Íslenzk fyndni - 01.06.1940, Síða 56
54
Hér er ein saga, sem gæti vakið athygli manna á
því að hugsa með gagnrýni um slíkar sagnir, en
sagan gerðist fyrir fáum árum.
Magnús bóndi bjó skammt frá kaupstað.
Einu sinni var það að haustlagi, að hann skrapp í
kaupstaðinn.
Hann var síðbúinn heim um kvöldið, og var kom-
ið svarta myrkur og hellirigning, þegar hann lagði
af stað.
Hann var ríðandi, en ekki var nema klukkutíma
reið heim til hans.
Heimafólk Magnúsar er farið að undrast um hann,
því að komið er fram undir vökulok.
Allt í einu er útidyrahurðinni hrundið upp, og
húsbóndinn kemur hlaupandi inn bæjargöngin,
skjálfandi af hræðslu og náfölur í framan.
Hann var allur hruflaður og blóðugur á höndum,
og föt hans rifin í hengla.
Þegar Magnús náði andanum fyrir mæðinni,
stundi hann því upp, að hann hefði lent í bardaga
við draug eða skrímsli á heimleiðinni.
Heldur kvaðst hann halda, að það hafi verið
skímsli en draugur, því það hefði verið alsett gödd-
um, og trjóna hefði verið á því, sem það hefði stund-
um veifað fram og til baka.
Þetta skrímsli sagði hann, að hefði orðið á vegi
sínum heim undir bæ og varnað sér götuna.
Hann ætlaði þá að ríða fram hjá því, en það teygði
þá trjónuna fram fyrir hestinn.
Fældist hann þá, og Magnús datt af baki, og hafði
hann ekki meira af hestinum að segja.