Árbók Reykjavíkurborgar - 01.10.1977, Blaðsíða 200
190
Til þess að ná settu markmiði, álítur Skipulagsnefnd að hefja verði
uppbyggingu í miðbænum, þar sem þó er á það lögð megináherzla, að
viðhalda umhverfisáhrifum og svipmóti gamla bæjarins. Telur Skipulags-
nefnd að borgaryfirvöld ættu að stuðla að því að uppbygging fari fram
undir ströngu aðhaldi á takmörkuðum svæðum út næsta skipulagstímabi1
og leggur því til, að miðborginni verði skipt niður í 3 megin svæði.
Á þeim hluta miðborgarinnar, sem fellur utan þessara svæða er gert
ráð fyrir að uppbygging fari fram á venjulegan hátt þ.e. samkvæmt
reglum um landnotkun, nýtingu og hámarkshæðir bygginga.
1. Framkvæmdasvæði:
Hér er um að ræða svæði, þar sem lagt er til að verulegar framkvæmdir
og uppbygging eigi sér stað á skipulagstímabilinu. Á þessum svæðum er
rétt að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að sameiningu lóða, deiliskipulagi
og framkvæmdaáætlunum í samráði við eigendur viðkomandi fasteigna. Hér
er lögð áherzla á það, að byggð verði blönduð og að inn á svæðin komi
verulegt magn íbúðarhúsnæðis.
2. Endurnýjunarsvæði:
Þetta eru svæði, þar sem meginhluti bygginga hefur áþekkt svipmót og
notkun og þar sem talið er æskilegt að verulegar endurbætur á núverandi
mannvirkjum og umhverfi eigi sér stað á skipulagstímabilinu. Á þessum
svæðum er nauðsynlegt að borgaryfirvöld stuðli sérstaklega að uppbyggingu
með aðgerðum til bætts umhverfis svo sem endurbótum á gangstígum og
lýsingu. Þar sem ekki er talið raunhæft að endurnýja byggingar á þessum
svæðum og/eða fyrirhugað er að reisa nýjar byggingar er lagt til, að
nýbyggingar taki sérstakt mið af því umhverfi, sem fyrir er, hvað
viðvíkur notkun, stærðarhlutföllum, útliti og efnisvali.
3. Verndunarsvæði:
Þessi svæði eru talin hafa byggingarlistrænt, sögulegt eða almennt
gildi, og æskilegt sé að veita þeim sérstaka vernd. Á þessum svæðum
er lagt til að gert sé að skyldu að viðhalda mannvirkjum í sem
upprunalegastri mynd, en umhverfi bygginga endurbætt og mótað með
tilliti til þessara mannvirkja. Breytingar á landnotkun og mannvirkjum
séu takmarkaðar þannig, að þær samræmist verndunarsjónarmiðum á viðkomandi
svæði, enda séu slíkar breytingar jafnframt háðar samþykki borgaryfirvalda.