Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2022, Page 15
12.6. 2022 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
vini mína. Fóstbræðralag okkar Þorgeirs er svo
gamalt að við munum varla eftir því hvenær
blóði var blandað. Að eiga góða vini er það
nauðsynlegasta í veröldinni og ég hef sem betur
fer aldrei átt óvini. Ef ég ætti óvin þá væri það
manneskja sem ég þyrfti að hlaða niður í heil-
ann á mér og marinera þar. Mér þykir nú nokk-
uð vænt um þetta heilabú sem ég er með og vil
ekki menga það með einhverjum óvinum. Ég
nenni ekkert að standa í því en auðvitað lendir
maður í að kýta, rífast og skammast en óvin-
skapur er ekki til í mér.“
Hugðist einbeita sér að myndlist
Bjartmar var aldeilis ekki hættur að fóðra tón-
listarunnendur á grípandi lögum eftir að hafa
sent frá sér Í fylgd með fullorðnum því á næstu
plötu var lagið Með vottorð í leikfimi. Á næstu
árum kom einnig Engisprettufaraldurinn sem
Haraldur átti ekki að hafa áhyggjur af, auk
þess sem Bjartmar söng um Járnkarlinn með
Eiríki Fjalari og samdi textann við Yatzy hjá
Stjórninni, sem þá laugaði sig í vinsældum eftir
Bjarmalandsför í Eurovision.
Bjartmar var mjög afkastamikill lagahöf-
undur á níunda áratugnum, því hann sendi frá
sér plötu á hverju ári frá 1984 til 1988. Aftur
komu svo plötur frá honum 1991 og 1992. Þá
hélt Bjartmar til Danmerkur í myndlistarnám
og blaðamaður verður undrandi þegar Bjart-
mar lýsir því að þá hafi staðið til að hætta að
semja tónlist.
„Ég var alveg ákveðinn í því. Úti í Danmörku
tók ég einstaka verkefni að mér en var ekkert
að spila á tónleikum eða neitt slíkt. Ég hélt að
þegar ég færi í myndlistarnámið, yrði ég að
sturta hinu niður en það er bara eins og að
sturta niður hluta af sjálfum sér og sinni hugs-
un. Það er ekki hægt. Fjölbreytnin er mjög góð
og ég þakka bara fyrir að hafa fengið þetta í
vöggugjöf.“
Sá Ragnar og Ellý á Þjóðhátíð
Spurður um hvort honum þyki vænna um ein-
hver lög umfram önnur, nefnir Bjartmar sér-
staklega tvö lög.
„Tvö lög eru huglæg fyrir mér. Annars vegar
þegar Ragnar Bjarnason bað mig um að semja
fyrir sig lag. Af því þetta var Ragnar Bjarnason
og lagið var svona vel flutt, og vel útsett, þá rís
það náttúrlega mjög hátt á skalanum hjá mér.
En ég nefni einnig minningarljóð sem ég samdi
um vin minn, Rúnar Júlíusson, og heitir Negril.
Það stendur mér alltaf mjög nærri og ég myndi
segja að þessi tvö lög séu ofarlega á listanum.
Við þetta mætti bæta lagi sem var á Með vott-
orð í leikfimi og heitir Ljóð um þig. Það fjallar
um lítið barn sem liggur í vöggunni og virðir
fyrir sér öll andlitin sem eru að horfa á það. All-
ir vilja eiga svipinn en barnið glottir bara fram-
an í heiminn.“
Hér má skjóta því inn að Júlíus, sem er í
Bergrisunum með Bjartmari, er sonur Rúnars
Júlíussonar. Einnig eru skemmtilegar teng-
ingar á milli Ragga Bjarna og Bjartmars. Ekki
einungis í gegnum sameiginlegan vin, Þorgeir
Ástvaldsson, heldur söng María Helena með
Ragga Bjarna um tíma. „María byrjaði ung í
kórastarfi og var í söngskólanum. Hún söng
með Ragnari í þrjú ár á Hótel Sögu en var ekki
nema 19 ára þá.
Þá kynntist ég Ragga Bjarna en ég hafði auð-
vitað fyrst heyrt hann syngja í útvarpinu sem
krakki. Þegar ég bjó í Eyjum, fór ég í fyrsta
skipti á Þjóðhátíð þegar ég var 8 ára. Þá voru
Ragnar Bjarnason og Ellý Vilhjálms á sviðinu
að flytja Ég veit þú kemur í kvöld til mín sem þá
var Þjóðhátíðarlagið. Það var mikil upplifun og
mér fannst svo merkilegt að sjá manninn á bak
við röddina sem ég hafði heyrt í útvarpinu. Alla
tíð hefur röddin setið í mér sem ein sú fegursta
sem ég hef heyrt í söng. Mér var því mikill heið-
ur að því að semja lag fyrir hann og ég er fullur
lotningar.“
María bjargaði laginu dýrmæta
Hér höfum við auðvitað verið að ræða um lagið
Þannig týnist tíminn eftir Bjartmar sem Raggi
Bjarna og Lay Low fluttu. Bjartmar segir að
María hafi bjargað laginu.
„Ég ber nú eiginlega allt undir hana og það
var hún sem bjargaði þessu lagi. Við bjuggum
þá austur á Eiðum og hún var svæðisfulltrúi
Rauða krossins á Austurlandi en við bjuggum
þar í tólf ár. Ég var að spila lagið og var fastur í
því. Ég notaði enn kassettutæki á þessum tíma
og ætlaði að taka yfir og byrja upp á nýtt eins
og ég átti til að gera. Ég var að spila grunninn
að laginu inn á segulbandið og þá kemur María
hlaupandi og segir: „Haltu þessu. Ekki taka yfir
þetta.“ Á þessum tíma var ég að skrifa skáld-
sögu og hún endaði á ljóðinu Þannig týnist tím-
inn. Lagið lá eiginlega inni í ljóðinu. Þegar ljóð-
ið er tilbúið er svo auðvelt að fara í lagið. Svona
lag verður að hafa fá orð. Ekki sögu, heldur
eitthvað sem þú getur raulað með. Í framhald-
inu kom þetta af sjálfu sér en þá hafði Raggi
beðið mig um lag,“ rifjar Bjartmar upp.
Fleirum en Bjartmari þótti vel takast til með
þetta fallega lag, því sjónvarpsáhorfendur
völdu það óskalag þjóðarinnar í samnefndum
þætti hjá Ríkissjónvarpinu árið 2014. Í þætt-
inum var lagið flutt af Páli Rósinkranz.
„Þetta heppnaðist vel. Ég tala nú ekki um
þegar Ragnar kom með Lay Low inn í þetta og
Jón Ólafsson útsetti lagið og gerði á frábæran
hátt. Þetta rúllaði svo sætt í gegn og ég var al-
veg himinlifandi yfir því að vera beðinn um
þetta. Hann var svo yndislegur náungi, hann
Ragnar. Það var alveg með ólíkindum hvað
hann var fallegur og góður maður.“
Gera viðurkenningar sem þessi mikið fyrir
Bjartmar?
„Ég er þakklátur, stoltur og umfram allt lít-
illátur. Mér finnst það vera mannkostir sem við
eigum að rækta svolítið betur upp í okkur. Rétt-
lætiskenndin er æðst allra dyggða,“ segir
Bjartmar Guðlaugsson og lokaorðin verða varla
miklu betri, enda er rætt við eitt af okkar snjall-
ari skáldum síðustu áratugina.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
’
Við erum nú bara hérna á
Íslandi og þekkjum hvert
annað. Þú þarft ekkert að fá þér
leyninúmer þótt þú sért beðinn
um að vera á sjálfu í Bónus.
Það er alveg á hreinu.
Viðeigandi að maðurinn sem orti um Sumarliða stilli sér hér upp.
Ljósmynd/Úr einkasafni
Bjartmar í Eyjum þar sem hann
bjó á yngri árum og með óvenju
stutt hár á sinn mælikvarða.
Ljósmynd/Úr einkasafni
Skáldið hugsi á
svip. Hér gæti ljóð
verið að fæðast.
Ljósmynd/Úr einkasafni