Borgfirðingabók - 01.12.2009, Blaðsíða 10
10 Borgfirðingabók 2009
Á yngri árum fór Snorri líka í kaupavinnu norður í Vatnsdal. Þar
voru víðfrægar engjar og þörf fyrir góða sláttumenn.
Afi talaði mikið við mig og sagði mér frá æskuheimili sínu og
lífinu þar. Húsafell var þá í þjóðbraut og því gestkvæmt, heimilið
mannmargt og mikið um að vera. Auk venjulegra bústarfa var þar
mikið stunduð silungsveiði í vötnunum á Arnarvatnsheiði, skotveiði,
bæði til útrýmingar refum og fuglaveiði til heimilisnytja, gert til kola
og fleira sem tilheyrði sveitalífi fyrri tíðar. – Endurminningin um séra
Snorra Björnsson var þá enn mjög sterk og nálæg á Húsafelli.
Seinna fór afi að segja mér nokkuð frá lífinu í verstöðinni á
Ströndinni. Hann sagði mér til dæmis frá því að þegar gaf á sjó kom
formaðurinn í verbúðina eldsnemma morguns og vakti skipshöfnina
með því að kalla: ,,Það er ræðið, piltar,” sem táknaði að það væri
sjóveður.
Þegar ég stálpaðist og var orðinn vel læs, las ég upphátt fyrir hann
úr bókum sem bárust á heimilið, einkum ef það voru frásagnir af fólki
sem hann þekkti deili á eða ferðalögum um kunnuglegar slóðir. Hann
hafði gaman af þessu og átti til að gera athugasemdir ef honum fannst
eitthvað missagt í frásögninni. Þetta var auðvitað ágæt lestraræfing
fyrir mig og kom sér vel þegar ég fór seinna að ganga í skóla.
Afi var mikill hófsemdarmaður en ekki eiðsvarinn bindindismaður
eins og synir hans. Ég man eftir því að hann átti einu sinni portvíns-
flösku sem einhver hafði gefið honum. Hefur hann líklega dreypt
á innihaldinu á löngum tíma sem læknislyfi við brjóstþyngslunum.
Einu sinni gaf hann mér að smakka í skeið og þótti mér það ágætt
og merkilegt. Hann tók dálítið í nefið, og hafði ég þann starfa eftir
að ég stálpaðist að skera tóbak fyrir hann því að hann sá ekki til
þess. Neftóbakið var kallað rjól og fluttist í teningslaga kubbum
(bitum). Tóbaksblöðin voru snúin í lengju eins og mjóan kaðal og
pressuð saman í áðurnefnda bita. Lengjan var rakin utan af bitanum
eftir þörfum og tóbakið saxað smátt, skorið með tóbaksjárni á þykkri
harðviðarfjöl, tóbaksfjölinni. Skorna tóbakið geymdi afi í tóbakspung
(eltum hrútspung) og tók þaðan smám saman og setti í dósirnar. Hann
átti aldrei tóbaksbauk (pontu) úr horni eins og algengt var.
Heilsu afa hrakaði mikið síðustu árin sem hann lifði. Brjóstþyngslin
ágerðust. Hlynnt var að honum heima þar til að hann dó í rúminu sínu
í baðstofunni. Var ég þar nærstaddur. Þessi atburður hafði mikil áhrif
á mig, enda var ég á viðkvæmum aldri og við tveir nátengdir. Líkið
stóð uppi í gestaherberginu á neðri hæð hússins þangað til það var