Feykir


Feykir - 09.02.2022, Qupperneq 8

Feykir - 09.02.2022, Qupperneq 8
Hverju hefur COVID-19 helst breytt fyrir ykkur og hvernig er ástandið í ykkar nýja landi? „Eins og fyrir flesta er maður svolítið fastur hérna. Hef ekki farið til Íslands síðan sumarið 2020 þegar mamma dó. Stefnan er að koma núna næsta sumar. Þá verða liðin tvö ár frá síðustu heimsókn. Yngri sonurinn þá orðinn 18 mánaða. Fókusinn hefur verið á eigin fjölskyldu. Við hjónin keyptum íbúð sl. sumar og við fórnuðum svolítið tækifærinu á að fara til Íslands til að geta innréttað hana fyrir flutning og einnig erfitt með ungabarn.“ Hvers saknar þú mest að heiman? „Fjölskyldunnar og vinafólksins. Lambakjöts! Hér er ekkert almennilegt lamba- kjöt að hafa. Fyrsta mánuðinn minn sem ég bjó hér þá fór ég út í kjötbúð að versla lambalæri og var þetta á þriðjudegi. Ég var beðinn um að koma á fimmtudegi því þá selja þeir ferskt lambakjöt. Lærið var svo sem ágætt en ekki samt eins gott og það íslenska en það var fokdýrt og brá mér svolítið yfir verðlaginu miðað við Ísland. Finnar borða helst lambakjöt um páskana“ segir hann og bætir við að hann sakni sundlauganna heima og þess að geta farið í heitan pott. „Ekki mikið um það hér, þó getur þú leigt heitan pott á kerru og hitað með viðarkubbum! Það er alveg ferlegt að komast ekki í sauðburð lengur né réttir og göngur. Það er kannski helsta breytingin.“ Hvað er ólíkt með Finnum og Íslendingum – eða erum við óskaplega líkir frændum okkar? „Ég myndi byrja á að segja að við deilum svipuðum húmor þrátt fyrir að vera svolítið ólík. Það er margt sem við getum lært af hvort öðru. Finnar og Íslendingar eru mjög ólíkir á margan hátt. Finnar eru með eindæmum hógværir og eru ekkert að stæra sig af afrekum sínum og þarf maður stundum að toga upp úr þeim að segja frá hæfileikunum sínum. Sem dæmi hitti ég tvo vini mína eitt sumarið og með þeim í för var gamall vinur þeirra. Við spjölluðum saman heillengi og það kom upp á yfirborðið að hann spilaði íshokkí og hafði gert það lengi. Ég spurði hvar hann hefði spilað og hann svaraði: „Svona hér og þar,“ og lét þar við sitja. Daginn eftir komst ég að því að hann væri margfaldur finnskur meistari með heimaliðinu hér í Oulu og heimsmeistari árið 2011 og silfurverðlaun árið 2016 og minntist ekki á það einu orði. Þetta helst svolítið í hendur við að Íslendingar spyrja alltaf hverra manna ertu, hvaðan ertu og við hvað starfar þú. Hér hef ég aldrei verið spurður við hvað ég starfa og finnst mér það svolítið huggulegt að svo sé. Það er meiri áhugi á hvað ég hef að segja og hvað mér finnst gaman að gera og sjálfkrafa meiri jafningjamenning. Þú ert ekki mældur út eftir starfi, fjölskyldu eða menntun, heldur eftir persónueinkennum og áhugasviði. Finnar mættu samt trúa meira á sjálfa sig og taka svolítið „þetta reddast“ á marga hluti. Mættu segja meira upphátt hvað þeir vilja. Maður þarf svolítið að lesa í þá þar sem þeir eru oft ekkert að segja beint hvað þeir vilja og margir forðast samskiptaárekstra. Þeir bíða alltaf eftir að maður hafi lokið máli sínu og tala ekki yfir hvorn annan eins og mörgum Íslendingum er tamt að gera. Finnar eru samt ótrúlega traust fólk og leggja mikið stolt í orðspor sitt. Ef maður eignast finnska vini og traustið er til staðar þá opnast allar gáttir og maður raunverulega kynnist manneskjunni og ég tala nú ekki um þegar það er farið á hinn heilagasta stað hinnar finnsku þjóðar – Saununa – þar sem sannleikurinn birtist meðal jafningja. Þú átt vin fyrir lífstíð ef þú kemur vel fram við Finna.“ Finnar taka hlutverk sitt sem guðforeldrar mjög alvarlega og því er sinnt af alúð alla ævi, af flestum sem ég þekki. Hér í Finnlandi (og víðar) er nafnadagur stór viðburður í lífi fólks. Hver á sinn nafnadag á árinu og því er fagnað með köku og gjöfum, þá oft frá guðforeldrum og einnig fjölskyldumeðlimum. Minn nafnadagur er 8. janúar og þarf ég að sækja hann í sænska nafnadagatalið. Valentínusar- dagurinn þann 14. febrúar er ekki dagur elskenda í Finnlandi, heldur er hann kallaður vina- dagurinn og eins og heitið gefur til kynna þá snýst hann um að gleðja nánustu vini og vinnufélaga.