Borgfirðingabók - 01.12.2009, Blaðsíða 68
68 Borgfirðingabók 2009
í Stóra-Ási, næsta bæ á móti, handan við Hvítá. Hún bjó yfir þeim
óútskýranlega galdri, auk vélarhljóðsins, að framleiða glaðbjört ljós
í bæinn og hita í eldunartæki og straubolta. Þessi tækni var með öllu
framandi flestum yngri og eldri í því nágrenni.
Nú tók hugarflugið stjórnina og reyndi allar hugsanlegar tilgátur
til þess að skýra fyrirbærið. Hljóðið kom úr suðri, í áttina frá Stóra-
Ási. Þar hlaut eitthvað óvenjulegt að vera að gerast. Þar bjuggu þá
sæmdarhjónin Kolbeinn og Helga, góðir grannar, sem aldrei settu sig
úr færi með að veita hjálp og greiða, jafnt þótt yfir stórfljót þyrfti að
fara til þess. Kolbeinn var lærður járnsmiður og hafði bæði tæki og
kunnáttu til þess að gera við og smíða ýmsa nauðsynlega brúkshluti,
bæði fyrir sig og aðra, auk þess að hann kom í framkvæmd á undan
flestum öðrum að virkja bæjarlækinn og setja upp heimilisrafstöð.
Hún var merkilegt umhugsunarefni á þessum tíma, rafstöðin í Ási.
Skyndilega skaust upp í hugann minning um einhvern nauð-
synlegan hlut sem hann átti og hafði boðið foreldrum mínum að láni
af þekktri greiðasemi sinni og af því að hann vissi að hann vantaði.
Það var ekkert rafmagn á bæjunum fyrir framan Stóra-Ás, hvorki í
Hraunsási né á Húsafelli. Getur verið að Kolbeinn hafi sett rafstöðina
sína á hestvagn og sé núna að fara með hana frameftir til þess að lána
nágrönnum sínum þar svo að þeir geti líka haft rafmagn? Hann væri
sannarlega vís til þess.
Hljóðið var líkast rafstöðvarhljóðinu af öllum þeim hljóðum sem
ég hafði heyrt til þessa. Það kemur líka úr þeirri átt, og gatan frameftir
liggur inn köstin rétt á móti engjunum þar sem við erum að heyja. Ég
renndi augunum fram og aftur eftir götunni inn með Áshlíðinni, en
hvergi sást hundur á hlaupum, hvað þá maður með hestvagn í taumi.
Vélfræðikunnátta mín náði ekki til þess að ég hefði hugmynd um að
vatn eða annan aflgjafa þyrfti til þess að snúa rafstöðinni svo að hún
gæfi frá sér hljóð.
En á meðan á þessum hugleiðingum stóð breyttist smám saman
stefnan sem hljóðið virtist koma úr og núna var engu líkara en það
kæmi úr loftinu, en það gat nú bara ekki verið.
Þó freistaðist ég til þess að líta augnablik af veginum hinum
megin við ána og upp til Oks og Giljahnjúka, sem sólin baðaði eins
og alla aðra sýnilega veröld í dag. Og þarna var einhver svartur
depill á loftinu á milli hnjúkanna sem færðist hægt norðaustur
eftir himinhvolfinu. Hljóðið jókst nú óðum svo að hádegisblundur