Austurglugginn


Austurglugginn - 05.12.2019, Blaðsíða 5

Austurglugginn - 05.12.2019, Blaðsíða 5
 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 5. desember Heilbrigðismál Mistök við lyfjagjöf leiddu til heilablóðfalls Landlæknir hefur úrskurðað að mistök við lyfjagjöf á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað hafi leitt til heilablóðfalls og varanlegrar ö r k u m l u n a r s j ú k l i n g s . Aðstandendur hans hafa lent í mótbyr við að leita réttar fyrir hans hönd. Verklag hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur verið yfirfarið í kjölfar málsins. Það var um miðjan febrúar 2015 sem tæplega sextugur karlmaður úr austfirsku þorpi var fluttur með hraði á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir að hann fékk heilablóðfall á heimili sínu. Læknir á Akureyri gerði strax athugasemdir við að blóðþynningargildi mannsins væru of lág og taldi það hafa leitt til heilablóðfallsins. Undir það tók læknir á Grensás - endurhæfingardeild Landspítalans sem tók við manninum eftir að hann var fluttur frá Akureyri. Í kjölfar athugasemda læknanna fóru aðstandendur mannsins að grafast fyrir um þá meðhöndlun sem hann fékk hjá austfirsku heilbrigðisstarfsfólki og kvörtuðu. Að fengnum upplýsingum um hvernig staðið hafði verið að blóðþynningunni, kvörtuðu aðstandendur mannsins til Landlæknis. Um tveimur árum eftir áfallið, í kjölfar umtalsverðra bréfaskrifta, sendi Landlæknir frá sér álit vegna málsins. Á grundvelli þess, eða í ágúst 2017, féllust Sjúkratryggingar Íslands á að greiða manninum það tíu milljóna hámark sem þeim var heimilt að greiða í bætur fyrir mistökin. Málinu er ekki þar með lokið því hægt er að sækja hærri bætur til ríkisins í gegnum ríkislögmann. Þar sem Sjúkratryggingar lögðu ekki mat á varanleg áhrif læknamistakanna heldur greiddu út hámarksbætur þarf að fara fram frekara mat til að geta gert kröfu á ríkið. Til þess eru kallaðir til sérfræðingar og það ferli stendur enn yfir í þessu tilfelli, á fimmta ári eftir atvikið. „Þetta er langt og flókið ferli. Það felur í sér endalaus samskipti við ríkið. Við höfum gagnrýnt tímann sem þetta tekur og ég skil vel að biðin reyni á aðstandendur. Það eru allir af vilja gerðir hjá Sjúkratryggingum og embætti ríkislögmanns en þetta virðist einfaldlega taka þennan tíma,“ segir Bergrún Elín Benediktsdóttir, lögmaður fjölskyldunnar. „Einhver minna þrjóskur en við hefði gefist upp,“ segir aðstandandi mannsins. Afleiðing heilablóðfallsins var sú að maðurinn lamaðist alveg vinstra megin, varð með öllu óvinnufær, bundinn í hjólastól og þurfti aðstoð við daglegt líf. Allt þetta krafðist þjónustu sem ekki er í boði á Austurlandi og neyddist maðurinn því til að flytja úr fjórðungnum. Hann lést í ár á Landspítalanum af völdum innvortis blæðinga. Langt frá markgildi Maðurinn var með meðfæddan hjartagalla og fékk árið 2008 hjartalokur úr stáli. Þær kalla á mikla þynningu blóðs því að annars getur myndast blóðsegi við lokurnar en hann getur stíflað háræðar, til dæmis í heila. Eftir þetta var maðurinn undir reglulegu eftirliti starfsmanna á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Blóðþynning er mæld á INR gildi sem venjulega er 2-3 hjá þeim sem þurfa á blóðþynningu að halda. Maðurinn átti hins vegar að vera með gildið 2,8-4,2 út af stállokum í hjarta. Við komuna á Akureyri mældist gildið 1,5 og taldi læknir þar að ónæg þynning hefði valdið blóðtappa í heila. Í desember 2014 kom maðurinn í eftirlit á sjúkrahúsið í Neskaupstað og mældist blóðþynningargildið 3,0 sem var talið í hærra lagi. Honum var skipað að hætta töku blóðþynningarlyfja í tvo daga en halda svo áfram á óbreyttum skammti. Takmarkaðar upplýsingar á blóðþynningarblöðum Maðurinn kom aftur í eftirlit í janúar 2015. Þá var hann neðan við það gildi sem stefnt var að fyrir hann og hefði því átt að auka lyfjaskammtinn. Það var ekki gert því á blóðþynningarblöðum mannsins kom ekki fram að blóðþynning mannsins ætti að vera umfram það sem er hjá meirihluta þeirra sem eru í blóðþynningarmeðferð. Lífeindafræðingur sem ráðlagði