Árbók Reykjavíkurborgar - 01.10.1977, Blaðsíða 194
184
1. FRAMTlÐARBYGGÐ
Svæði þau, sem lögð voru til byggðaþróunar samkvæmt aðalskipulagi fram
yfir 1983 eru nú senn að verða fullbyggð. Ætla má, að lokið verði við
úthlutun byggingarlóða á þessum svæðum fyrir 1980. Þróun byggðar umfram
áætlun er ekki afleiðing fólksfjölgunar, heldur á hún sér aðrar samverkandi
orsakir, sem erfitt er að skilgreina í einstökum atriðum þó rétt sé að
nefna þrjár megin orsakirnar:
1. Ungt fólk fer fyrr en áður úr foreldrahúsum.
2. Verðbólgan hvetur til fjárfestingar í húsnæði.
3. Húsnæðislánastefna stjórnvalda örvar bygginga-
framkvæmdir.
Rétt er að minna á kaflann um tilhögun framtíðarbyggðar í bók aðalskipulagsins,
en þar er þess getið að "dreifing byggðarinnar leiði til þess, að sólar
nýtur betur í íbúðum, frjálslegra er umhverfis húsin, meira útsvni, betri
aðstaða barna til útileikja o.s.frv. En dreifing byggðar er þó ekki
hagkvæm að öllu leyti, vegalengdir, t.d. í skóla, búðir og á vinnustað
verða að jafnaði meiri. Þá verða gatnagerð, holræsi og ýmis konar lagnir
dýrari, og meiri kostnaður verður við rekstur ýmissa þjónustustofnana,
ef byggðin er dreifð".
1 viljayfirlýsingu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði, sem samþykkt var á
fundi savinnunefndar sveitarfélaganna um skipulagsmál þann 6. marz 1965,
er þess getið, að byggð skuli þróast til suðurs á svæðinu sbr. kort á
bls. 204 í bók aðalskipulagsins. Þessi áætlun hefur að verulegu leyti
raskast, sumpart vegna þess að sum sveitarfélaganna voru ekki viðbúin
því að mæta mikilli byggðaþróun og sumpart vegna þess, að með endurlagningu
Vesturlandsvegar breyttist mjög afstaða manna til byggðamöguleikanna í
Mosfellssveit, enda hefur farið svo, að þar hefur byggð vaxið ört síðustu
árin. Raunar er einnig stefnt að því, að byggðakjarni rísi á Kjalarnesi
á næstu árum.