Feykir


Feykir - 09.02.2022, Blaðsíða 7

Feykir - 09.02.2022, Blaðsíða 7
Kapteinn Antti, Gunnar og Santtu, svili Gunnars, á seglskútu. „Förum á sumrin að sigla og þvílík fegurð úti á hafi," segir Gunnar. Nú er Finnland stundum kallað þúsund vatna landið. Hefurðu komist í kynni við einhver þessara vatna? „Finnar eru með mikla tengingu við vötnin sín og ekki óalgengt að eiga bústað eða hafa aðgengi að einhverjum bústað við eitthvert vatn. Tengdaforeldrarnir eiga bústað nálægt Posio í Lapplandi við vatn sem heitir Kitkajärvi sem er sautjánda stærsta vatn Finnlands og er yndislegt að fara þangað, fara í sauna, synda í vatninu og njóta náttúrunnar. Svo er maður að heimsækja bústaði vinanna og þar kemst maður í kynni við önnur vötn eða ár.“ Nú þykir okkur Íslendingum finnskan vera frekar furðulegt tungumál og er kannski ekki úr háum söðli að detta. Ertu orðinn flinkur í finnskunni? „Ég get bjargað mér á finnsku en þetta er ekki auðvelt tungumál, þó heillandi. Ég vinn við enskumælandi skóla og hefur það tafið tungumálanám mitt, en ég reyni alltaf að bæta við mig. Finnskan er með 15 beygingarföll á meðan íslenskan okkar er eingöngu með fjögur eins og við vitum. En ég læt bara vaða, ekki mikið að spá í beygingar ef ég get gert mig skiljanlegan. Ég þarf að sækja námskeið á finnsku vegna vinnu og lesa mikinn texta. Þetta kemur hægt og sígandi.“ Var þér kennt eitthvað fáránlegt til að byrja með eða er það orðinn vonlaus leikur með tilkomu Google? „Það er margt skondið við finnskuna. Ég þakka fyrir að heita ekki Gulli Palli í Finnlandi þar sem framburður á þeim nöfnum þýðir einfaldlega typpa- pungur. Einnig þegar Finnar segja „oj“ þá meina þeir að eitthvað sé flott. Ég get sinnt flestum mínum erindum á finnsku þó það vanti stundum upp á orðaforðann. Tengda- foreldrarnir tala eingöngu finnsku við mig svo ég hef ekkert val, sem er jákvætt. Einn daginn verð ég talandi finnsku með miklu öryggi en það er svolítið í það.“ Hvað er best við að búa í Finnlandi og hvað hefur komið þér mest á óvart? „Það er ótrúlega fallegt í Finnlandi. Árstíðirnar skiptast svo greinilega og hver með sinn sjarma. Á veturna getur frostið farið undir -30°C og hægt er að ganga út á sjó. Það er meira að segja útbúinn vegur út í eyju sem er nálægt Oulu og hægt að keyra á bílum þangað á ísilögðum vegi. Vorið getur komið snemma og er almennt milt veður hér í Finnlandi. Hitastigið getur verið vel yfir +10 gráður og fær maður því gott vor. Við höfum verið í vandræðum með skauta- og gönguskíðakennslu sökum hlýnandi veðurfars í janúar- febrúar sl. 2-3 ár. Sumrin geta verið hlý og hitinn farið yfir 30 gráður og er það of mikið fyrir minn smekk. Aðstæður hér eru til fyrirmyndar fyrir fjölskyldur í formi leikvalla og útivistar- svæða. Það eru ár sem renna í gegnum borgina og margir sem dýfa sér til sunds til að kæla sig og eru með handklæði á bögglaberanum til að þerra sig og halda svo áfram leið sinni. Á haustin kemur svo litadýrð náttúrunnar í ljós. Í landi þar sem skógar eru hvert sem litið er þá breytast lauf- blöðin í ótrúlega fallega litaflóru svo að maður getur lítið annað en verið uppnuminn af þessari fegurð. Finnar kalla þetta fyrirbæri „Ruska“ og minnast á það við hvert tækifæri sem gefst. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hvað þessar blessuðu moskítóflugur eru hrifnar af mér. Þessar flugur er það eina sem ég gjörsamlega þoli ekki við Finnland. Sem betur fer er lítið um þær í borginni en um leið og maður leggur leið sína í skóginn þá þefa þær mann uppi.“ Hvað gerir þú helst í frístundum og hvað gera Finnar helst í sínum frístundum „Íslendingar tala um veðrið en Finnar tala um ber. Þeir eru berjaóðir og keppast um að tína sem mest fyrir veturinn. Allir með sín svæði og stranglega bannað að gefa upp staðsetningu þess. Verðmætustu berin kallast „hilla“ eða cloudberries á ensku. Því miður þekki ég ekki íslenskuheitið á þessari berjategund en þau er að finna í mýrlendi og kostar t.d. ein askja rúmar 3.000 íslenskar krónur úti í búð. Ég persónu- lega fer nú bara og tíni bláber í næsta nágrenni og læt mér það nægja meðan tengda- foreldrarnir iða í skinninu að keyra mörg hundruð kílómetra til að byrja að hefja berjatínslu á leynistaðnum sínum.“ Gunnar segir að Finnar fari mikið á skauta og gönguskíði. Flestir eiga sinn eigin búnað. „Til að mynda hefur eldri drengurinn minn þurft að mæta með sinn útbúnað í leikskólann og allir krakkarnir fara á skauta og út að skíða á braut sem er búin til fyrir þau,“ segir Gunnar og bætir við að flestir Finnar séu tengdir náttúrunni og finnist ótrúlega mikilvægt að geta kúplað sig út frá hinu daglega lífi og rækta sálina úti í skógi. „Sauna menningin er heimsfræg og flestir eru með saunu heima hjá sér. Þetta er í flestum húsum og í sameign er oftast sauna í kjallaranum. Við í vinnunni erum með saunu í kjallaranum og er hún stundum hituð upp fyrir starfsmenn. Það er illa liðið, sérstaklega á almennings- stöðum eins og t.d. sund- laugum, að vera í sundfatnaði í sauna. Það eru stór skilti sem sýna að hér skuli taka allan fatnað af – enda nekt ekki tiltökumál hér í landi. Sjálfum finnst mér gaman að fara í körfubolta með félögunum. Er búinn að eignast góða vini hérna í Oulu og flestir spila körfubolta. Æfingar tvisvar í viku og leikir af og til. Ég mæti þegar ég get og þessar heimsfaraldurshömlur eru þó ekki að hjálpa til. Einnig er toppurinn að komast í siglingar á sumrin hjá félögunum sem stunda það stíft. Hér eru margar almennings grill- aðstöður og mér finnst mjög gaman að mæta með viðarkubbanna og exina og kveikja bál og grilla. Svona þyrfti að vera til á Íslandi. Á sumrin þegar það er heitt, þá er stranglega bannað að kveikja elda og Finnar eru duglegir að fylgja því.“ Fjölskyldan í gönguferð í Lapplandi með foreldrum Elisu, Riitta Saukko og Esko Saukko. Gunnar og vinir hans nýbúnir að klára körfubolta streetball mót og ákváðu að skella sér í sjósund eftir góðan dag en fyrst þarf að ræða málin aðeins. Kvöldsólin í Oulu. 06/2022 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.