“ Gunnar segir að á sumrin sé Jónsmessa stærsta ferðahelgin í Finnlandi en þá fara allir í sumarbústað eða á hátíðir. Hann segir að það sé afskaplega sorglegt hve margir drukkna þessa helgi sökum drykkju og lítið breytist þó allir séu meðvitaðir um þessa staðreynd. Þá er það finnski jólasveinninn sem gefur allar jólagjafirnar og því er eingöngu ritað eitt nafn á hverja gjöf og ekki ritað frá hverjum gjöfin er, því jú, það er auðvitað Sveinki sem gefur gjafirnar. „Jólasveinninn mætir sjálfur í hús og krakkarnir syngja fyrir hann. Hann er oftast feiminn og hlédrægur en góður við börnin.“ Finnar drekka kaffi mjög oft og talið ókurteisi að bjóða ekki upp á kaffi þó þú kannski þiggir ekki alltaf bolla. Kaffið er ekki sterkt í Finnlandi og er til dæmis vinsælasta tegundin með styrkleikann 1 af 10. Það er ekki langt síðan Finnar voru í stríði og það er kannski skiljanlegt hvernig manngerðin hefur mótast frá einni kynslóð til hinnar næstu. Komandi frá landi sem er ekki með her þá er erfitt að skilja þetta fullkomlega. Allir 18 ára drengir fara í herþjónustu í 6-12 mánuði og komi það til að nágrannar okkar í austri fari að koma í heimsókn til okkar og Finnar þurfi að verja landa- mærin þá myndu flestir sem ég þekki þurfa að tilkynna sig inn á sína herstöð og fá útbúnað til bardaga. Þetta hljómar eins og bíómynd í mínum huga, komandi frá Íslandi, en er raunverulegur möguleiki fyrir þessa þjóð þrátt fyrir áratuga friðsæld. Svo fyrir Covid-19 þá fórum við á fótboltaleik nokkrir karlmenn úr vinnunni. Þar sem ég er nú vanur að kveðja fólk með faðmlagi og jafnvel kyssa viðkomandi á kinn, þá ákvað ég ekkert að breyta því í nýju landi. Eftir leikinn kveð ég alla með fyrrgreindum lýsingum og þá segir einn og brosir eftir faðmlagið: „Gunnar, ég held að ég sé búinn að vera snertur meira af þér í þessari viku en af konunni minni!“ Svo hlógu hinir bara og tóku undir grínið. Hér er nefnilega ekki mikið vera að vaða inn á persónulegt svæði fólks en ýmislegt sem er talið mjög eðlilegt á Íslandi þykir kannski ekki viðeigandi hér. En ekki misskilja mig, fólk faðmast hér líka en bara ekki í sama mæli.“ Við Íslendingar höfum kannski þá mynd af Finnum að annar hver maður stundi skíðastökk. Er talað um eitthvað annað en skíðastökk í Finnlandi og hefurðu farið og fylgst með móti? „Nei, ekki farið að sjá skíðastökk – nema bara í sjónvarpinu. Íshokkí er langstærsta íþróttin hér ásamt hinum vetraríþróttunum. Ég hef farið og horft á finnskan hafnabolta sem er mikið líflegri en sá ameríski en við kennum hann einmitt hér í íþróttakennslu. En hér er mikil gönguskíðamenning.“ Gætir þú deilt einhverri eftirminnilegri sögu frá dvöl þinni erlendis? „Ég var nýbyrjaður að kenna við skólann sem ég starfa við og Raija Perttunen, yfirmaðurinn minn og skólastjóri við skólann, fer á ráðstefnu í Svíþjóð 2019. Hún sest við borð á ráðstefnunni og þar sitja Íslendingar. Hún segir að hún hafi einmitt verið að ráða samlanda þeirra í íþróttakennslu við skólann. Nú jæja, segja þau. Hvað heitir hann? Hún kynnti mig til sögunnar og þá segir maðurinn að hann sé gamli skólastjórinn hans Gunnars og þekki mig vel og þetta tók sessunauturinn undir og sagðist þekkja mig einnig. Þetta uppskar mikla kátínu og kom í ljós að umrætt fólk var Óskar Björnson skólastjóri og Selma Barðdal. Ég fékk senda mynd af þeim í einka-skilaboðum með kærri kveðju. Eitthvað fékk ég af lofsyrðum í þessari ferð og þakka ég Óskari og Selmu fyrir hlý orð í minn garð því ekki skemmdi það fyrir reynslu- tímanum mínum hjá skólanum. Skagfirðingar hugsa um sína.“ Óskar Otto að grilla pylsu á grillstæði.Gunnar í gönguferð í skóglendi rétt hjá Muhos, rétt fyrir utan Oulu. 8 06/2022

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.