Nesfréttir - 01.08.2021, Blaðsíða 10

Nesfréttir - 01.08.2021, Blaðsíða 10
Sýning á kirkjulistaverkum Sigrúnar Jónsdóttur (1921-2001), kirkjulistakonu, verður í Seltjarnar- neskirkju í tilefni þess að eitt hundrað ár voru liðin frá fæðingu hennar 19. ágúst síðastliðinn. Sýningin verður opnuð að lokinni guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju 29. ágúst kl. 11.00. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar í guðsþjónustunni, en sóknarpresturinn sr. Bjarni Þór Bjarnason, þjónar fyrir altari. Organisti er Friðrik Vignir Stefánsson og kór kirkjunnar syngur. Sýningin verður opnuð formlega að lokinni guðsþjónustunni og boðið verður upp á hressingu. Sigrún Jónsdóttir, kirkjulistakona, fæddist í Vík í Mýrdal 19. ágúst 1921. Hún lést 22. nóvember 2001. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Jónsson, silfur- og málmsmiður, og Guðný Þorgerður Þorgilsdóttir, starfskona hjá Alþingi. Snemma komu í ljós listrænir hannyrðahæfileikar Sigrúnar sem hún lagði rækt við og gerðu hana að þeirri listakonu sem nú er minnst með virðingu. Hún fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum og lauk því 1939. Nokkru síðar tók hún að sækja námskeið í saumum og handavinnu, ýmist hjá einkakennurum eða í Handíða- og myndlistaskólanum. Sigrún lauk handavinnukennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1947. Hún hélt utan til Gautaborgar til frekara listnáms. Sigrún útskrifaðist sem meistari úr textíldeild Slöjdföreningens-skóla eftir tíu ára nám og starf að listgreininni í Gautaborg. Sigrún kynnti fyrir Íslendingum ævaforna listgrein, batik. Batikskermar og batikdúkar sem hún gerði nutu mikilla vinsælda. Sýningar á kirkjulist hennar voru haldnar hér heima og í Bandaríkjunum. Segja má að hún sé með fyrstu kirkjulistakonum Íslendinga og er líklega mikilvirkust þeirra allra í kirkjulist þar sem vefnaður og saumur koma við sögu. Höklar, stólur, stólsáklæði á prédikunarstól og altarisklæði Sigrún vann fjölda ofinna og saumaðra kirkjulistaverka fyrir kirkjur víðs vegar út um land sem og í útlöndum. Þessi verk kallast höklar, stólur, stólsáklæði á prédikunarstóli og altarisklæði. Því síðastnefnda er sveipað utan um altari í kirkjum eða altarisbrúnina. Verkin eru ætíð prýdd með fornum kirkju- og guðfræðilegum táknum. Hún lét líka til sína taka á öðrum menningar- og minjasviðum svo um munaði. Það var að frumkvæði hennar að eikarskipið Skaftfellingur var flutt til Víkur í Mýrdal frá Vestmannaeyjum fyrir rúmum tuttugu árum. Skaftfellingur var á æskuárum hennar líftaug íbúanna í Vík. Sigrún var öflug kona og alla tíð trú sínu listræna þjónustuhlutverki. Sýning á list Sigrúnar stendur yfir í mánuð og er aðgangur ókeypis. HSH. 10 Nesfrétt ir Kirkjulistakonu minnst Sýning á verkum Sigrúnar Jónsdóttur í SeltjarnarneskirkjuHraðavaraskilti við Lindarbraut Hraðavaraskilti er komið við Lindarbraut á Seltjarnarnesi þar sem hámarkshraði er nú 40 kílómetrar á klukkustund. Almennum hraðaskiltum hefur verið breytt í kjölfar lækkunar hámarkshraða úr 50 kílómetra hraða í 40 til að auka umferðaröryggi vegfarenda um Lindarbraut samkvæmt staðfestingu bæjarstjórnar í vor. Að auki voru nýverið sett upp tvö hraðavaraskilti í sitthvora akstursstefnuna á götunni sem benda ökumönnum á hraðann sem þeir aka á. Íbúar hafa lýst ánægju sinni með breytinguna og er vonast til að hún dragi markvisst úr hraðanum á Lindarbrautinni sem er fjölfarin gata og mikið um börn og ungmenni á leið til og frá skóla. Frá Lindarbraut þar sem hraðavaraskilti hefur verið komið upp.

x

Nesfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nesfréttir
https://timarit.is/publication/1112

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.