Mosfellingur - 09.12.2021, Blaðsíða 34
MarkMið
Morgundagsins
Ég er að vinna með öflugu teymi
þessa dagana. Verkefninu sem
við erum að vinna að núna miðar vel
áfram og það er mjög líklegt að við
komumst mun lengra með það en
gert var ráð fyrir í upphafi þess. Ein
af ástæðum þess er að markmiðin
eru skýr. Bæði aðalmarkmiðið og
sömuleiðis markmið hvers dags.
Þegar vinnudagurinn er að klárast
tökum við stuttan fund, förum yfir
hvað við fórum langt með markmið
þess dags og setjum okkur markmið
fyrir morgundaginn miðað við stöð-
una í dag. Tökum svo vinnurispu,
klárum daginn og höldum brattir
heim – sérstaklega þegar við höfum
komist lengra með verkefnið en við
áttum von á.
Þetta vinnulag hentar mér mjög
vel. Og það er einfalt að yfirfæra
það yfir á lífið sjálft. Þú setur þér
markmið og vinnur að því alla daga.
Gerir eitthvað sem færir þig nær
markmiði þínu á hverjum degi,
sama hversu stórt eða smátt það er.
Tekur stöðuna í lok dags, ákveður
hvað þú getur gert á morgun til að
komast nær stóra markmiðinu og
framkvæmir það svo.
Stóra markmiðið getur verið
hvað sem er, en það þarf að vera
eitthvað sem þér finnst spennandi
og þannig að þér finnist á þeim tíma-
punkti sem þú setur þér markmiðið
að það sé alls ekkert mjög líklegt að
þú náir því. Þannig verður markmið-
ið spennandi og hvetjandi. Og með
því að vinna að því á hverjum degi,
færist þú nær.
Það að setja markmið fyrir morg-
undaginn heldur manni á tánum
og í fókus. Allt verður skýrara og það
er miklu skemmtilegra að vinna á
þennan hátt heldur en að mæta bara
í vinnuna og sinna fyrirliggjandi
verkefnum. Sama hver vinnan og
verkefnin eru.
Talandi um
skemmtileg
markmið. Hið
árlega utanvegar-
þrautahlaup, KB
þrautin, verður
haldin laugardag-
inn 21. maí 2022.
Þið lásuð það
fyrst hér!
HeilsuMolar gaua
- Aðsendar greinar34
Guðjón
Svansson
gudjon@kettlebells.is
www.fastmos.is
Frá því Covid-19 skall á með öllum
þeim ósköpum sem því hefur fylgt
hefur skapast umræða í þjóðfé-
laginu um að heimilisofbeldi hafi
aukist mikið og tilkynningum til
barnaverndar fjölgað.
Heilu fréttatímarnir voru und-
irlagðir og mikið gekk á á höfuð-
borgarsvæðinu í þessum málum,
en þar var þó aðallega verið að vísa til fjölg-
unar í öðrum sveitarfélögum því á sama
tíma í Mosfellsbæ sáum við ekki merkjandi
aukningu í þessum sömu tilkynningum.
Við byrjuðum að fjalla sérstaklega um
þessi mál á fundum okkar í fjölskyldunefnd
Mosfellsbæjar, upplýsingum var safnað fyr-
ir nefndina og fékk málið heitið „Covid-19
stöðuskýrsla fjölskyldusviðs“. Þessi skýrsla
var fyrst lögð fram á 293. fundi fjölskyldu-
nefndar 19. maí 2020. Þar var ekki að sjá
sýnilega aukningu í þeim málefnum sem
fjallað hafði verið um í fréttum. Á fundi
nefndarinnar nr. 292 sem haldinn var
17. mars var farið yfir mál sviðsins vegna
Covid-19 áhrifa og tryggt að allir skjólstæð-
ingar Mosfellsbæjar fengju nauðsynlega
þjónustu og gerðar yrðu ráðstafanir til að
tryggja bæði starfsmönnum og notendum
þjónustu fyllsta öryggi vegna aðstæðna. Það
tókst og eiga starfsmenn fjölskyldu-
sviðs Mosfellsbæjar hrós skilið fyrir
góðan undirbúning og skipulag.
Síðan fyrsta skýrslan var lögð
fram í maí 2020 höfum við á hverj-
um fundi nefndarinnar lagt hana
fram og við fylgst með og rýnt í
þær upplýsingar sem liggja fyrir
hverju sinni. Starfsmenn fjölskyldusviðs
hafa á sama tíma unnið ötullega að því að
hlúa að þeim einstaklingum og fjölskyldum
sem um er fjallað.
Það sem er einna ánægjulegast að segja
frá er að þrátt fyrir fjölgun samþykktra
umsókna um fjárhagsaðstoð milli áranna
2019–2020 lítur út fyrir að árið 2021 þurfi
um 24% færri einstaklingar fjárhagsaðstoð.
Það er frábært þegar fólk kemst aftur út á
vinnumarkaðinn eftir alls konar áföll. Á
sama tíma sjáum við að atvinnulausir Mos-
fellingar eru óðum að nálgast 2019 tölurnar
en áður en Covid-19 skall á var þegar byrjað
að halla undan fæti á vinnumarkaðinum og
Mosfellingar fengu sinn skerf af því eins og
aðrir. Þegar mest var voru 569 Mosfellingar
á atvinnuleysisskrá, í mars 2021, en voru í
september 2021 komnir niður í 297. Fæstir
atvinnulausir Mosfellingar voru 124 í jan-
úar 2019 og má því segja að enn er töluvert
í land.
Varðandi tilkynningar til barnaverndar
hefur verið ákveðin fylgni milli íbúafjölg-
unar og tilkynninga og þrátt fyrir að um
12% aukning hafi verið milli 2019–2020 lítur
út fyrir að árið 2021 verði aukning um 5%.
Á sama tíma stefnir í að tilkynningum um
heimilisofbeldi fækki um 22% milli áranna
2020-2021 sem er gott.
Ég minni á að á heimasíðu Mosfellsbæjar
á mos.is er gulmerktur hnappur „Ég er barn
og hef áhyggjur“. Þar geta börn sent inn til-
kynningu ef þau þekkja einhvern sem þarf
á aðstoð að halda og komið ábendingum til
starfsmanna barnaverndar þar sem fullum
trúnaði er heitið. Allar þær upplýsingar sem
hafa komið fram hér að ofan eru aðgengi-
legar á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is,
undir fundargerðum fjölskyldunefndar og
hvet ég íbúa að kynna sér þær.
Ég óska öllum Mosfellingum gleðilegrar
hátíðar, árs og friðar og förum varlega um
jólin í faðmi okkar nánustu.
Rúnar Bragi Guðlaugsson, bæjarfulltrúi og
formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar
Covid-19 stöðuskýrsla fjölskyldusviðs
Við Íslendingar stöndum í þeirri bjargföstu trú
að náttúra landsins sé fögur, hrein og tær. Er það
svo alls staðar?
Ég stend í þeirri trú að Mosfellsbær sé mjög
fallegur bær, náttúran og fjöllin allt um kring
og fegurð vatna, lækja, áa og hafs sem umlykur
okkur.
Nýlega tók ég sæti í Heilbrigðisnefnd Kjósar-
svæðis (HK) fyrir Mosfellsbæ. Þegar maður tekur
við ábyrgð sem þessari vill maður leggjast yfir allt og lesa sér til. Það
gerði ég og sá mér til mikillar undrunar niðurstöðu mengunarmæl-
inga í viðamikilli og stórmerkilegri ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins
fyrir árið 2019.
Á bls. 24 (mynd 28) blasti við mér súlurit sem sýndi fjölda saur-
kólígerla á hverja 100 millilítra vatns (saurkólíg/100ml) á nokkrum
stöðum í Mosfellsbæ. Þar bar hæst súla við fornan stað hér í Mos-
fellsbæ sem ber heitið Hestaþinghóll. Hvar er það? Ég varð hugsi
og fann út að þessi staður hefur slegið öll met í Mosfellsbæ hvað
þessa tegund mengunar varðar.
Ég las mér til og fann frétt á vef RÚV frá því 15. júlí 2017 þar
sem fjallað var um mikla saurkóligerlamengun á baðstaðnum í
Nauthólsvík. Þá mældust þar 99 saurkólíg/100ml. Reyndist þetta
meira en venja er á þessum þekkta baðstað höfuðborgarbúa. Sama
ár, þ.e. 20. júlí 2017, birtist frétt á mbl.is um saurkólígerlamengun í
Varmá, ánni okkar sem búið er að friða. Sú frétt gekk út á m.a. það
að 14. júlí, þ.e. skömmu áður en fréttin birtist, var mikill fiskidauði í
Varmá ásamt því að benda á mikla saurkólígerlamegnun. Þá mæld-
ust 760 til 1000 saurkólíg/100ml.
Þá var sagt í sömu frétt að reglugerð um fráveitur og skólp fyrir
útivistarsvæði á fjölda saurkólígerla í að minnsta kosti 90% tilfella
eigi að vera undir 100 saurkólíg/100ml miðað við lágmark 10 sýni
(reglugerð nr. 450/2009). Hestaþinghóll er þar sem Varmá rennur
út í Blikastaðakró/Leiruvoginn okkar hér í Mosfellsbæ og út á haf.
Mosfellsbær, ásamt Reykjavíkurborg og með aðstoð Umhverf-
isstofnunar, auglýstu áform um friðun í sumar á Blikastaðakró/
Leiruvogi (nær frá Geldinganesi í Reykjavík til botns Leiruvogs í
Mosfellbæ).
Frestur til að skila athugasemdum var gefinn til 10. ágúst 2021 og
er það lágmarksfrestur eða 4 vikur. En hve mikil er mengunin við
Hestaþinghól? Hún hefur verið að slá upp í um eða yfir 2400 saur-
kólíg/100ml (mynd 27 í skýrslu HK) og að meðaltali hafa mælingar
síðustu ár legið frá 400 til allt að 700 saurkólíg/100ml.
Þarna við Hestaþinghól fer barnafólk í göngutúra allt árið um
kring, fólk með gæludýr sín og sjálft til að njóta fegurðarinnar. Þó
fólk baði sig hugsanlega ekki þarna gætu gæludýr gert það. Að-
skotahlutir sem berast í fjöruna gætu því verið mengaðir. En er
ekki hér eitthvað í meiriháttar ólagi ef þetta er orðið að viðvarandi
ástandi?
Mengun hér við ströndina slær út allar mælingar á höfuðborg-
arsvæðinu og í þokkabót ætlar Mosfellsbær að kalla eftir friðun á
hafsvæði, lífríki þess og hafsbotns sem bærinn sjálfur stendur að
því að menga sem mest. Samkvæmt gögnum Umhverfisstofnunar
var svæðið þarna skráð á náttúruminjaskrá 1978, Varmárósar frið-
lýstir 1980 ásamt endurskoðun til aukinnar friðunar árið 2012 og
nú í ár 2021. Svo má minnast á fitjasefið blessaða sem þarna vex við
Hestaþinghól sem er friðuð háplöntutegund á válista.
Ég veit að efni þessarar greinar minnar er ekki beint kræsilegt
og mæli ég því eindregið með lestri hennar áður en kristileg hátíð
okkar nær hámarki með dýrindis máltíð, hlátri, gleði og söng.
Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.
Sara Hafbergsdóttir. Fulltrúi Miðflokksins
í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis
Mosfellsbær og friðun
Blikastaðakróar/Leiruvogs
SPÆJARAHUNDURINN
Spennandi og skemmtileg barnabók um klókan hund sem
fær sakamálin í loppurnar þegar löggan hefur gefist upp á að
leysa þau. Magnaðar teikningar prýða bókina.
BókaútgáfanHólar
holabok.is / holar@holabok.is