert val og auðvitað
fyrir barna- og fjölskyldufólk.
Það þarf að byggja
fyrir alla aldurshópa
Raðhús, parhús og einbýli eru orð-
in það dýr að fáir ráða við svoleiðis
eignir.
Það þarf að byggja fimm her-
bergja íbúðir (fjögur svefnherbergi)
sem er sami fjöldi herbergja og í
flestum rað-, par- og einbýlum fyrir
fjölskyldufólk. Það þarf að byggja til-
tölulega litlar og vel skipulagðar
íbúðir fyrir þá sem yngri eru og svo
íbúðir með færri herbergjum en
stærri alrýmum fyrir þá sem eldri
eru.
Hvað með byggingarkostnað?
En er hægt að lækka bygging-
arkostnað? Væri hægt að byggja
ódýrari íbúðir í Kópavogi? Er hægt
að stytta byggingartíma? Er hægt að
hraða lóðaframboði og hraða fram-
kvæmdum? Á Kópavogsbær að selja
einbýlishúsalóðir sem einungis örfá
prósent íbúa geta keypt? Eða á að
byggja fjórbýli á einbýlishúsalóðum
sem kæmi út í svipuðu bygginga-
magni en fleiri íbúðum?
Þetta eru allt spurningar sem
næsta bæjarstjórn þarf að svara með
heildarhagsmuni íbúa í huga.
Lausn á þessu aðkallandi vanda-
máli er að:
- auka framboð strax
- þétta byggð – þar sem það er hægt
- brjóta land og búa til lóðir
- stytta alla ferla því of langur tími
fer í að fá teikningar samþykktar,
byggingarleyfi, eignaskiptasamn-
inga og annað því tengt
- auka svigrúm á íþyngjandi bygg-
ingarreglugerðum
- passa upp á að ferlið sé skilvirkt
og taki ekki of langan tíma
- fara yfir kröfur skipulagsráðs sem
eru mögulega of stífar, en flóknar
byggingar hækka byggingar-
kostnað
- skoða mögulega á að einfalda
deiluskipulagið þannig að hægt sé
að byggja hagkvæmara húsnæði
Húsnæðisvandi er staða sem ekki
verður við unað og þýðir, eins og áð-
ur sagði, að næsta bæjarstjórn þarf
að vanda afskaplega vel til verka.
Þar er gríðarleg reynsla og þekking
á húsnæðismarkaði mikilvæg.
Eftir Hannes
Steindórsson
»Húsnæðisvandi er
staða sem ekki
verður við unað.
Hannes
Steindórsson
Höfundur skipar fjórða sæti Sjálf-
stæðisflokksins í Kópavogi og hefur
unnið sem fasteignasali í rúm 18 ár.
Hvernig leysum við húsnæðisvanda í Kópavogi?
Á dögunum birti sr.
Gísli Gunnarsson í
Glaumbæ ágæta grein
í Morgunblaðinu (5.5.)
um Skagafjörð og
Hóla. Athygli vekur
þó að í síðari hluta
greinar sinnar gengur
hann gegn ályktun
presta- og djákna-
stefnu þjóðkirkjunnar
sem haldin var í lok
síðasta mánaðar en þaðan var send
þessi áskorun: „Presta- og djákna-
stefna 2022, haldin á Laugarbakka
í Miðfirði 26.-28. apríl, hvetur for-
sætisnefnd kirkjuþings til þess að
draga til baka staðfestingu á
ákvörðun kjörstjórnar um auglýs-
ingu um tilnefningu og kjör nýs
Hólabiskups sem birt var á vef-
svæðinu kirkjan.is 22. apríl sl.“ Var
hún rökstudd með því að nú væri
„að störfum nefnd á vegum kirkju-
þings sem meta á þörf á vígðri
þjónustu kirkjunnar á landsvísu og
eru embætti vígslubiskupa þar
undir“. – Vissulega væri leitt ef
vígslubiskupskjör og -vígsla færi
fram í skugga þessarar ályktunar
þeirra stétta sem málið er skyldast.
Í grein sinni einfaldar sr. Gísli
einnig stöðu vígslubiskupamálsins á
kirkjuþingi. Hann getur aðeins um
eina tillögu sem fram hafi komið á
þinginu á liðnu hausti og lýsir efni
hennar svo að hún hafi gengið út á
að leggja niður vígslubiskupsemb-
ættin í núverandi mynd. Vissulega
má lýsa tillögunni svo. Allt eins má
þó segja að hún hafi gengið út á að
færa embættin til upprunalegs
horfs sem þau höfðu frá stofnun
(1909) og hartnær út tuttugustu
öldina. Þar er þó um smekksatriði
að ræða!
Hitt skiptir meira máli að á
þinginu komu fram tvær tillögur.
Önnur snerist um fyrrgreinda
breytingu en hin um að haldið væri
óbreyttri skipan. Hvorug tillagan
fékk framgang og flutningsmenn
drógu báðar tillögurnar til baka.
Flutningsmaður tillögunnar um
breytingu, Hjalti Hugason, gerði
það með bókun þar sem fram kom
að hann teldi tillöguna ekki hafa
fengið nægilega umfjöllun við
fyrstu umræðu áður en hún fór
fyrir löggjafarnefnd þingsins. Þá
kom fram að hann treysti því að
málefnið muni verða endurvakið í
einhverri mynd á næsta kjörtíma-
bili kirkjuþings. Ekki er okkur
kunnugt um að aðrar bókanir hafi
verið gerðar. Eins og raunar kem-
ur fram í ályktun presta- og
djáknastefnu er því alls ekki hægt
að líta svo á að málið sé útkljáð á
vettvangi kirkjuþings.
Fyrrgreindar tillögur komu ekki
fram að tilefnislausu. Ástæðan fyrir
þeim er sú að í nýjum þjóðkirkju-
lögum er ekki getið um vígslubisk-
upa. Af þeim sökum verður að
kveða á um stöðu þeirra í sérstök-
um starfsreglum. Tilefnið var því
ærið. Það er rétt sem fram kemur í
grein sr. Gísla að fyrr á árinu
gengu í gildi nýjar starfsreglur um
kjör biskups Íslands og vígslu-
biskupa. Ástæða þeirra er hin
sama, þ.e. að á hverjum tíma verða
að vera fyrir hendi fullgildar
starfsreglur um kjör biskups. Nýju
lögin kölluðu því á að slíkar reglur
yrðu staðfestar sem fyrst eftir gild-
istöku þeirra. Meginefni reglnanna
lýtur að því hvernig staðið skuli að
kjöri biskups Íslands. Þau ákvæði
sem við geta átt eru síðan heim-
færð upp á kjör vígslubiskupa. Af
þeim ástæðum voru eins og sakir
standa engar málefnalegar ástæður
til að fella vígslubiskupana út úr
starfsreglunum um kjörið. Af af-
greiðslu þeirra er á hinn bóginn
ekkert hægt að álykta um afstöðu
þingsins til þess hvernig vígslubisk-
upsembættunum skuli háttað í
framtíðinni. Það mál bíður komandi
kirkjuþings. Því má líta svo á að
vígslubiskupskjör nú sé ekki tíma-
bært ef þjóðkirkjan vill vanda
stefnumörkun sína, ákvarðanatöku
og framþróun.
Þess má geta að báðar fyrr-
greindar tillögur voru dregnar til
baka þar sem löggjafarnefnd
kirkjuþings þótti ekki tímabært að
taka afstöðu til þeirra vegna vinnu
nefndarinnar sem presta- og
djáknastefna vísaði til og sr. Gísli
situr raunar sjálfur í. Löggjafar-
nefnd sendi þó frá sér einróma
nefndarálit þar sem því er beint til
forsætisnefndar að fresta kosningu
vígslubiskups á Hólum fram yfir
kirkjuþing í haust. Hún er því á
sama máli og presta- og djákna-
stefnan.
Það er svo rétt sem sr. Gísli
Gunnarsson segir í lok greinar
sinnar að mikilvægt er að Hólar og
Skálholt verði áfram andlegar mið-
stöðvar kirkju og þjóðar. Vandséð
er þó að það velti á því hvort
vígslubiskupar starfi áfram á þann
hátt sem tíðkast hefur frá því
skömmu fyrir sl. aldamót eða á
öðrum grundvelli.
Eftir Hjalta
Hugason og
Stefán Magnússon
Hjalti
Hugason
» Í nýjum þjóðkirkju-
lögum er ekki getið
um vígslubiskupa.
Af þeim sökum verður
að kveða á um stöðu
þeirra í sérstökum
starfsreglum.Tilefnið
var því ærið.
Höfundar sátu á kirkjuþingi sl.
kjörtímabil.
hhugason@hi.is / fagriskogur@nett.is
Stefán
Magnússon
Er tímabært að kjósa
vígslubiskup á Hólum?
Enginn fer varhluta
af mikilvægi húsnæðis-
mála í komandi sveit-
arstjórnarkosningum í
Fjarðabyggð. Flestir
ef ekki allir finna fyrir
mikilli vöntun hús-
næðis, sér í lagi á al-
mennum markaði bæði
til kaups og leigu.
Frambjóðendur
Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð hafa
kynnt metnaðarfulla stefnuskrá fyrir
komandi kosningar þar sem þessi
málaflokkur er sérstaklega nefndur.
Þar fullyrðum við að ráðist verði í
samhent átak atvinnulífs og sveitarfé-
lags um uppbyggingu íbúða. Það er
afar mikilvægt ef við viljum sjá
Fjarðabyggð áfram blómstra. Við
treystum okkur til að leiða þá fram-
kvæmd og tryggja nýtt uppbygging-
arskeið. Metnaðarfull uppbygging-
aráform kalla á sterka forystu og
sóknarhug. Hann höfum við.
Við í Sjálfstæðisflokknum í Fjarða-
byggð ætlum að byrja á því að koma á
samráðsvettvangi byggingaraðila, at-
vinnulífs og sveitarfélags með það
fyrir augum að auðvelda uppbygg-
ingu húsnæðis í öllum byggðakjörn-
um og ná meiri fjölbreytileika í at-
vinnumálum.
Við munum beita okkur fyrir
stuðningsaðgerðum til bygging-
araðila og tryggja fjölgun íbúða.
Grundvöllur þess er að tryggja nægt
lóðaframboð í öllum byggðakjörnum
og mæta þörfum húsbyggjenda. Þá
viljum við hvetja til samstarfs um
uppbyggingu húsnæðis sem hentar 60
ára og eldri.
Við munum ráðast í víðtækt mark-
aðsátak þar sem við kynnum meðal
annars lausar lóðir og kosti þess að
fjárfesta í fasteignum í Fjarðabyggð.
Að sama skapi þarf að tryggja aðgang
að upplýsingum um lóðirnar og kostn-
að við þær. Fjarðabyggð getur farið í
ákveðna forvinnu sem gerir lóðirnar
seljanlegri og minnkað óvissuþætti
sem fylgja sumum lóðum, sem auð-
veldar íbúum og fyrirtækjum að fara
af stað með byggingu húsnæðis.
Við viljum tryggja hófsemi og
hvatningu í gjöldum vegna húsbygg-
inga. Lækka þarf álagningarstuðul
fasteignagjalda á kjörtímabilinu. Að
sama skapi ætti að leggja á sann-
gjarnt vatnsgjald og taka mið af
raunkostnaði en ekki húsnæðisverði.
Vatnsgjald skyldi taka mið af stærð
húsnæðis en ekki verðmæti.
Að endingu viljum við aðstoða og
búa til hvata til að auka nýtingar-
möguleika húsnæðis með það fyrir
augum að fjölga leiguíbúðum á al-
mennum markaði.
Fjarðabyggð hefur alla burði til að
vaxa og styrkjast. Það kallar á metn-
að og kraft í uppbyggingu húsnæðis.
Úr því verður að bæta því það er ekki
hægt að sætta sig við lengri bið eftir
uppbyggingu í húsnæðismálum og
fjölgun í sveitarfélaginu, hættum að
tala um hlutina og byrjum að fram-
kvæma.
Það verður best gert með sóknar-
hug Sjálfstæðisflokksins.
Um hann verður kosið 14. maí nk.
Kosið um húsnæðis-
mál í Fjarðabyggð
Eftir Ragnar Sig-
urðsson og Heimi
Snæ Gylfason
Ragnar Sigurðsson
» Fjarðabyggð hefur
alla burði til að vaxa
og styrkjast. Það kallar
á metnað og kraft í upp-
byggingu húsnæðis.
Höfundar skipa 1. og 5. sæti á fram-
boðslista Sjálfstæðisflokksins í
Fjarðabyggð.
Heimir Snær Gylfason