um lyfjaskammtinn hafði því takmarkaðar forsendur í hendi þegar hann gaf út ráðgjöfina. Að auki fékk hann ekki nægilega þjálfun áður en þáverandi forstöðulæknir í Neskaupstað fól honum að skammta lyfin. Í samantekt lyflæknis fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) sem stýrir Umdæmis- sjúkrahúsinu í Neskaupstað, segir að „nokkrir hnökrar“ hafi verið á „almennri framkvæmd blóðþynningar“ á sjúkrahúsinu. Hefði átt að fá boð í eftirlit Að loknu eftirliti í janúar 2015 hefði maðurinn átt að mæta aftur í eftirlit hjá HSA eftir þrjár vikur. Þegar hann fékk áfallið voru liðnar rúmar fimm vikur frá eftirlitinu. Maðurinn kannaðist ekki við að hafa fengið boð um að koma aftur í skoðun og engin gögn liggja fyrir um boðun af hálfu HSA. Í áliti landlæknis segir að þar standi orð gegn orði, en líklega hafi maðurinn verið boðaður símleiðis. Lyflæknirinn telur að standa hefði mátt þar betur að verki. Ályktun hans er að hjá sjúkrahúsinu hafi annað hvort eftirlit verið vanrækt eða mistök verið gerð í lyfjagjöf. Vanræksla á eftirlitinu sé þó ekki langvarandi. Undir álit lyflæknisins tekur Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, í svarbréfi til Landlæknis. Pétur segir að tvennt hafi ekki verið sem skyldi við meðferð mannsins. Annars vegar hafi sjúkdómsgreining ekki legið til grundvallar þynningarmeðferð. Hins vegar sé blóðþynningarmeðferð vandmeðfarin og þar sem maðurinn kom ekki til rannsóknar á tilskildum tíma hefði HSA átt að tryggja að hann væri minntur að minnsta kosti einu sinni á það. Það hafi ekki verið gert. Óháður sérfræðingur í blóðmeinalækningum, kallaður til af Landlækni, telur erfitt að áfellast starfsmenn HSA en gerir athugasemdir við skráningu upplýsinga. Hann telur eftirlitinu einnig ábótavant en bendir á að sjúklingurinn beri líka ákveðna ábyrgð á að mæta í eftirlit. Landlæknir telur það ekki skyldu stofnunarinnar að tryggja mætingu sjúklings í eftirlit og þar hafi starfsfólk ekki gert mistök. Aðstandendur mannsins gagnrýna þessa niðurstöðu. Í fyrsta lagi sé enginn sönnun fyrir því að maðurinn hafi yfir höfuð verið látinn vita hvenær hann átti að koma aftur, í öðru lagi sé verið að vísa ábyrgðinni á hann. „Það er reynt að loka á verkferlið. Ábyrgðinni er vísað á sjúklinginn sem hefur engar forsendur til að átta sig á stöðunni þar sem hann er hvorki upplýstur um niðurstöður mælinga né innan hvaða marka blóðþynningin eigi að vera,“ segir aðstandandi mannsins í samtali við Austurgluggann. Læknir bar ábyrgð á lyfjagjöfinni Upplýsingar um lyfjagjöfina lágu fyrir þegar aðstandendur mannsins sendu Landlækni kvörtun fyrir hans hönd sumarið 2015. Nokkru eftir það komust aðstandendurnir að því að læknir, sem átti að ákveða lyfjaskammtinn, hefði falið lífeindafræðingi verkið. Í svari Péturs Heimissonar til Landlæknis segir að læknar geti gefið fyrirmæli um slík verk, að undangenginni „vandaðri kennslu og þjálfun.“ Ekki standist fagleg viðmið og vinnubrögð að gefa fyrirmælin án þjálfunar. Í þessu tilfelli hafi lífeindafræðingurinn fengið fyrirmæli um að gefa út leiðbeiningar um lyfjagjöf ef hann mæti ástand sjúklings stöðugt. Til þess hafi hann skort nánari upplýsingar, eða eins og Pétur skrifar, „faglegar forsendur.“ Læknirinn sem gaf fyrirmælin hefur ekki starfað á Austurlandi í nokkur ár og veitti engin viðbrögð vegna málsins meðan það var til meðferðar hjá Landlækni. Í svari Péturs Heimssonar segir hann lyfjagjöfina á ábyrgð læknisins. Hann sjálfur hafi ekki verið upplýstur um fyrirkomulagið og enn síður þjálfunina. Hann beri hins vegar ábyrgð á málinu sem æðsti yfirmaður læknisins og þá ábyrgð taki hann „mjög alvarlega.“ Í svari við fyrirspurn Austur- gluggans segir Pétur að stjórnendur HSA geti ekki í þessu máli, frekar en öðrum, tjáð sig opinberlega. Hins vegar hafi í kjölfar þessa atviks allt verklag við blóðþynningarmeðferð verið endurskoðað og breytt. Það sé nú unnið í náinni samvinnu við segavarnadeild Landsspítalans. GG Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Mynd: GG

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.