Árbók Reykjavíkurborgar - 01.10.1977, Blaðsíða 9
V
F 0 R M A L I
Um þessar mundir eru liðin fimm ár síðan ákvörðun var tekin um árlega
útgáfu Árbókar Reykjavíkurborgar. Bókin kom fyrst út 1973 og var strax
vel tekið, þrátt fyrir marga augljósa annmarka, sem reynt hefur verið
að ráða bót á með árunum. Val á efni í bókina og framsetning þess hefur
einkum verið látið ráðast af þeirri skoðun, að hagnýtt gildi Árbókarinnar
sé fyrst og fremst komið undir ferskum upplýsingum um þá málaflokka, sem
fjallað er um. Hinu er ekki að leyna, að efnið yrði bæði fjölbreyttara
og samfelldara, ef slakað yrði á kröfunum um ferskleika upplýsinganna,
en þess í stað lögð meiri áherzla á skýringar og fyllri lýsingu á þeirri
þróun, sem greind verður af frumgögnum.
Hagfræðideild Reykjavíkurborgar er fámenn stofnun. Þar vinna að jafnaði
fimm manns. Árbókargerðin er aðeins eitt margra verkefna, sem deildinni
eru falin, og reynist því tíminn til útgáfunnar oft knappari en æskilegt
væri. Engu að síður þykir ekki áhorfsmál að standa við árlega útgáfu
fremur en að hætta á stopula birtingu samfelldara efnis.
Þær breytingar hafa orðið á starfsliði Hagfræðideildarinnar, að Sigurður
Sigmundsson, fulltrúi og Stefán Reynir Kristinsson, viðskiptafræðingur
létu af störfum um síðustu áramót, Sigurður fyrir aldurs sakir en Stefán
tók við nýju trúnaðarstarfi. 1 staðinn réðust til deildarinnar Ingimar
Valdimarsson, viðskiptafræðingur og Leifur Eysteinsson, viðskiptafræðinemi.
Ástæða er til þess að þakka þeim Sigurði og Stefáni Reyni skerf þeirra
til Arbókarinnar á liðnum árum. Á engan er hallað þótt þáttar Sigurðar
sé hér sérstaklega getið, en hann á öðrum fremur heiðurinn af því, að
þessi útgáfa var endurvakin, og lagði manna mest efni til bókarinnar
meðan starfskrafta hans naut við.