Austurglugginn - 14.11.2014, Blaðsíða 12
12 Föstudagur 14. nóvember AUSTUR · GLUGGINN
Hálfnað er verk þá hafið er...
Ég eyddi nokkrum dögum í haust
á Eskifirði og áætlaði að þetta hlytu
að vera einkunnarorð bæjarins. Ég
varð fyrir miklum vonbrigðum, var
búin að hlakka til lengi að koma
heim í fallega bæinn minn, en mér
féllust eiginlega hendur.
Svo að ég haldi áfram þar sem frá
var horfið úr síðustu lokaorðum
mínum, þá þræddi ég lítil sjávar-
pláss á Spáni og í Portúgal í sumar,
fór í hvern krúttlega bæinn á fætur
öðrum. Það sem þeir voru fallegir
og hreinir. Allt svo vel frágengið,
fyrir öllu hugsað, allt í stíl. Það leit í
alvörunni út eins og þeir væru með
eitthvað plan um hvernig bærinn
ætti að líta út, hver ímynd bæjar-
ins væri og allir ynnu saman að
því markmiði. Mig dreymdi um
að koma heim til Eskifjarðar og
með smá aðdyttingum hér og þar,
þá yrði hann alveg jafn fallegur og
heill ásýndar, en mér féllust hendur
þegar ég mætti á svæðið, sumarið
rétt að klárast og bærinn var á hvolfi.
Er engin stefna til fyrir ímynd
bæjarins ? Hver ætli hugsunin sé
á bakvið að setja grjótkanta hér, og
stéttar þar, og kanta hér, og plön
þarna, og hús sem líta einhvern-
vegin og hinsegin út hér og þar...
og hugsa ekkert, eða vera bara alveg
sama, um samhengið við það sem
er nú fyrir á staðnum?
Hæðarmunur í landslagi, sand-
haugar og möl um allt, ljót handrið,
stéttar og gangstéttar á furðuleg-
um stöðum, allt ófrágengið, bíla-
stæði og plön um allan bæ full af
tjaldvögnum, kerrum og fellihýs-
um. Eskifjörður leit út fyrir mér
eins og ein stór geymsla. Ég var
eiginlega alveg miður mín. Þetta
var eins og að koma að sveitabæ
lengst inni í einhverjum afdal, þar
sem að enginn kemur og bóndinn
hefur fengið að safna drasli aleinn í
friði, nema hvað, að þarna er þetta
í fremstu sjónlínu, það sem blasir
við keyrandi eftir aðalgötu bæjar-
ins, í bæ þar sem fjöldinn allur af
ferðamönnum og gestum fer um
á hverjum degi, að ég tali nú ekki
heimamennina.
Hvernig væri nú að reyna að vera
svoldið smekkleg og ábyrg?
Ég bið til ykkar allra, viljið þið gera
mér (og ykkur sjálfum) þann greiða
að skipuleggja framkvæmdirnar til
enda áður en þið byrjið? Hugsa á
um bæinn sinn eins og heimili sitt,
ég myndi ekki bjóða gestum heim
til mín ef svona væri ástatt fyrir
heimili mínu.
Þetta snýst um ímynd bæjarins,
ímynd ykkar sjálfra, okkar allra.
Þetta er markaðssetning og snýst
um hvort að fólki líði vel að búa
þarna, vera þarna og koma þangað
í heimsókn. Það líður engum vel
að koma heim til sín að vinnudegi
loknum og húsið er á hvolfi, hálf-
málaður veggur, hillur liggjandi á
gólfinu af því að festingarnar passa
ekki, yfirflæðandi þvottakarfa, gam-
alt sjónvarp á miðju stofugólfinu,
uppvask úti um allt, ósamstæð hús-
gögn... það var tilfinningin sem ég
fékk þegar ég renndi inn í bæinn.
Nei, reyndar ekki, verð að leið-
rétta það. Við að renna inn í bæinn
leið mér mjög vel. Fallegi bærinn
minn, fallegt og vel frágengið nýja
hjúkrunarheimilið, svona á að gera
þetta! Innilega til hamingju! Um-
hverfið klárað og hæðin á lóðinni í
samræmi við umhverfi sitt, efnisval
í samræmi við kirkjuna og sund-
laugina, mjög smekklegt í alla staði.
Sundlaugin, kirkjugarðurinn og
kirkjan, Bleiksárfossinn og Leiran,
allt svo ótrúlega fallegt, (girðingin
á fótboltavellinum og furðulega
staðsetta Esso stöðin með drasli í
gluggunum þarna á horninu voru
svona aðeins að skemma vellíðun-
ina) en ég ætlaði nú ekki að láta það
skemma fyrir mér. Ó hvað ég var
ánægð að vera komin heim!
En svo fór þetta bara niður á við...
Mín tillaga að nýjum einkunnarorð-
um bæjarins er: Hálfnað er verk þá
hannað er! Hvað segið þið um það?
Eða er ykkur kannski bara sama?
Þetta verður þá bara botnlanga-
fjörður sem enginn beygir til hægri
inn í, heldur fer þá bara til vinstri og
í gegnum göngin þegar þau opna,
og bæjarbúar geta farið að fylla
geymsluna sína loksins almennilega.
Í öllum geymslum eru gersemar
og gersemarnar eru svo sannarlega
margar á Eskifirði. En það þarf að
losna við draslið svo að þú komist
að gersemunum.
Höfundur er Eskfirðingur og
hönnuður
Helga Jósepsdóttir
Lokaorð
vikunnar
Það er loksins komið að því, en
Leikfélag Fljótsdalshéraðs frum-
sýnir uppsetningu sína á leikritinu
„Þið munið hann Jörund“ eftir Jónas
Árnason í Valaskjálf í kvöld. Verkið
var fyrst sett upp árið 1970 en síðan
þá hefur það oft verið sett upp, víða
um land og er alltaf jafn vinsælt.
Leikritið fjallar um hinn danska
Jörund hundadagakonung, sem
kom hingað til lands á ensku skipi
í lok júní árið 1809 og tók, fyrir röð
undarlegra atburða, völdin í landinu
í tvo mánuði. Samkvæmt almanak-
inu eru hundadagar frá 13. júlí til 29.
ágúst og fékk hann því viðurnefnið
hundadagakonungur.
Leikstjóri sýningarinnar er Hall-
dóra Malín Pétursdóttir en það er
Stefán Bogi Stefánsson, markaðs-
stjóri, bæjarfulltrúi, ljóðskáld og fyrr-
verandi forseti bæjarstjórnar sem fer
með hlutverk Jörundar.
„Það verður að segjast eins og er að
þetta var nú eiginlega dálítið óvart.
Ég fór í samlestur hjá leikfélaginu og
þegar var verið að velja í hlutverk þá
bjóst ég alls ekki við að vera fleygt
alveg svona í djúpu laugina,“segir
Stefán Bogi, en Austurglugginn
heyrði í honum hljóðið.
Öflugur karókísöngvari
En er þetta í fyrsta sinn sem Stefán
stígur á svið? „Já, með Leikfélagi
Fljótsdalshéraðs er þetta í fyrsta sinn,
en ég hef aðeins komið á svið þó ég
hafi ekki gert þetta oft. Ég tók þátt
í leikriti í menntaskóla og svo aftur
meðan ég var í háskóla, en það eru
þó nokkur ár síðan.“
Stefán syngur í sýningunni. „Það
er það sem gerir þetta svo spenn-
andi og skemmtilegt og ein meg-
inástæðan fyrir að ég skellti mér í
samlestur og gaf kost á mér í þetta.
Það er akkúrat þetta stykki og þessi
tónlist í verkinu sem heillar mig og
er svo skemmtileg. Svo finnst mér
ekki leiðinlegt að syngja,“ segir hann.
En hefurðu sungið lengi? „Já, en ekki
mikið meira en fyrir sjálfan mig. Ég
er reyndar atorkusamur karókísöngv-
ari, en hef ekki áður fengið tækifæri
eins og núna.“
Puð en skemmtilegt
Þið munið hann Jörund er stórt verk
margir sem koma að sýningunni.
Stundum eru um tuttugu til þrjátíu
manns á sviðinu í einu. Hafa æfingar
verið stífar? „Já, þar sem ég leik Jörund
og hann kemur víða við í sýningunni
hef ég verið svolítið bundinn við að
mæta á hverja einustu æfingu. Þetta
er búið að vera mikið puð og oft erf-
itt, en það er búið að vera rosalega
gaman hjá okkur. Halldóra Malín er
líka svo mikil fagmennska og lunkin
við að draga fram það besta í okk-
ur þannig að við höfum oft komið
sjálfum okkur á óvart.“
Hlakkar til kvöldsins
Ertu kvíðinn fyrir frumsýningunni í
kvöld? „Nei, ég hlakka meira til. Þetta
er skemmtilegt verk, skemmtileg
tónlist og þetta er rosalega flottur
hópur af leikurum. Það verður mikil
gleði og mikill kraftur í Valaskjálf í
kvöld,“ segir Stefán að lokum.
SL
Stefán Bogi er Jörundur hundadagakonungur