Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.11.2022, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - Sunnudagur - 27.11.2022, Blaðsíða 8
8 AFMÆLI MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 27.11.2022 Frá fjáröflunarfundi vegna fyrirhugaðrar byggingar elliheimilis í Reykjavík. Maður endar bara á Grund Grund – Frá hugsjón til heillaríks starfs í heila öld heitir ný heimildarmynd sem sýnd verður í Ríkis- sjónvarpinu í kvöld, sunnudagskvöld. Rakinn er aðdragandinn að stofnun dvalarheimilisins Grundar fyrir 100 árum og starf Grundarheimil- anna í Reykjavík og Hveragerði í heila öld en sama fjölskyldan hefur stjórnað fyrirtækinu frá upphafi. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Árið 1922 var öðruvísi umhorfs í Reykjavík en við þekkjum í dag. Reykvíkingar voru aðeins um 11 þúsund manns og fátækt var mikil í bænum. Það hefur því verið meira en að segja það að setja á lagg- irnar elliheimili. „Fólk hafði varla húsaskjól og eldra fólk þurfti oft og tíðum að stóla á afkomendur sína, bjó þá gjarnan uppi á lofti eða niðri í kjallara,“ segir Jón Þór Hannes- son, höfundur heimildarmyndarinn- ar Grund – Frá hugsjón til heillaríks starfs í heila öld. Aðalhvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknar- félagsins Samverjans. Það voru þeir Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson tré- smíðameistari, Páll Jónsson skrif- stofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður. Sumrin 1921 og 1922 héldu þeir Samverjamenn nokkrar skemmtanir fyrir gamalt fólk í þeim tilgangi að safna fé til stofnunar elliheimilis, að því er fram kemur á vefsíðu Grundar. Gáfu gestir þessara skemmtana og aðrir aðilar svo rausnarlega, að alls söfnuðust 541 kr., enda voru skemmtanirnar mjög vel sóttar. Það var síðan í kjöl- far þessa, að Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði grein í dagblaðið Vísi og kom fram að ánægjulegt væri, ef hægt yrði að flýta fyrir stofnun elliheimilis með þessari upphæð. „Ef stjórn Samverjans lofar að stofna elliheimili í haust skal ég gefa 1.500 kr. í stofnsjóðinn og safna fé hér í bænum." Þannig mælti gamall maður við Sigurbjörn Á. Gíslason þann 22. júlí árið 1922. Maðurinn var Jón Jónsson beykir í Reykjavík, og var hann að svara Vísisgrein Sigurbjörns. Þetta samtal Jóns varð því einn helsti hvati þess, að nokkrir bæjarbúar létu til skarar skríða og stofnuðu það ár Grund. Umsvifamiklir menn „Þeir sem stóðu að Samverja voru umsvifamiklir og þekktir menn í bænum og vel tengdir KFUM,“ segir Jón Þór. „Þeir höfðu um tíma haldið úti fjáröflunarsamkomum og matargjöfum og stofnun elliheimilis var rökrétt framhald. Þeir höfðu kynnt sér elliheimili í Kaupmanna- höfn og voru einnig undir áhrifum frá Winnipeg, þar sem Íslendingar höfðu stofnað elliheimili. Sigurbjörn Ástvaldur hafði komið þangað undir kristilegum merkjum.“ Eiginkona Sigurbjörns, Guðrún Lárusdóttir, lagði einnig gjörva hönd á plóg. „Þau hjónin voru mjög samhent í þessu verkefni, sem öðru, og Guðrún átti til að hýsa heilu fjölskyldurnar í dágóðan tíma. Hún kunni einfaldlega ekki að segja nei við fólk sem átti erfitt.“ Fjársöfnun gekk vel og í byrjun september 1922 keypti stjórn Sam- verjans steinhúsið Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg, eins og við þekkjum í dag. Húsið var vígt 29. október sama ár. Í upphafi voru heimilis- menn 21. „Það hús þótti alltof langt út úr bænum, vestast í Vesturbæn- um,“ segir Jón Þór sposkur. Það sýndi sig fljótt, að þörf var á fleiri rýmum þar sem aðsóknin óx stöðugt. Þetta leiddi til þess, að sumarið 1927 úthlutaði bæjarstjórn Reykjavíkur heimilinu lóð milli Hr- ingbrautar og Brávallagötu og vinna við nýtt hús hófst strax. Það var vígt 28. september 1930 og nefnt Grund, eins og gamla húsið við Kaplaskjóls- veg. Fjöldi heimilismanna á þeim tíma var 56. Árið 1934 voru þeir orðnir 115, en á þessum tíma bjó einnig starfsfólk á heimilinu, og hluti hússins var í útleigu. Raunar upplýsir Jón Þór að fyrstu gestir Grundar hafi verið Vestur-Íslendingar sem hingað komu vegna Alþingishátíðarinnar 1930. Tómt basl til að byrja með „Reksturinn var tómt basl til að byrja með,“ segir Jón Þór. „Það var ekki fyrr en Gísli, sonur Sigur- björns Ástvalds og Guðrúnar, var ráðinn forstjóri heimilisins 1934 að blaðinu var snúið við á einu til tveimur árum. Gísli var kornungur en hafði lokið verslunarprófi hér heima og verið í námi í verslunar- fræðum í Þýskalandi.“ Skemmst er frá því að segja að Gísli veitti Grund forstöðu í sextíu ár, eða til dauðadags, en þá tók dóttir hans, Guðrún Birna Gísladótt- ir, við af föður sínum sem forstjóri Grundar og starfaði sem forstjóri til 1. júlí árið 2019. Þá tók við starfinu enn einn ættliðurinn, Gísli Páll Pálsson, sem nú er forstjóri Grundarheimilanna þriggja og veitir einnig forstöðu öðrum fyrirtækjum sem tengjast Grund eins og fast- eignafélögunum ÍEB og GM sem og þvottahúsi heimilanna í Ási. Árið 1952 tók Grund að sér rekstur Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði fyrir elliheimilisnefnd Árnessýslu og voru húsin þar tvö og heimilismenn 13 fyrsta árið. Í dag er Ás í eigu Grundar og árið 1998 var tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili í Ási og eru heimilismenn í Ási nú um 100 talsins. Bæjarás er lítið heimili sem rekið er af Ási í Hveragerði. Þar búa nú fimm heimilismenn og þangað koma íbúar úr Hveragerði í dagþjálfun. Þá tók Grund að sér rekstur hjúkrunarheimilisins Markar á haustdögum árið 2010. Þar búa nú 113 heimilismenn í 11 heimiliseining- um. Heimilið í Mörk er einnig rekið í anda Eden-hugmyndafræðinnar. Grund á og rekur 154 þjónustuíbúð- ir við Suðurlandsbraut í fasteigna- félögunum GM og ÍEB. Gera þetta af hugsjón Að áliti Jóns Þórs er Grund skólabókardæmi um það að sjálfseignarformið geti virkað vel í rekstri. „Heimilið hefur vaxið og dafnað enda er því ekki að neita að þetta er góður bissness. Fólk eldist og lifir lengur en það gerði og nú eru fjölmennir árgangar að komast á aldur. Það er auðvitað stórmerki- legt að sama fjölskyldan skuli hafa haldið utan um þessa starfsemi allan þennan tíma sem segir okkur að þau gera þetta af hugsjón og umhyggju fyrir eldra fólki.“ Jón Þór segir andann á Grund alla tíð hafa verið góðan og í myndinni ræðir hann meðal annars við fólk sem vann á heimilinu en dvelst þar nú sjálft. „Það segir manni hvert fólk vill helst fara þegar aldurinn færist yfir. Læknar mæla líka gjarnan með Grund vegna góðrar aðhlynningar og persónulegrar þjónustu. Orðspor Grundar innan greinarinnar hefur alltaf verið gott. Oft er sagt „maður endar bara á Grund“ og það á ágæt- lega við um mig sjálfan enda er ég orðinn 78 ára. Ætli ég fari ekki bara að sækja um pláss. Ég þekki í öllu falli vel til.“ Hann hlær dátt. Í dag eru heimilismenn Grund- ar um 175 og hefur þeim fækkað á undanförnum árum. Markmið heimilisins er, til lengri tíma litið, að allir þeir, sem þess óska, geti búið í einbýlum með sér baðherbergi og mun þá heimilisfólki fækka enn frekar. Um 300 manns eru starfandi á Grund, margir í hlutastörfum en á Grundarheimilunum þremur starfa nú nálægt 700 manns. Jón Þór kveðst hafa haft mikla ánægju af gerð myndarinnar enda sé starfsemin á Grund stórmerki- leg. Raunar svo merkileg að hann myndi vilja leggja þegnskylduvinnu á ungt fólk í landinu á sumrin til að kynnast henni. „Starfið er bæði fróðlegt og innihaldsríkt. Grund er merk stofnun fyrir Reykvíkinga og alla landsmenn enda þekkjum við flest einhvern sem þar býr eða hefur búið.“ Heimildarmynd um Friðrik Spurður um önnur verkefni svarar Jón Þór því til að eldra fólk sé svolítið hans tebolli um þessar mundir. „Ég er að ljúka við heimildarmynd í tveimur hlutum um Friðrik Ólafsson stórmeistara sem sýnd verður í Ríkissjónvarpinu á næstunni. Farið er yfir ævi hans og feril og ég reyni að tengja við tíðaranda eftirstríðsáranna, þegar Friðrik var að vaxa úr grasi. Einnig eru ný viðtöl við Friðrik í myndinni en hann er að verða 88 ára og alveg klár í kollinum. Friðrik var ein af þessum fyrirmyndum sem hjálp- uðu þjóðinni að finna sjálfsmynd sína; hann, Halldór Laxness og Vilhjálmur Einarsson. Einvígið við Bent Larsen 1956 er mér ógleym- anlegt. Það var á þeim tíma stærsti skákviðburður sem fram hafði farið á Íslandi, þjóðfélagið stóð á öndinni og við krakkarnir fengum frí í skóla til að fara upp í Sjómannaskóla og vera með nefið á rúðunni.“ Annars kveðst Jón Þór vera farinn að hægja á sér í kvikmynda- gerðinni. „Við skulum orða það þannig að ég geri bara það sem mig langar til að gera. Maður getur ekki bara ferðast eða verið í golfi. Það þarf að gera eitthvað með.“ Hann hlær. Gamla Grund stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg. Jón Þór Hannesson er höfundur heimildarmyndarinnar um Grund. Fyrstu heimilismennirnir á elliheimilinu Grund fyrir réttum hundrað árum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.