Víkurfréttir


Víkurfréttir - 09.06.2022, Qupperneq 21

Víkurfréttir - 09.06.2022, Qupperneq 21
„Þeir sem eru duglegir að koma sér á fram- færi eru líklegri til að ná langt,“ – segir Sævar Helgi Jóhannsson, tónskáld og píanóleikari. Sævar Helgi Jóhannsson er ungt tónskáld og píanóleikari sem á rætur sínar að rekja til Reykjanesbæjar. Sævar hélt á dögunum útgáfutónleika fyrir fjórðu plötu sína Whenever You’re Ready en hann hefur áður gefið út þrjár plötur undir listamannsnafninu S.hel. Hann segir plötuna vera byggða á vangaveltum hans um seiglu, kulnun og hvíld. „Ég vona að þessi plata veiti hlustendum ró. Eins og titillinn gefur til kynna þá eru skilaboðin þau að það er í lagi að taka sér pásu og gera hluti fyrir sjálfan sig,“ segir Sævar. Sævar segist reyna að ögra sér við gerð hverrar plötu. Á nýjustu plötu hans eru strengjahljóðfæri en hann fékk strengjaleikara með sér í lið. „Allar útsetningar á plötunni eru mínar en það er alveg ómetanlegt að við upptökur á plötunni var ég með frábæra strengjaleikara sem hafa spilað með Ólafi Arnalds. Þau hjálpuðu mér mikið með að finna réttu textúruna/stemmninguna í laginu. Í mínum huga eru þau sér- fræðingarnir og því afþakka ég ekki ef þau koma með góðar hugmyndir eða tilboð. Mér finnst bara svo ómet- anlegt að vinna með öðrum,“ segir hann. Hægt er að hlusta á plötuna á öllum helstu streymisveitum og segir Sævar viðbrögð fólks við plötunni hafa verið góð. „Það eru nokkrir búnir að senda á mig skilaboð varð- andi plötuna, ég er ótrúlega þakk- látur fyrir það.“ Samdi tónlist fyrir Skugga Svein Sævar æfði á saxófón og píanó í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og lauk BA-gráðu í tónsmíðum við Listaháskólann. Sævar hefur unnið í fjölbreyttum verkefnum tengt tónlistinni. „Ég er búinn að vera í hljómsveitarstússi, spila með kórum og búinn að vera að kenna á píanó í fjögur ár,“ segir hann. Þá samdi hann og útsetti einnig tónlistina fyrir nýjustu uppsetningu á leikritinu Skugga Sveinn í leikstjórn Mörtu Nordal þar sem Jón Gnarr var í aðal- hlutverki en það var sýnt á Akureyri í vetur. „Ég hafði sem sagt samband við Mörtu, leikstjórann, til að leitast eftir verkefnum og hún heyrði svo í mér varðandi Skugga Svein. Hún leggur mikið upp úr máltakinu; þeir fiska sem róa,“ segir hann. „Þetta er örugglega eitt af elstu ís- lensku leikritunum. Það var skrifað 1861 og er eftir einn af ástsælustu höfundum Íslands, Matthías Joch- umsson. Þannig þetta var alveg rosa- lega stórt verkefni. Við vorum með það markmið að gefa þessu nýjan anda en á sama tíma heiðra upp- runalegu útgáfuna og halda upp á arfinn. Það tókst vel til og þetta náði vel til allra,“ segir Sævar. Hljómsveitarmeðlimir með fjölbreyttar sögur Korda Samfónía er hljómsveit sem er samsett af hljóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nem- endum Listaháskóla Íslands og skjól- stæðingum Starfsendurhæfinga- stöðva Vesturlands, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Hljómsveitin var stofnsett í febrúar 2021 og koma hljómsveitarmeðlimir úr hinum ýmsu áttum og eru með fjölbreyttar sögur að baki. Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, sam- félagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistar- kona úr Keflavík, stýrir í London. Sævar hefur síðustu tvö ár tekið þátt í verkefninu og segir hann að verkefnið stuðli að því að við getum öll lært hvort af öðru. „Þetta gengur ekki bara út á að gera flotta tónlist heldur efla fólk og finna nýjar leiðir til að vinna saman,“ segir Sævar. Korda Samfónía hélt „debut“-tón- leika í Eldborgarsal Hörpu á síðasta ári og var viðburðurinn tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir viðburð ársins. Hljómsveitin er búin að vinna í skemmtilegum og framandi verkefnum á síðustu misserum en heimildarmyndin Ég sé þig er um skapandi tónlistarsmiðjur Korda Samfónía og var hún sýnd á RÚV sunnudaginn 29. maí. Þá hélt hljómsveitin einnig tónleika í Fíla- delfíukirkjunni mánudaginn 30. maí við góðar undirtektir. Ætlaði ekki að verða tónskáld Sævar kemur úr mikilli tónlistarfjöl- skyldu og segir tónlistina hafa verið óumflýjanlega. Hann ætlaði þó aldrei að verða tónskáld en segir viðveru sýna í lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hafa aukið áhuga hans á tónlist til muna. „Ég ætlaði að verða leikari eða eitthvað allt annað, svo byrjaði ég að læra á saxófón þegar ég var um það bil tólf ára og Tónlistarskólinn í Reykjanesbæ var bara algjör griðastaður fyrir mig. Þetta var mjög eflandi umhverfi og ég held að áhuginn hafi aukist þar,“ segir Sævar og bætir við: „Ég var oft út af fyrir mig en ég fann mig í tón- listinni og spilaði píanó allan daginn. Það gaf mér svo mikið.“ Aðspurður hvaða skilaboð hann hefur til ungs tónlistarfólks segir hann: „Þetta er langhlaup, ekki gefast upp. Hæfileikar eitt og sér eru ekki nóg, þeir sem eru duglegir að koma sér á framfæri eru líklegri til að ná langt. Þeir fiska sem róa.“ Thelma Hrund Hermannsdóttir thelma.h.hermannsdottir@gmail.com Þetta er langhlaup, ekki gefast upp. Hæfileikar eitt og sér eru ekki nóg, þeir sem eru duglegir að koma sér á framfæri eru líklegri til að ná langt ... Frá útgáfutónleikunum. Mynd: Rakel Ýr Stefánsdóttir Whenever You’re Ready - Sævar Helgi Jóhannsson Skugga Sveinn. Mynd: Auðunn Níelsson Sævar Helgi Jóhannsson. Mynd: Gunnlöð Jóna VíKurFrÉttir á SuÐurnESjum // 21

x

Víkurfréttir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.