Austurglugginn


Austurglugginn - 15.04.2021, Side 8

Austurglugginn - 15.04.2021, Side 8
8 Fimmtudagur 15. apríl AUSTUR · GLUGGINN Grafinn þorskur undir merkjum Goðaness er meðal þeirra matvæla sem framleidd eru í Djúpavogshreppi. Framleiðandinn segir fólk fyrst verða hissa og varfærið þegar því bjóðist að smakka afurðirnar en komi fljótt aftur eftir meiru. „Yngsta systir mín bjó á Stöðvarfirði og fékk að prófa grafinn þorsk hjá vinafólki sínu þar. Henni fannst þorskurinn góður og fékk uppskriftina. Hann var síðan hafður í fermingarveislu hjá fjölskyldunni þar sem hann rann út. Þaðan fékk ég upphaflegu hugmyndina og síðan hefur þorskurinn verið á veisluborðum okkar í fleiri ár. Mig langaði síðan að leyfa fleirum að njóta þannig ég sótti um í Uppbyggingarsjóð Austurlands. Til að fá styrk skrifaði ég í umsóknina að ég ætlaði að þróa fleiri bragðtegundir,“ segir Pála Svanhildur Geirsdóttir sem fyrir ári byrjaði að selja grafinn þorsk undir merkjum Goðaness. Upphaflega var grafni þorskurinn með kryddjurtum en eins og Pála lofaði í styrkumsókninni hafa fleiri tegundir bæst við. „Mig langaði að nota eitthvað úr náttúrunni hér og þar komu bláberin inn. Við tínum þau sjálf, þó mest dóttir mín á Eskifirði. Henni finnst það gaman auk þess sem þar er meira af berjum. Síðan hef ég verið með sweet chili- þorsk líka. Þessu til viðbótar prófaði ég svo að segja allt mögulegt, sumt var í hreinskilni sagt óþverri,“ segir Pála og hlær. Fram og til baka milli stofnana Þorskinn kaupir hún frá fiskvinnslu Búlandstinds, sem er í um 200 metra fjarlægð frá heimili hennar. „Ég kaupi flök af smáfiski með roði. Ég hefði þurft að koma upp aðstöðu fyrir tugi milljóna hefðum við veitt sjálf.“ Aðstöðu til framleiðslunnar hefur Pála hins vegar inni í Berufirði á bænum Lindarbrekku þar sem búið er að koma upp viðurkenndri vinnsluaðstöðu. Hún segir það hafa verið dálítið áhlaup að afla allra tilskilinna leyfa til framleiðslunnar. „Það var einkum vegna þess að mér var hent fram og til baka milli stofnana. Síðan getur kostað töluvert að fá fólk að sunnan til að taka út framleiðsluna eða bíða eftir að nógu margir staðir séu til að starfsmaður sé sendur af stað. Það var heldur ekki alltaf svarað tölvupósti en tekið undir ef maður hringdi. Vandamálið er að þá stendur orð gegn orði. Ég var oft komin að því að gefast upp en það var einhver þrjóska í mér. Síðan hlær maður að þessu í dag. Ég fékk líka hjálp frá þessum stofnunum, svo sem við uppsetningu gæðahandbókar sem ég kunni ekkert í.“ Lærði margt í heimilisfræðinni Pála kveðst hafa haft áhuga á matargerð allt frá barnæsku. „Ég hef alltaf haft áhuga á tilraunum með mat en það er samt hálf klikkað að fólk komið á sjötugsaldur fari út í svona. Ég var á heimavist í Leirárskóla, sem nú heitir Heiðarskóli, í Hvalfjarðarsveit. Í heimilisfræðinni vorum við látin taka heilan fisk, hreinsa allt innan úr honum, flaka hann og elda. Við vorum líka látin setja upp veisluborð, leggja á það, skreyta og gera mat. Mér fannst þetta gaman,“ rifjar hún upp. Hún vinnur í dag við matargerð á veitingastaðnum Við Voginn. Þar eru í boði veisluplatti með vörum frá sex smáframleiðendum á Djúpavogssvæðinu, þar á meðal grafna þorskinum. „Ég get fylgst með viðbrögðunum. Í fyrrasumar kom fólk sérstaklega til að þakka fyrir og láta vita af ánægju sinni áður en það fór út af staðnum,“ segir hún. Plattinn er til marks um mikla grósku í matvælagerð á svæðinu. „Þetta er eiginlega öll flóran, grænmeti, kjöt og fiskur. Þetta er mjög flott,“ segir Pála. Aðspurð kveðst hún ekki hafa neina eina skýringu fyrir þessari fjölbreyttu framleiðslu á ekki stærra svæði. „Ég veit það ekki, nema hér er svo rúmur tími. Þótt þú vinnir fullan vinnudag áttu samt inni tíma því þú þarft ekki að eyða 1-2 klukkutímum í snúninga heldur getur gengið í búðina eða skólann til að sækja börnin. Síðan er það svo að það fæst ekki allt hér. Ég held að þetta spili inn í.“ Fólkið hálfhrætt við að smakka til að byrja með Pála kveðst hafa farið hægt í sakirnar með markaðssetningu og sölu á grafna þorskinum. „Það er í ferli að hann fari inn í verslanir Samkaups hér á þessu svæði, hann hefur verið við Voginn og síðan er aðili að kynna hann fyrir veisluþjónustum og veitingastöðum fyrir sunnan. Mig langar hins vegar ekki að þorskurinn verði alls staðar, ég ætla mér bara að vera smáframleiðandi.“ Hún hefur þó kynnt hann víða, meðal annars á matarhátíð á Egilsstöðum á þjóðhátíðardaginn í fyrra. „Mér fannst gaman að við vorum þrjú af fimm framleiðendum þar frá Djúpavogi. Ég fékk mjög góðar viðtökur þar.“ Hún segir að fólk sé þó stundum örlítið hissa fyrst þegar það sjái þorskinn. „Ég útbý litlar snittur með öllu sem ég vil hafa á. Fólk er efins fyrst en tekur smakk, svo heyri ég vá- ið þegar það labbar í burtu og snýr til að smakka hinar tegundirnar. Fyrst er það hálfhrætt en verður svo hissa. Stundum hefur fólk samband til að spyrja hvernig það eigi að bera grafna þorskinn fram. Mér finnst best að hafa hann á þunnu brauði og með sósu,“ segir Pála og bætir við að mikilvægi sósunnar megi ekki vanmeta. „Ég hef prufað margar sósur, framboðið af þeim er orðið frumskógur. Mér finnst samt best að nota sósu sem ég geri sjálf og hef verið að skoða að þróa hana til framleiðslu líka þannig hún geti verið með þorskinum.“ GG Byrjaði á að grafa þorsk fyrir fjölskylduna Pála Svanhildur með þorskinn. Mynd: GG Grafni þorskurinn borinn fram með sósunni. Mynd: GG Djúpivogur

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.