Austurglugginn


Austurglugginn - 05.12.2019, Side 10

Austurglugginn - 05.12.2019, Side 10
Fréttabréf AFLs Starfsgreinafélags Kjaraviðræður Sjómenn funduðu í Neskaupstað Í framhaldi af stéttaprófinu! Um tuttugu fulltrúar frá sjómannafélögum vítt og breitt um landið hittust á formannafundi Sjómannasambands Íslands sem haldinn var í Safnahúsinu í Neskaupstað í byrjun nóvember. „Mér skilst að fundurinn hafi gengið vel og það var gaman að fá þennan hóp á svæðið,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags. Kjarasamningar sjómanna runnu út um síðustu mánaðamót og voru komandi kjaraviðræður í brennidepli á fundinum. Samningurinn sem nú rann út var undirritaður um miðjan febrúar árið 2017 að loknu 10 vikna verkfalli sjómanna, því lengsta sem þeir hafa farið í. „Í þeim samningi voru ýmsar bókanir um málefni sem ræða átti á samningstímanum, til dæmis veikindarétt sjómanna í skiptikerfi og heildarendurskoðun á texta kjarasamningsins, sem kominn er nokkuð til ára sinna eins og margir kjarasamningar. Það átti að sameina kafla og fleira slíkt. Það hefur gengið misjafnlega,“ segir Hjördís Þóra. Af öðrum kjaraviðræðum sem fulltrúar AFLs koma að um þessar mundir er það að frétta að búið er að kjósa stóra samninganefnd til að ræða samning AFLs og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál. Sá samningur rennur út í lok febrúar og er undirbúningur viðræðna hafinn. Þá eru viðræður Starfsgreina- sambandsins við Landsvirkjun langt komnar en sambandið fer með samningsumboð félaga í AFLi. Að lokum má nefna að nýr samningur félagsmanna AFLs sem starfa í fiskimjölsverksmiðjum var samþykktur með 86% greiddra atkvæða í lok febrúar. Samningurinn gildir fram til maí 2025. Samið var um launatöflur til 2022 en tvö síðustu árin taka launatöflur í fiskimjöli mið af launahækkunum í fiskvinnslu. Launatafla vegna starfa í fiskimjölsverksmiðjum var einfölduð og fækkaði launaþrepum úr fimmtán í níu. Þá var og samþykkt bókun um nýtt launakerfi en samkvæmt henni munu aðilar taka upp viðræður um launakerfi er byggir á hæfni og hlutverki. Talsverð umræða hefur skapast í kjölfar útgáfu tímarits AFLs þar sem fjallað var um stéttskiptingu á Íslandi í nútíð og fortíð. Fjölmargir hafa stigið fram og telja þetta galna umræðu, að á Íslandi sé engin stéttskipting og þetta sé umfjöllun sem sé til þess eins að skapa sundurlyndi og deilur. Flestir á þessari skoðun tilheyra efri lögum samfélagsins og vita ekki hvað skortur er. Þessi sýn á samfélagið var reyndar barin inn í mann í æsku og áttu Íslendingar að vera sérlega stoltir af stéttlausa samfélaginu sínu. Það er auðvitað mjög hentugt fyrir þá sem hafa tögl og hagldir í samfélagi að telja öllum öðrum trú um að það séu allir séu jafnir. Það minnkar mjög óánægju og sundrungu. Þá hafa menn agnúast út í stéttaprófið og ýmsar spurningar þar hafa komið af stað umræðu. Í því sambandi má benda á að stéttaprófið er engin algild vísindi – jafnvel þó svo að flestar spurningarnar þar byggi á vel út pældum tölulegum gögnum. Prófinu var ekki ætlað að skipa fólki í hópa – heldur fanga athygli fólks og vekja það til umhugsunar á eigin stöðu. Fólk sem býr í leiguhúsnæði, á í fjárhagserfiðleikum, er með lágar tekjur, hefur neitað börnum sínum um æfingagjöld til íþrótta og glímir við lífsstílssjúkdóma er ekki í millistétt. Það getur vel verið að ýmsir sem hafa lent í þessari stöðu eða eru í henni núna nái að vinna sig upp og komast í betri stöðu – en ofangreint er lýsing á fátækt. Millistéttarfólk er ekki fátækt. Mörg þekkjum við fólk í yfirstétt og oft getur það verið prýðisfólk og skemmtilegt. En við eigum enga sameiginlega hagsmuni með því fólki. Hagsmunir yfirstéttar eru nefnilega ekki þeir að bæta lífskjör fátæks fólks eða yfirleitt að bæta lífskjör neins. Hagsmunir yfirstéttar eru að hagnast enn meir og með hvaða aðferðum sem er – eins og dæmin sanna. Yfirstéttin ræður yfir fólki með mikla persónutöfra og fjármunum til að beita fyrir sig fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og gerir það óspart. Með þessum tækjum fær yfirstéttin fátækt fólk aftur og aftur til að berjast fyrir sig og gegn eigin hagsmunum. Andvaraleysi almennings er með ólíkindum og það sjálfstæði og lýðræði sem þjóðir heimsins börðust fyrir er í hættu. Það má leiða sterk rök fyrir því að þegar mannkynssagan verður rituð árið 3000 – ef mannkynið verður yfirleitt til þá – verði kafli um „lýðræðistilraunina 1850 – 2050“ þegar fólki var treyst til að kjósa fulltrúa sína til stjórnar í samfélaginu. Grafskrift tilraunarinnar verður væntanlega að hún hafi brugðist vegna stórkostlegrar græðgi þeirra sem náðu völdum og fullkomnu andvaraleysi almennings. Þannig hafi auðmenn og ólígarkar náð völdum yfir öllum stofnunum samfélagsins og rekið það eins og hvert annað fyrirtæki. Þannig hafi arður samfélagsins verið hámarkaður og greiddur út til eigenda þess – en þegnunum séð fyrir afþreyingarefni og andlegum og líkamlegum fíkniefnum. Í Róm til forna – hét þetta „brauð og leikar“ og þá héldu keisarar völdum með því að kaupa sér vinsældir. Héldu glæsilega skylmingaleiki þar sem menn börðust til dauða – mannfjöldanum til ánægju – og svo var gjafabrauði útbýtt á torgum. Alþýðufólk á Íslandi sem og annars staðar nær aldrei árangri í baráttu fyrir jafnari lífsgæðum fyrr en fólk lærir að standa með sjálfu sér og þeim sem við eigum samleið með. - Salb. Frá formannafundi Sjómannasambands Íslands í Neskaupstað

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.