Austurglugginn - 16.12.2021, Page 2
2 Fimmtudagur 16. desember AUSTUR · GLUGGINN
Aðventan er dásamlegur tími, við
eigum saman notalegar stundir
með þeim sem okkur þykir vænt
um. Við væntum komu Krists og
hlökkum til hátíðar ljóss og friðar.
Þetta á við um okkur mörg hver, við
megum hins vegar aldrei gleyma
þeim sem kvíða fyrir jólahátíðinni
t.d. vegna fátæktar eða sorgar.
Það er umhugsunarvert að
ýmislegt breytist jafnt og þétt í
samfélagi manna. Með aukinni
tækni höfum við fjarlægst
náttúruna, göngum stöðugt á
auðlindir hennar og gamlar hefðir
tapast. Þegar þetta er sagt virðumst
við á aðventunni sækja í gamlar
góðar hefðir eins og öryggisnet.
Við hægjum ferðina, steikjum
laufabrauð, skreytum, bökum
o.fl. Þetta skapar stemningu og
samverustundirnar verða magnaðar.
Sagan af fæðingu litla
Jesúbarnsins hefur jákvæð áhrif.
Hún virðist vekja okkur til
umhugsunar, minnir okkur á rætur
menningarinnar, gamlar góðar
hefðir og boðskapinn dýrmæta. Á
fallegan hátt laðar sagan fram það
besta í okkur.
Ég velti því fyrir mér hvort
ferðalag ungu foreldranna Maríu og
Jósefs til Betlehem, út í náttúruna
sé ekki einmitt mikilvægur hluti
af sögunni. Ferðalagið var sem
andlegur undirbúningur, þau
komast í snertingu við náttúruna.
Þrátt fyrir að komið væri að fæðingu
og ferðalagið erfitt, undirbjó litla
fjölskyldan sig fyrir undrið. Ég er
viss um að margir fara í göngutúr
á aðventunni og yfir hátíðarnar.
Sækja í friðinn í náttúrunni.
Sleðaferð eða skautaferð með
fjölskyldunni og heitt kakó á
aðventunni hljómar mun betri
undirbúningur en verslunarferð.
Það er líka tæplega tilviljun að
Jesús hafi fæðst meðal dýranna í
fjárhúsinu. Hann var ekki stöðluð
ímynd konungsins, voldugur
harðstjóri fæddur í vellystingum.
Hann kom í heiminn til að þjóna
meðal dýra og hirða og minnir
okkur stöðugt á hlutverk okkar
gagnvart náunganum. Það má
því færa rök fyrir því að náttúran
og dýrin séu mikilvægur hluti
af jólaguðspjallinu. Við megum
aldrei gleyma að bera kærleika til
náttúrunnar.
Jólaguðspjallið hefur þau áhrif að
við brjótum upp dagana en á sama
tíma minnumst við þess að sælla er
að gefa en þiggja. Jesús sagði eitt
sinn sögu af því þegar fátæk ekkja
gaf peningagjöf. Peningarnir voru
ekki miklir í samanburði við þá
sem auðmennirnir gáfu en Jesús
sagði: „Hinir allir lögðu í sjóðinn
af allsnægtum sínum en hún gaf af
skorti sínum, alla björg sína.“ (Lúk
21.1-4). Þessi saga endurspeglast á
aðventunni þegar við opnum hjörtu
okkar og gefum gjafir, verðmæti
þeirra skiptir ekki höfuðmáli.
Hjálparstarf kirkjunnar er gott
dæmi en starfið styður við bakið
á fjölskyldum í vanda með matar-
og fatagjöfum. Kærleiksboðskapur
Krists á hér sannarlega hlut að
máli. Jólaguðspjallið minnir okkur
þannig á dæmisögur Jesú og við
áttum okkur á hvað það er göfugt
að láta gott af sér leiða.
Það ríkti mikil eftirvænting þegar
Jesús fæddist, heimurinn breyttist.
Sagan af fæðingunni minnir okkur
sannarlega á dýrmætan boðskap og
gerir það að verkum að við sækjum
fast í gamlar traustar hefðir. Á
aðventunni ríkir eftirvænting vegna
þess að við hægjum á og gefum
undrunum í tilverunni gaum. Megi
góður Guð vera með ykkur öllum,
gleðilega hátíð ljóss og friðar og
blessunaróskir á nýju ári.
Alfreð Örn Finnsson, prestur í
Austfjarðaprestakalli
Jólahugvekja
Árni Friðriksson, framhalds-
skólakennari og leikskáld á
Egilsstöðum, sendi nú nýverið frá
sér bókina Einleikir um tímalaust
eðli. Bókin er sú 25. í ritröðinni
Pastel, sem gefin er út á Akureyri.
Í bókaflokknum er leitast við að gefa
út bókverk sem fara yfir hefðbundin
landamæri ólíkra listgreina. Þannig
hefur í Pastel-bókunum mátt finna
ljósmyndir, myndbrot, teikningar,
dagbókarbrot, frjálslegri prósa,
formfasta ljóðabálka, smásögur,
örleikrit og skáldsögur. Í ritröðinni
er líka leitast við að gefa bæði út verk
þekktari höfunda og annarra sem
minna hefur borið á eða eru að stíga
sín fyrstu skref.
Það er ekki gott að segja hvar
nákvæmlega Árni telst vera í þeirri
röðun. Hann hefur getið sér gott
orð að undanförnu fyrir leikverk.
Hann vann fyrir nokkrum árum
samkeppni um útvarpsleikrit byggð
á verkum Williams Shakespeare.
Þá skrifaði hann, í samstarfi við
leikhópinn Svipi, leikritið Sunnefa
sem frumsýnt var í fyrra. Hann
kemur því að Pastel ritröðinni fyrst
og fremst sem leikskáld, enda efni
bókarinnar tveir einleikir, eins og
nafnið ber með sér.
Er Einleikir um tímalaust eðli
tilgerðarlegur titill? Vissulega. Er
tilgerðarlegt að skrifa einleik í sextán
örþáttum upp úr ljóðflokknum
Dichterliebe sem Róbert Schumann
samdi við ljóð eftir Heinrich Heine?
Biddu fyrir þér já! Er það til
einhverra vansa? Nei, ekki minnstu.
Fólk hefur almennt of mikið óþol
gagnvart tilgerð. Stundum er bara í
fínu lagi að hefja sig svolítið á flug.
Rífa sig upp yfir hversdaginn. Segja
bara, hér er ég og ég les sonnettur
Shakespeare, hlusta á Schumann og
skrifa hátimbraða leiktexta til útgáfu.
Sögurnar sem einleikir Árna segja
eru ekki flóknar. Þetta eru sögur
af samböndum sem við þekkjum.
Bæði góðum og slæmum, jafnvel
samböndum sem eru á einhverjum
tímapunkti bæði góð og slæm.
Höfundurinn sýnir, að því marki sem
ég er dómbær á það, ágæta hæfni til
að setja sig í spor ólíkra persóna, sem
er ekki sjálfgefið. Umfjöllunarefnið
útheimtir næmni og hana hefur Árni
til að bera.
Þetta verk er ábyggilega ekki allra,
mun líklega seint verða metsöluverk,
en þetta gengur allt saman upp. Þetta
eru vel skrifaðir textar og ég hafði
ánægju af að lesa þá. Svo má alveg
kalla það ánægjuefni að hér eystra sé
að finna skáld sem eru þátttakendur
í útgáfuverkefnum af þessu tagi og
skrifa á þessu kalíberi. Við megum
alveg vera stolt af því.
Stefán Bogi Sveinsson
Einleikir um tímalaust eðli
Bókarýni
Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750
• Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Albert Örn Eyþórsson, blaðamaður : frett@austurglugginn.is
• Auglýsingar: Anna Dóra Helgadóttir: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Anna Dóra Helgadóttir: askrift@austurglugginn.is
• Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent