Morgunblaðið - 10.09.2022, Blaðsíða 22
22
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. SEPTEMBER 2022
Hryllingurinn
í Úkraínu
heldur
áfram. Engin leið er
að fá réttar tölur um
mannfall en ljóst er
að þær eru háar.
Úkraínumenn segja
yfir fimmtíu þúsund
rússneska hermenn hafa fallið.
Það kunna að vera ýkjur en
mannfallið er mikið í herjum
beggja, að ógleymdum þeim sem
alls ekki mega gleymast; óbreytt-
um borgurum, konum, börnum,
gömlu fólki og sjúku. Engu er eirt
í slíku stríði þar sem innrásarher-
inn lætur sprengjum rigna yfir
borgir og er annað hvort sama um
líf óbreyttra borgara eða reynir
beinlínis að valda sem mestri
skelfingu sem óhjákvæmilega
fylgir slíkum ósköpum.
Stríðið, sem Pútín forseti reyn-
ir enn að kalla sérstaka hernaðar-
aðgerð, hefur staðið í rúmlega
hálft ár, með þeim afleiðingum að
stór svæði í austri og suðri Úkra-
ínu eru sviðin jörð. Baráttuþrek
úkraínska hersins er mun meira
en búist var við enda töldu margir
að her Pútíns yrði varla nema
nokkra daga eða vikur að hertaka
landið. Raunar töldu ýmsir, sem
ekki var fráleitt að ætla, að Úkra-
ínumenn myndu gefast upp bar-
áttulítið eða baráttulaust enda
virtist við algert ofurefli að etja.
Framan af beið úkraínski her-
inn mikla ósigra og Rússar náðu
næsta auðveldlega stórum hluta
lands í austri og suðri. Þeir urðu
hins vegar að endurhugsa að-
gerðirnar þegar skyndisóknin
breyttist í hægfara stríðsátök og í
ljós kom að rússneski herinn var
veikari en hefði mátt ætla af þeim
mikla fjölda hermanna og her-
gagna sem safnað hafði verið að
landamærum Úkraínu. Lengi vel
sagði Pútín að þessi liðssöfnuður
þýddi ekki að innrás væri yfirvof-
andi, en sú fullyrðing reyndist
jafn áreiðanleg og ýmsar aðrar
síðan.
Þannig hefur Pútín til dæmis
haldið því fram að hann muni ekki
nota gas og olíu sem vopn í átök-
unum, þó ekki þeim hern-
aðarlegu, við ríki Evrópusam-
bandsins. Þetta hefur allan tím-
ann verið ósannfærandi stað-
hæfing og verður æ fjarstæðu-
kenndari eftir því sem „viðgerð-
irnar“ á gasleiðslum rússneskra
fyrirtækja gerast tímafrekari og
umsamdar afhendingar bregðast
oftar.
Í þessum efnum geta ríki ESB
auðvitað engum um kennt nema
eigin skammsýni og barnaskap,
því þau áttu aldrei að treysta á
orkuna frá Rússlandi, en það ger-
ir hlut Pútíns ekki betri.
Annað sem hann hefur nýlega
haldið fram er að kornið, sem
samið var um að leyfa Úkraínu að
flytja út til að reyna að forða
fæðuskorti í fátækari ríkjum, rati
í raun á diska ríkra Evrópubúa.
Fylgst er með þessum kornflutn-
ingum og ekkert bendir til að
Pútín hafi rétt fyrir sér um þetta,
enda fjarstæðukennt. En nú telur
hann að það henti
sér að nota yfirvof-
andi fæðuskort sem
vopn og um leið að
með slíku tali,
spunnu saman við
vel valin orð um
sviksama nýlendu-
herra, megi etja íbú-
um Afríku gegn Vesturlöndum.
Fróðlegt verður að sjá hvað verð-
ur úr þegar Pútín ræðir þetta við
Erdogan, forseta Tyrklands, sem
hann segir að standi til, en Er-
dogan átti stóran þátt í að hægt
var að opna fyrir kornútflutning-
inn.
Það jákvæða við aukna hörku
Pútíns gagnvart orkuútflutningi
til ríkja Evrópusambandsins og
gagnvart útflutningi Úkraínu á
korni er að hvort tveggja er vís-
bending um að hann óttist þró-
unina á vígvellinum. Hann full-
yrðir að vísu að hann hafi engu
tapað þar, en það virðist ekki rétt
því að fregnir hafa borist af sókn
Úkraínumanna, einkum í austri
en einnig ákveðnum ávinningi í
suðri. Slíkum fregnum verður að
taka með fyrirvara því að báðir
aðilar hafa hag af að því að fegra
sinn hlut. Enn fremur þarf að
hafa þann fyrirvara á að þó að
úkraínska hernum hafi tekist,
með miklu harðfylgi og öflugum
stuðningi í formi hergagna frá
Vesturlöndum, einkum Banda-
ríkjunum, að ýta rússneska hern-
um nær landamærunum á
ákveðnum stöðum, þá er ekki á
vísan að róa um varanleika þeirra
landvinninga.
Pútín kann að eiga nokkra ása
í erminni og er þá ekki átt við
kaup hans á hergögnum frá
Norður-Kóreu eða drónum frá
Íran, sem þó kunna að koma að
gagni. Hann hefur til dæmis ekki
enn farið út í allsherjarherkvaðn-
ingu í Rússlandi en með slíkri að-
gerð gæti hann fjölgað verulega í
hernum sem er nokkuð sem
Úkraínumenn geta ekki leikið
eftir. Ekki er ljóst hvaða afleið-
ingar þetta hefði fyrir stöðu hans
innanlands en hætt er við að hún
sé nægilega sterk til að þetta
gæti gengið upp. Þá er ekki hægt
að útiloka, þótt enginn vilji hugsa
þá hugsun til enda, að hann grípi
til gereyðingarvopna, eða í það
minnsta hóti grímulaust beitingu
þeirra, telji hann sig kominn í þá
stöðu að hann geti ekki snúið
stríðinu sér í vil með hefð-
bundnum aðferðum.
Engin leið er að fullyrða um
hvernig stríðið þróast og það er
sem fyrr að mestu í höndum Pút-
íns. Hann er sá sem hóf stríðs-
reksturinn og getur um leið
stöðvað hann. En hann kann að
vera kominn í þá stöðu að áhætt-
an af því að hætta sé meiri en sú
að halda áfram, jafnvel þó það
þýði að grípa þurfi til aðferða
sem hann hefur látið vera hingað
til. Þess vegna fer því fjarri, því
miður, að Úkraínumenn geti talið
sigur vísan, eins og stundum er
fullyrt, nú þegar rússneski her-
inn hefur þurft að gefa nokkuð
eftir.
Í hryllingnum glittir
í ánægjulega þróun,
en varasamt er að
ofmeta árangurinn
eða vanmeta Rússa}
Hvert stefnir í stríðinu?
SVIÐSLJÓS
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Þ
að er mikil dýpt í þessum
lýsingum sem ég held að
séu einstakar fyrir þetta
tímabil og við fáum þarna
mikið þversnið á árið 1770 í þjóð-
félaginu,“ segir Hrefna Róberts-
dóttir þjóðskjalavörður um skjöl
Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771
sem nú hafa verið gefin út í heild.
Útgáfu sjötta bindis þessarar útgáfu
verður fagnað með ráðstefnu
fimmtudaginn 15. september í Þjóð-
skjalasafni Íslands.
Landsnefndin fyrri var þriggja
manna sendinefnd sem dönsk
stjórnvöld sendu til Íslands til þess
að skoða allar hliðar á íslensku sam-
félagi og dvaldi hér í eitt og hálft ár,
1770-1771.
Út úr þeirri vinnu kom gríðar-
stórt skjalasafn, um 4.000 síður, sem
nú er komið á prent í sex bindum. Í
fyrstu fjórum bindunum er að finna
bréf og greinargerðir Íslendinga
sem landsnefndin óskaði eftir en í
síðustu tveimur bindunum eru
vinnugögn og niðurstöður nefnd-
arinnar og varpa þau ljósi á hvað
þessari nefnd fannst um Ísland.
„Verkefni nefndarinnar var í
rauninni að skoða allar hliðar á þjóð-
lífinu, það var stjórnkerfið, heil-
brigðismál, fiskveiðar, ræktun,
handverk, skólahald og í rauninni
allt sem nöfnum tjáir að nefna í því
hvernig reka á samfélag,“ segir
Hrefna.
Þjóðfélag í kreppu
„Á þessum árum var gríðarleg
efnahagskreppa. Það hafði fjárkláði
mikill gengið yfir sem gerði það að
verkum að það hrundi stór hluti af
bústofni á stórum hluta landsins.
Þar af leiðandi var mikill fjárskortur
í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Það var verið að leita leiða til þess að
reisa það við. Tillögur um aukna út-
gerð, betri landbúnaðarhætti, þúfna-
sléttun og annað. Þannig að það má
segja að þetta hafi verið þjóðfélag í
kreppu þarna um 1770.“
Í framhaldinu komu fram ýms-
ar tillögur um hvernig mætti bæta
íslenskt samfélag, t.d. í tengslum við
landbúnað, vinnulöggjöfina, leigu-
kjör og einokunarverslunina. Nefnd-
in lagði margt til en ekki allt fór í
framkvæmd.
Þá segir Hrefna einnig að
stéttaskiptingin í samfélaginu sjá-
ist vel í skjalasafninu. „Þarna eru
bréf frá öllu landinu og ýmsum
þjóðfélagshópum, lögmönnum,
sýslumönnum …“ Engir bréfritar-
anna séu þó konur. Einnig sé
áhugavert að skoða tungumálið
sem notað var á þessum tíma. „Það
er mikið orðfæri sem er öðruvísi en
á 19. öld þegar það varð meiri mál-
hreinsun. Eins skrifa margir Ís-
lendingar á dönsku, þá sérstaklega
embættismennirnir, og þá sjáum
við hvers konar dönsku þeir
skrifa.“
Fimmtán árum síðar var stofn-
uð önnur landsnefnd og í kjölfar
vinnu hennar urðu meiri breytingar
á íslensku samfélagi, einokunar-
verslun var til dæmis aflétt og
kaupstaðir stofnaðir. Starfsmenn
Þjóðskjalasafnsins vinna nú við að
mynda skjalasafn Landsnefnd-
arinnar síðari, sem telur um 5.000
síður.
Skjöl Landsnefndarinnar
eru sameiginlegur arfur Ís-
lands og Danmerkur. Danska
ríkisskjalasafnið afhenti Íslend-
ingum þau árið 1928.
Verkefnið er unnið í sam-
starfi við Sögufélagið og
Danska ríkisskjalasafnið og
eru allir formálar, greinar
og skýringar bæði á ís-
lensku og dönsku.
Þversnið þjóðfélags á
fjögur þúsund síðum
Hrefna Róbertsdóttir þjóð-
skjalavörður segir að sér hafi
komið á óvart hve mikið er af
lýsingum á daglegu lífi á
seinni hluta 18. aldar í skjöl-
um landsnefndarinnar. „Það
er það sem gerir þetta safn
einstakt. Það er eiginlega
stærsta safn bréfa frá al-
mennum bændum og hjá-
leigumönnum þar sem þeir
eru að lýsa aðstæðum sínum.
Þeir eru að kvarta yfir lands-
drottnum sínum, hárri leigu,
búfjárfelli og öllu mögulegu.“
Í skjalasafninu sé að
finna upplýsingar sem
varpi ljósi á hvernig
þjóðfélagið var á
þessum tíma. Allt frá
því hvernig kjör og
samgöngur voru til
þess hvernig matar-
æði fólks var og
hvaða aðgang
menn höfðu að
tóbaki.
Kvartanir
almennings
DAGLEGT LÍF Á 18. ÖLD
Hrefna
Róbertsdóttir
Skjöl Embættisbækur Landsnefndarinnar fyrri og hin sex binda útgáfa á
skjölum nefndarinnar. Í bakgrunni er bréf bænda í Sandvíkurhreppi.
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
F
yrir stuttu gaf matvælaráðuneytið
út samræmda áætlun í landgræðslu
og skógrækt, ásamt aðgerðaáætlun
til næstu fimm ára. Þar með er
mörkuð stefna um hvernig við vilj-
um sjá landgræðslu og skógrækt þróast næstu
ár og tilgreint hvernig við ætlum að hrinda þeim
fyrirætlunum í framkvæmd. Markvissar aðgerð-
ir sem þessar eru forsenda þess að við getum
náð markmiðum okkar í loftslagsmálum. Vinna
þarf að því að ná 55% samdrætti fyrir árið 2030
og svo að hinu stóra verkefni, að þjóðfélagið
verði kolefnishlutlaust árið 2040. Án mikils ár-
angurs í þeim hluta sem heyrir undir landnotkun
mun það ekki nást. Við höfum ekki tíma til þess
að bíða þangað til að allri óvissu um hver losunin
er, hefur verið eytt með rannsóknum. Við vitum
nóg nú þegar. Við vitum að rofið land og framræst vot-
lendi losar kolefni og skógrækt bindur kolefni.
Blómleg vistkerfi bæta lífsgæði
Þá eru þessar aðgerðir ekki eingöngu loftslagsaðgerðir
heldur eru þær í sjálfu sér mikilvægar og góðar. Í rúm
hundrað ár hefur Landgræðslan stundað sína mikilvægu
starfsemi, sem fyrst um sinn snerist um nauðvörn en hin
síðari ár um sókn. Þó er enn mikið verk fyrir höndum,
enda er allt of stór hluti landsins illa gróinn en ætti að geta
verið grösugar heiðar. Blómlegri vistkerfi styðja einfald-
lega við bætt lífsgæði þjóðarinnar ásamt því að blómlegri
vistkerfi gefa meiri afurðir af sér, fyrir þá sem nýta þau.
Þær aðgerðir sem unnið verður að munu skila hundr-
uðum þúsunda tonna samdrætti í losun og auk-
inni bindingu. Gert er ráð fyrir blöndu af land-
græðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.
Orð eru til alls fyrst en það þarf einnig að huga
að þeim hvötum sem eru til staðar fyrir landeig-
endur til að ráðast í verkefni. Ég sé fyrir mér að
nauðsynlegt verði að beita búvörusamningunum
til þess að skapa rétta hvata. Enda er það allra
hagur að ráðist sé í sem fjölbreyttust land-
bótaverkefni. Eðlilegt er að ríkið búi þannig um
hnútana að þeir sem ráðist í slík verkefni upp-
skeri laun erfiðis síns.
Bændur þurfa að uppskera fyrir árangur
Þessir hvatar eru ekki til staðar í þeim bú-
vörusamningum sem gerðir voru 2016. Engir
hvatar eru til staðar fyrir bónda að t.d. end-
urheimta votlendi eða stunda markvissa beitarstýringu.
Þessu verður að breyta, því að öðrum kosti er ætlast til
þess að bændur gefi vinnu sína. Það er hvorki sanngjarnt
né vænlegt til árangurs. Til þess að við náum árangri
verða nauðsynleg umskipti að vera réttlát. Þannig verður
að aðlaga kerfið þannig að það umbuni þeim sem ná ár-
angri í loftslagsmálum.
Næstu ár eru afgerandi. Samræmd áætlun í land-
græðslu og skógrækt er stórt skref í rétt átt. En fleiri
skref, m.a. grænkun búvörusamninga með áherslu á ár-
angurstengingu þurfa að fylgja á næstu árum.
svandis.svavarsdottir@mar.is
Svandís
Svavarsdóttir
Pistill
Land og líf
Höfundur er matvælaráðherra
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen