Borgfirðingabók - 01.12.2009, Blaðsíða 204
204 Borgfirðingabók 2009
og berjalautirnar, allt þetta sem sveitin mín átti í svo ríkum mæli,
fegurra en raun er á. Þó vil jeg geyma mynd þína sem helgan grip í
huga mínum. Jeg vil taka hana fram þegar mjer leiðist og mig langar
heim, jeg vil láta hana lýsa mjer eins og stjarna ferðamanni aftur
heim til átthaganna.
„Út vil jeg út,“ sagði þráin í mjer, að leita fjár og frama, þegar jeg
gekk sem fátækur smaladrengur þar heima í dalnum milli fjallanna
háu. „Heim vil jeg, heim“ hvíslar í barmi mjer núna. Það er röddin
helga sem alltaf segir að föðurlandið á fyrsta rjett til sona sinna. Og
aldrei gleymi jeg að það er torfbærinn á Desey, áin með fossanið,
fjöllin og holt og hæðir, lækir og lindir, skógarkjarr og grænar
grundir, eldgígirnir og hraunið og bæirnir og fólkið, sem býr þar,
aldrei gleymi jeg að það er mitt föðurland. Og nú þegar jeg hef verið
fjarri þjer nokkur ár þá hefi jeg lært að elska þig, meta það sem þú
gafst mjer og þrá það alt sem jeg átti þar heima.
Á margan hátt hefi jeg haft gott af að sjá sveitina mína, landið
og fólkið mitt úr fjarlægð nokkur ár. Jeg hef líka lært margt og
aukið þekkingu mína á ýmsum sviðum í þessi átta ár, meira en væri
mögulegt á nokkrum skóla. Lífið er ávalt besti skólinn. En oft er það
þannig í skóla lífsins að fátækt og einstæðingsskapur hrindir manni
áfram eins og þau hulin öfl er knýja dauða hluti vjelarinnar til að
hreyfast. Reynslan hefur kennt mjer að ekkert er betra fyrir unglinginn
en að vera neyddur til að hjálpa sjer sjálfur. „neyðin kennir naktri
konu að spinna,“ Háleitt markmið er líka nauðsynlegt að setja sjer.
Unglingur er leggur á stað út í heiminn með því einbeitta áformi; „jeg
vil og verð að komast áfram hvað sem það kostar,“ hann skortir a. m.
k. ekki viljann til að berjast og sigra á vígvelli lífsins. Þetta áform
byrjaði fyrst eins og óljós löngun í brjósti hans. En svo varð löngunin
að áformi og enginn getur lýst gleði hins unga manna er hann sjer
æskudraumana rætast og takmarkið nálgast. Og alltaf kemur myndin
af sveitinni minni og fólkinu mínu heima aftur og aftur fram í huga
mjer og manar mig til að vera lifandi vitnisburður als þess besta er
bærist í brjósti Íslendinga. Í þessu sambandi minnist jeg sjerstaklega
tveggja atburða frá útiveru minni er þjóðernistilfinningin sigraði yfir
öllum erfiðleikum sem sá er tilheyrir lítilli þjóð getur ratað í á meðal
stærri og ríkari þjóða.
Sumarið 1926 var jeg á kennaranámskeiði í Svíþjóð. Þar voru ca
200 kennarar frá æðri og lægri skólum í níu löndum og höfðu dvalið