Morgunblaðið - 10.06.2022, Síða 28

Morgunblaðið - 10.06.2022, Síða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JÚNÍ 2022 H eiða Vigdís Sigfúsdóttir bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, og er fyrsta skáldsaga hennar, Getnaður, nú komin út undir þeim merkjum. Í Getnaði fá fjórar persónur orðið, tveir strákar og tvær stelp- ur um þrítugt. Björgunarsveitar- strákurinn Sævar ríður á vaðið og segir frá fyrstu kynnum sínum af kærustunni og sambandinu eins og það er í dag. Þá tekur Nanna við og segir frá því þegar tvíbura- systir hennar varð ólétt eftir kynni við ónefndan mann. Næst kynnumst við Gerði, sem rifjar upp fyrsta og eina skiptið sem hún svaf hjá stelpu, og loks í síðasta hluta bókarinnar fær Sig- urður orðið, Sigurður sem kyssti stelpu í útskriftarferðinni úr Versló um árið og sér hana nú loksins aftur. Ég vil ekki ljóstra upp meiru um söguþráð bókar- innar því það er mikilvægur þátt- ur verksins að lesandinn fái smám saman að átta sig á umfangi sögunnar og þeim skemmtilega vef sem sögupersónurnar eru flæktar í. Bygging verksins er það snjall- asta í þessari frumraun Heiðu. Hún hefur valið fjórar persónur sem allar tengjast og leiðir les- andann listavel í gegnum þessi ólíku sjónarhorn uns sífellt flókn- ari heildarmynd kemur í ljós. Hún ruglar lesandann í ríminu með því að nota stundum einungis per- sónufornöfn í stað nafna og flakka fram og aftur í tíma, og verður það hin skemmtilegasta ráðgata að klóra sig fram úr því hver tengist hverjum og hvernig. Að lestri loknum langar mann einna mest að byrja upp á nýtt til þess að lesa fyrstu síðurnar með þá vitneskju í farteskinu sem maður hefur öðlast við lok þeirrar síð- ustu. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar verkið um getnað, um barn- eignir. Það segir af fólki á barn- eignaraldri, akkúrat á skurðpunkt- inum, „nógu fullorðið“ til þess að fjölga sér og enn „nógu ungt“ til þess að fjölga sér. Kvenþjóðin fer að finna fyrir tifandi klukkunni og væntingum tengdamæðranna og það hefur ekki síður áhrif á karl- peninginn. Verkið hverfist um ástalífið eins og það getur verið í samfélagi þar sem allir þekkjast. Eftir rúman áratug á stefnumótamarkaðnum er hringurinn farinn að þrengjast hjá sögupersónunum og tengslin orðin flóknari en þau hefði grun- að. Höfundurinn er ekkert að skafa af hlutunum, djammsögur og kynlífslýsingar fá töluvert rými en það fer efniviðnum ágætlega. Söguþráðurinn í Getnaði er ýkt- ur, farsakenndur, en samt réttum megin við línuna. Tilviljanirnar eru bara svona, stundum alveg fá- ránlegar. Það er mikill húmor í verkinu sem blandast yfirleitt vel við þessar hversdagslegu en samt svo fáránlegu aðstæður sem skap- ast hjá sögupersónunum. Þrátt fyrir að verkið sé létt og skemmtilegt er ekki þar með sagt að það taki ekki á erfiðum mál- efnum. Kómíkin á það til að hafa yfirhöndina og árekstrar kómíkur og alvarlegri viðfangsefna koma stundum spánskt fyrir sjónir en höfundinum tekst samt að með- höndla efniviðinn af virðingu. Stíllinn er hversdagslegur, sem hæfir þessu unga fólki vel. En það er ekki þar með sagt að hann sé á einhvern hátt ómerkilegur. Heiða brýtur einfaldan textann oft upp með ljóðrænum setningum og lúmskum húmor. Hvernig hún blandar saman vangaveltum um súrdeigsbakstur og móðurhlut- verkið er gott dæmi. Þessar pæl- ingar eru kannski ekkert gífurlega djúpar en þær eru skemmtilegar engu að síður. Hér undir lokin er vert að minnast á teikningar Alexöndru Buhl á kápu bókarinnar, þær eru stórskemmtilegar, fara innihaldi bókarinnar vel og hún á hrós skil- ið fyrir þær. Getnaður er ljómandi góð bók fyrir ungt fólk, fyrir fólk sem er ungt í anda og jafnvel fyrir alla þá sem voru í það minnsta einu sinni ungir. Flækt í reykvískt ástalíf Ljósmynd/Gunnlöð Jóna Snjöll Bygging verksins er það snjallasta í frumraun Heiðu Vigdís- ar, Getnaði, að mati gagnrýnanda. Skáldsaga Getnaður bbbbn Eftir Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur. Forlagið, 2022. Kilja, 149 síður. RAGNHEIÐUR BIRGISDÓTTIR BÆKUR Myndlistarkonan Paula Rego er látin, 87 ára að aldri. Rego fæddist í Portú- gal en bjó og starfaði í Lond- on. Rego var list- málari og þekkt og virt í heimi myndlistar. Stutt er síðan haldin var yfirlitssýning á verkum hennar í Tate Britain í London en hún komst fyrst í sviðs- ljósið þegar hún sýndi með London Group á sjöunda áratugnum, þar sem David Hockney var meðal lista- manna. Auk þess að sinna myndlist, varði hún fjölda ára í að berjast fyr- ir réttindum kvenna og þá sér- staklega til þungunarrofs, að því er fram kemur á vef The Guardian. Segir þar að Rego hafi verið heilluð af ævintýrum og að pólitísk mál- verk hennar tekið fyrir efni á borð við vald, eignarhald, æsku og kyn- ferðisbrot. Rego var þó fyrst og fremst þekkt fyrir málverk, pastelteikn- ingar og grafíkverk sem innblásin voru af þjóðsögum. Þótti hún einn merkasti listmálari Bretlands, af þeim sem enn væru á lífi, og einn merkasti listmálarinn á sviði fígúratífrar myndlistar. Árið 2010 var hún öðluð af Elísabetu II. Eng- landsdrottningu og hlaut þá titilinn „lafði“. Verk Rego eru metin á milljónir sterlingspunda og í strandbænum Cascais í Portúgal má finna safn helgað henni. Paula Rego látin, 87 ára að aldri Paula Rego Allsérstakt eintak af hinni þekktu bók Margaret Atwood, The Handmaid’s Tale eða Saga þern- unnar, var selt á uppboði í Sothe- by’s á þriðjudag fyrir 130 þúsund bandaríkjadali, jafnvirði um 17,2 milljóna króna. Mun ágóðinn renna til samtakanna PEN America sem helga sig tjáningarfrelsi. Bókin er að mestu leyti úr sérunnu áli sem ekki er hægt að brenna, eins og sjá má á myndbandi þar sem Atwood reynir það einmitt með eldvörpu. Atwood segist hæstánægð með söl- una og vonar að hún muni vekja enn frekari athygli á mikilvægi tjáningarfrelsis, að því er fram kemur í frétt The Guardian. Óbrennanleg bók seld á uppboði Óbrennanleg Atwood með eldvörpu. Sotheby’sAFP Margrét Jóns- dóttir opnar sýn- inguna Óbærileg- ur léttleiki tilverunnar í Galleríi Gróttu í dag, föstudag, kl. 16. „Tíminn og náttúran um- breytir, skemmir og eyðir sífellt myndum og gerir að lokum ævistarf okkar flestra að engu. Við hverfum síðan í tómið og ummyndumst í eitt- hvað allt annað, eins og hugmynd- irnar eða hina lifandi list sem er auð- vitað bara lífið sjálft. Margrét leitast við að túlka það sem hún skynjar í umhverfinu, þjóðfélagsstöðu sinni og samfélaginu. Verkin sem hún sýnir núna eru unnin í Frakklandi en þar lokaðist hún inni, ein og yfir- gefin, vegna slyss og fötlunar, ásamt vírusógninni sem lokaði landinu og kom í veg fyrir allar ferðir,“ segir í tilkynningu um sýninguna. Léttleiki í Gróttu Margrét Jónsdóttir Árni Matthíasson arnim@mbl.is Brynja Hjálmsdóttir vakti talsverða athygli fyrir fyrstu ljóðabók sína, Okfrumuna, sem kom út fyrir þrem- ur árum. Fyrir hana hlaut Brynja tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar, auk þess sem hún var valin ljóðabók ársins af starfsfólki bókabúða. Næsta ljóðabók Brynju, Kona lítur við, kom út á síðasta ári og var með- al annars tilnefnd til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar. Í dag kemur svo út bókin Ókyrrð, gamanleikur sem gerist í flugvél á tímum heimsfaraldurs og hverfist um fjórar persónur sem allar stefna í ólíkar áttir. Kemur kannski ekki á óvart að skáld skrifi um atburði í heimsfaraldri, en svo vill til að Brynja skrifaði leikritið fyrir fimm árum, svo hennar nýjasta verk er í senn hennar elsta verk. Brynja seg- ir frá verkinu og rithöfundarferli sínum í viðtalsþættinum Dagmálum í dag. Ókyrrð er gefin út í takmörkuðu upplagi, aðeins í 300 númeruðum og árituðum eintökum, og verður ekki endurprentuð, að því er kemur fram á vefsetri útgáfunnar. Brynja segir að útgefandi hennar hafi stungið upp á því að gefa leikritið út, hafði vitað af því að hún ætti það niðri í skúffu, en það varð til sem loka- verkefni í ritlistarnámi. Eins og Brynja rekur söguna var leikritið að mestu tilbúið á sínum tíma, þótt hún hafi kíkt á það öðru hverju frá því það lenti ofan í skúffu, en svo hafi hún unnið aðeins við það eftir að ákveðið var að gefa það út. „Þetta er það fyrsta sem ég skrifaði í fullri lengd og fannst það hrikalega erfitt. Ég gerði ótrúlega mörg uppköst og þetta ferli, að læra að henda út og breyta, tók langan tíma og mikla vinnu. Svo var for- vitnilegt að taka það upp aftur nú, þegar ég er orðin aðeins betri, og sjá þá strax hvað þarf að betrum- bæta.“ Það er margt ólíkt með leikriti og öðrum skáldskap, enda byggist leik- rit sem kemst á fjalirnar á sam- starfi, því textinn breytist og slípast í meðförum leikara og leikstjóra. Brynja segir að einmitt það hve leikritun sé ólík öðrum skáldskap geri það að verkum að henni þyki til að mynda mjög stórt og skemmti- legt skref að leggja verk sitt í hend- urnar á einhverjum öðrum og treysta þeim. „Ég hef einu sinni fengið uppsett leikverk í útvarpsleikhúsinu. Mér fannst það frábærlega skemmtileg upplifun að sleppa höndunum af verkinu og svo kemur alltaf einhver lending sem maður bjóst alls ekki við. Ég held að það geti verið erfitt fyrir marga, en mér finnst það mjög heillandi.“ Eins og getið er gerist leikritið í miðjum heimsfaraldri, „meðan allur heimurinn er veikur heima með fuglaflensuna“, eins og flugstjórinn Svanhildur segir við Svanhvíti, dótt- ur sína, snemma í verkinu. Brynja segist ekki vera spákona og í raun hafi fuglaflensufaraldur bara verið leið til að útskýra það að það eru bara tveir farþegar í flugvélinni og svo flugstjóri og -þerna – „þetta var mín tilraun til að gera absúrd- leikrit“. Brynja segist vera með fleiri hug- myndir að leikritum þótt hún sjái ekki fyrir sér hvenær þær fái að komast á blað. „Mér finnst þó rosa- lega skemmtilegt að skrifa leiktexta og finnst það standa nær því að skrifa ljóð en að skrifa frásagnar- prósa. Hvert augnablik og hver lína verða að vera hlaðin, dálítið eins og ljóðlínur, og maður þarf alltaf að kjarna rosalega mikið, eins og fræg lína Tsjekovs; eiginkona er eigin- kona. Þegar maður er búinn að skrifa og skrifa og skrifa, þá stend- ur kannski bara eitthvað svona ein- falt og þrungið eftir. Þetta er skemmtileg vinna og ég væri alveg til í að gera meira af henni.“ Brynja er mikil kvikmynda- áhugakona, var til að mynda kvik- myndagagnrýnandi Morgunblaðsins um hríð, og hún segist geta hugsað sér að skrifa fyrir kvikmyndir, með fyrirvara þó. „Ég hef alltaf verið þakklát því fólki sem er tilbúið að starfa við að búa til bíómyndir, því mér finnst það ekki mest spennandi starf í heimi; það er svo svakalega mikið í húfi. Ég hef verið á setti, litlum settum reyndar, og það er ekki mitt eftirlætisumhverfi, en það væri gaman að vera í handrits- teymi.“ Morgunblaðið/Ágúst Óliver Absúrd Fyrsta leikrit Brynju Hjálmsdóttur, Ókyrrð, kemur út í dag, en verkið skrifaði hún fyrir fimm árum. Yngsta verkið er það elsta - Nýtt leikrit Brynju Hjálmsdóttur gefið út í dag í takmörkuðu upplagi - Fjallar um fámenna flugferð í heimsfaraldri en þó samið fyrir fimm árum

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.