Austurglugginn


Austurglugginn - 05.12.2019, Blaðsíða 20

Austurglugginn - 05.12.2019, Blaðsíða 20
Þann 16. desember næstkomandi verður stofnfundur Pílukastfélags Fjarðabyggðar haldinn í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Maðurinn á bak við félagið er Friðrik Rokk Friðriksson en hann er mikill áhugamaður um íþróttina. Hann ákvað að stofna pílukastfélag eftir að hafa fengið spark í rassinn frá reynslubolta að sunnan. Gamall draumur Friðrik bjó í Reykjanesbæ á árunum 2012 til 2014 og þar kynntist hann pílukastinu. „Ég mætti einu sinni í viku og spilaði með mörgum mjög reyndum pílukösturum. Ég lærði heilmikið af því,“ sagði Friðrik. Þegar hann flutti í Neskaupstað ásamt fjölskyldu sinni árið 2014 langaði hann að stofna svona félag en ekkert gerðist í langan tíma. Friðrik segir að síðan hafi þetta farið að rúlla í vor enþá keppti hann í pílukasti á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem fram fór í Neskaupstað. „Ingibjörg Magnúsdóttir, fyrrverandi forseti Íslenska pílukastsambandsins (ÍPS), sem hélt utan um pílukastkeppnina á mótinu ýtti á mig að stofna pílukastfélag hér. Draumurinn varð að veruleika eftir gott spark í rassinn,ef svo má segja,“ segir Friðrik og hlær. Vill byggja upp gott unglingastarf Friðrik segir margt vera heillandi við pílukastið. „Maður er alveg einn. Getur ekki stólað á neinn annan. Það eru svo margir þættir sem maður þarf hugsa um. Hvernig þú heldur á pílunni. Hvar þú stendur stendur. Beiting líkamanns skiptir líka miklu. Þetta er mikil nákvæmnisíþrótt.“ Hann fékk aðstöðu í íþróttahúsinu í Neskaupstað, þar sem æfingar hafa farið reglulega fram frá því í haust. „Mætingin er búin að vera góð. Það hafa verið að mæta fjórir til sjö manns. Á þriðjudögum mætum við, skiptum í riðla og keppum innbyrðis.Á mánudögum er opið hús þar sem fólk getur prufað og spjallað. Á Fimmtudögum eru síðan æfingar ætlaðar 8.-10. bekk.“ Friðrik segir að ástæðan fyrir unglingastarfinu sé tvíþætt. Annars vegar að byggja upp framtíðar pílukastara en hins vegar sé pílukastið frábært kennslutæki í stærðfræði. „Ég var með strák í liðveislu fyrir sunnan og fór stundum með hann í pílu. Ég fór að taka eftir því að þetta hafði góð áhrif á stærðfræðikunnáttu hans. Hann þurfti að margfalda, leggja saman og draga frá. Maður þarf að nota miklu meiri stærðfræði en fólk gerir sér grein fyrir.“ Aðstaða víðsvegar í Fjarðabyggð Sem fyrr segir verður stofnfundur félagsins haldinn í íþróttahúsinu í Neskaupstað, 16. desember klukkan 19:30. „Við erum komin með alla pappíra og það eina sem við eigum eftir að gera er að halda stofnfundinn. Þá verður félagið vonandi orðið löglegt fyrir áramót. Við munum líka sækja um inngöngu í ÍPS. Þá fáum við keppnisrétt á mótum og getum gert kröfu á að halda mót hér. Þá fáum við vonandi góða leikmenn til að koma og getum þar með vakið meiri áhuga á þessari íþrótt hérna. „Síðan eru við að skoða, með Bjarka Ármanni Oddssyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa Fjarðabyggðar, að koma upp aðstöðu á Reyðarfirði og víðar. Hugmyndin er að koma upp fleiri pílukaststöðum í öðrum bæjarkjörnum Fjarðabyggðar. Þetta á ekki bara að vera hér í Neskaupstað heldur aðgengilegt fyrir alla í Fjarðabyggð,“ segir Friðrik að lokum. BKG 1041 0966 UMHVERFISVOTTUÐ PRENTSMIÐJA www.heradsprent.is Þórunn Ólafsdóttir Lokaorð vikunnar Efnahagsflóttamenn „Efnahagsflóttamenn“ er eitt af þessum orðskrípum sem ég held að fólk noti stundum óvarlega án þess að hafa sérstaklega spáð í það. Reglulega heyri ég því kastað kæruleysislega inn í umræðuna, þessu stóra orði sem fólk segir bara og veit mögulega ekki einu sinni af hverju. Splæsir í jafn merkingarþrungna setningu eins og „við þurfum nú að passa að hér fyllist ekki allt af einhverjum efnahagsflóttamönnum“, án þess að nokkuð bendi til þess að það hafi velt merkingu orðanna fyrir sér af alvöru. Eða erum við svona gegnsýrð af þeirri hugmynd að okkur stafi mikil ógn af fátæku fólki frá öðrum löndum? Er einhver sekt fólgin í því að flýja fátækt frekar en aðrar ómögulegar aðstæður? Undanfarnar vikur hefur Ríkissjónvarpið birt okkur svipmyndir úr lífi sárafátæks fólks í Namibíu. Fólks sem býr við algjörlega óbærilegar aðstæður, í kofaræksnum án aðgangs að drykkjarvatni. Svöng og berskjölduð fyrir sjúkdómum sem grassera vegna skorts á hreinlætisaðstöðu. Á skjánum birtist okkur fólk á öllum aldri sem býr við þá sárustu fátækt sem hægt er að hugsa sér. Fátækt sem eflaust mörg dreymir um að flýja, lái þeim hver sem vill. Þrátt fyrir töluverða áherslu á „samfélagslega ábyrgð“ (svo lengi sem hún er ekki í formi veiðigjalda) hér heima á Íslandi, virðist Samherji hafa verið eitthvað minna í því að byggja leikvelli og gefa lækningatæki til namibískra spítala. Virðast fátt hafa skilið eftir sig annað en sviðna jörð og örfáa ríka vini. Næst þegar einhver minnist á efnahagsflóttafólk með yfirlæti í röddinni, þá er kannski vert að minna á að fátækt er hvorki náttúrulögmál né ásættanlegur fórnarkostnaður. Fátækt er pólitík. Fátækt er ábyrgðarleysi auðmanna, meðvirkni og skeytingarleysi valdsins. Hún er ekki fólkið sem býr við hana eða flýr þegar hún tekur yfir líf þess, heldur afleiðing kerfis sem styður við framgöngu þeirra sem skara eld að eigin köku. Hún er ljótasta birtingarmynd græðginnar, því þar sem fáir eiga alltof mikið eiga aðrir ekki neitt. Orðræðan um fátækt fólk á flótta er auðvitað ekkert úr lausu lofti gripin. Henni er ýtt að okkur af öflum sem þurfa á því að halda að við óttumst um lífsafkomu okkar. Vilja sannfæra okkur um að ekki sé nóg til skiptanna. Að ef ráðandi öfl missi valdataumana fyllist hér allt af fólki sem er svo ósvífið að þrá mannsæmandi líf. Væri valdhöfum ekki nær að ráðast í aðgerðir gegn rányrkju, skattaundanskotum og misskiptingu auðs? Þá kannski neyðist fólk ekki lengur til að flýja fátækt sem ekkert okkar myndi sætta sig við. Pílukastfélag fjarðabyggðar Draumurinn varð að veruleika eftir gott spark í rassinn Á fyrstu æfingu Pílukastfélagsins. Myndin er aðsend

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.