Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.06.2022, Page 20
20 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12.6. 2022
VINÁTTA
Í
Cleveland Heights í Ohio-ríki Banda-
ríkjanna búa tvær vinkonur aðeins
steinsnar hvor frá annarri. Píanókenn-
arinn Julie Mangino rölti yfir til ís-
lenskrar vinkonu sinnar, listakonunnar
Hildar Ásgeirsdóttur, sem búið hefur í borg-
inni í bráðum fjörutíu ár. Þær hafa þó þekkst
enn lengur, eða allt frá árinu 1975, þá tólf og
þrettán ára gamlar. Þá bjó fjölskylda Hildar í
Cleveland þar sem faðirinn, Ásgeir Jónsson,
nam hjartalækningar við spítalann þar í borg.
Móðir Hildar, Ragnhildur Benediktsdóttir,
sótti tíma í háskóla nokkrum og kynntist þar
móður Julie, Rosemarie, og með þeim tókst
vinskapur. Fljótlega fóru konurnar tvær að
hittast með börnin og það leið ekki á löngu þar
til Hildur og Julie voru orðnar perluvinkonur.
Við hittumst í eldhúsinu hjá Hildi og yfir
kaffibolla eru rifjaðir upp gamlir og góðir
tímar; skiptinemaárið, íslenskukennslan og
vinskapurinn sem haldist hefur í heil 48 ár.
Sorg að kveðja bestu vinkonuna
Julie er yngst og eina stúlkan í hópi sjö
systkina. Það var því oft líf og fjör á hennar
heimili, en á áttunda áratugnum bjó hún í
stóru húsi úti í skógi þar sem leiksvæðið var
náttúran í kring.
„Við fórum stundum í heimsókn til Julie og
fórum þá út í skóg að sveifla okkur í vínviði,“
segir Hildur og segir að ári eftir fyrstu kynnin
hafi þær byrjað að hittast fyrir alvöru.
„Við hittumst oft um helgar og bróðir minn
keyrði okkur alltaf, í bíó eða mig heim til ykk-
ar, og við gistum hvor hjá annarri til skiptis.
Svo vorum við oft að passa litlu íslensku
krakkana sem bjuggu í götunni þinni, Hildur,“
segir Julie á fallegri íslensku, en ótrúlegt en
satt talar Julie enn nánast lýtalausa íslensku
og ekki er að heyra á henni amerískan hreim.
„Já, alveg rétt, við vorum barnapíur!“ segir
Hildur, sem var búin að steingleyma þessu, en á
þessum tíma bjuggu fimm íslenskar lækna-
fjölskyldur í einni og sömu götu og því stór hóp-
ur íslenskra barna, en af þeim var Hildur elst.
Það var svo árið 1977 að fjölskylda Hildar
flutti aftur heim til Íslands og voru vinkon-
urnar að vonum afar leiðar.
„Það var mjög sorglegt fyrir okkur því við
vorum bestu vinkonur í heiminum,“ segir Julie
og segist strax hafa reynt að hugsa upp leiðir
til að geta heimsótt vinkonu sína.
„Ég vissi að það voru til skiptinemasamtök
sem hétu AFS og spurði mömmu hvort það
væri ekki góð hugmynd ef ég myndi fara til Ís-
lands í gegnum AFS. Mamma sagði þá: Viltu
ekki bara koma og heimsækja okkur?“ segir
Julie, en þarna á hún við hina íslensku mömmu
sína, Ragnhildi, sem hafi þá svarað að ekki
þyrfti nein samtök til þess að hún gæti komið
og dvalið hjá þeim.
Svið fyrsta kvöldið
Það var svo ári seinna, árið 1978, að Julie lét
drauminn rætast og flutti til Íslands til vin-
konu sinnar, en fjölskyldan var þá nýflutt í ein-
býlishús í Garðabæ.
„Ég kom fjórða júlí, ég man eftir því. Þá var
ég fimmtán, alveg að verða sextán. Um haustið
fór ég í Fjölbraut í Garðabæ en Hildur var í
Garðaskóla,“ segir Julie og segist hafa verið
frá sér numin yfir landi og þjóð.
„Mér fannst allt æðislega skemmtilegt og
öðruvísi! Þarna var heimur sem ég hefði aldrei
getað ímyndað mér. Mér fannst ég oft vera
stödd í málverki eftir Salvador Dalí; landslagið
var svo flott og öðruvísi. Það var allt svo nýtt,“
segir Julie, en þær vinkonurnar deildu litlu
herbergi.
Ragnhildur hafði skipulagt skemmtilega
viku fyrir vinkonurnar strax eftir komu
Julie.
„Við byrjuðum á því að fara í Kerlingarfjöll.
Ég var nýkomin til landsins og við vorum
sendar þangað en ég kunni ekkert á skíðum.
En það var alveg æðislegt!“ segir Julie sem
segist hafa brugðið í brún þegar þær settust
niður í kvöldmat í Kerlingarfjöllum.
„Fyrsta kvöldið voru svið í matinn! Ég man
að ég spurði Hildi hvað þetta væri eiginlega,
ég hafði aldrei séð annað eins,“ segir hún.
„Þarna voru einhverjir strákar sem spurðu
hvort þeir mættu borða augun. Ég sagði að
það væri alveg sjálfsagt!“ segir hún og skelli-
hlær.
Hildur segist að vonum hafa verið glöð að fá
bestu vinkonuna til sín.
„Það var alveg frábært og mikill spenningur
í gangi,“ segir Hildur og segir Julie strax hafa
dottið inn í sinn vinahóp.
Eftir að sumarfríi lauk tók alvaran við og
Julie fór í fjölbraut.
„Það var fínt í skólanum en ég skildi auðvit-
að mjög lítið, enda kunni ég ekkert í íslensku.
Svo fór ég líka í píanónám hjá Gísla Magnús-
syni í Tónlistarskóla Garðabæjar. Hann var
svo flinkur og góður við mig,“ segir Julie og
segir félagslífið hafa verið ólíkt því sem hún
átti að venjast frá Ameríku.
„Svo fórum við auðvitað niður á Hallær-
isplan um helgar,“ segir Hildur.
„Já, ég fékk að kynnast unglingamenningunni
og fannst það skemmtilegra en í Ameríku. Það
var kannski meira frelsi á Íslandi,“ segir Julie.
Rifust bara yfir þrifum
Julie vildi endilega læra íslensku en segir það
hafa gengið hálfbrösuglega til að byrja með.
„Það var svo í febrúar að ég ákvað að hætta
alveg að tala ensku,“ segir Julie og segist hafa
ákveðið á föstunni að hún mætti alls ekki tala
eitt orð í ensku, en Julie er kaþólsk.
„Svo uppi í rúmi á kvöldin kenndi Hildur
mér íslensku. Það fór að ganga þegar ég hætti
að tala ensku, en ég las líka krakkabækur og
Tinnabækur, sem hjálpaði mikið,“ segir hún og
fljótlega náði hún afar góðum tökum á málinu.
„Hildur var mjög ströng við mig! Ég man
þegar ég lærði að segja orðið brjálæði. Það tók
mig alla nóttina! Brjá … brjá … brjálæði!“
segir Julie og hlær.
„Og orðið smjör,“ skýtur Hildur inn í.
„Já, og orðið herbergi. Það var ofsa erfitt.“
„Við vorum öll kvöld að æfa orð, aftur og aft-
ur,“ segir Hildur, sem viðurkennir að hún hafi
verið strangur kennari.
Hildur og Julie segja að sér hafi alltaf komið
vel saman, en muna þó eftir einu ágreiningsefni.
„Manstu þegar við vorum að þrífa saman?“
spyr Hildur og Julie tekur bakföll af hlátri.
Blaðamaður skilur ekkert en fær fljótt að vita
að þær hafi verið að þrífa hús í nágrenninu fyr-
ir smá aur og ekki hafi þær verið samtaka í því
hvernig ætti að þrífa.
„Við rifumst aldrei nema þegar við þrifum
saman hús! Ég þurfti að hafa allt fullkomið,“
segir Julie og segir aðra þeirra einhvern tím-
ann hafa strunsað út í fýlu.
„Já, hún vildi þrífa allt með tannbursta!“
segir Hildur.
Erfitt að segja orðið brjálæði!
„Við tölum alltaf íslensku saman
og höfum gert alla tíð. Ég tala aldr-
ei ensku við hana,“ segir Hildur og
Julie segir það líka alveg bannað.
Morgunblaðið/Ásdís
Í tæpa hálfa öld hafa þær
verið vinkonur, Hildur
Ásgeirsdóttir og Julie Mang-
ino, en þær kynnstust á ung-
lingsárunum og hafa fylgst að
síðan. Julie talar reiprennandi
íslensku og hefur haldið henni
við í öll þessi ár.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
’
Fyrsta kvöldið voru svið í
matinn! Ég man að ég
spurði Hildi hvað þetta væri
eiginlega, ég hafði aldrei séð
annað eins. Þarna voru ein-
hverjir strákar sem spurðu
hvort þeir mættu borða augun.