Ský - 01.10.2004, Qupperneq 6
Gefið út annan hvern mánuð fyrir farþega Flugfélags íslands og aðra íslendinga
ANNA KRISTINE HEFUR ORÐIÐ ...
að gera upp við sig hvaða hlutverk hún vill leika. Henni
hefur ekki verið boðið að leika í stórmynd. Tilboðið
stendur um hlutverk iífsins. Vill hún vera fyndin, einlæg,
beitt, reið, sár eða sátt?
Hlutverkaskipti voru meðal fyrirlestra sem Edda
Björgvinsdóttir leikkona flutti á námskeiðinu „Ný
og betri kona" í Albir á Spáni. Þangað héldu níutíu
konur, hver í sínu hlutverki. Nokkrum sinnum áður hef
ég farið sem blaðamaður með hópum kvenna, fylgst
með þeim að störfum og skrifað greinar um ferðirnar.
Þessi ferð var allt öðruvísi því á námskeiðinu var unnið
með tilfinningar og þar greindu margar kvennanna frá
sínum dýpstu leyndarmálum. Þau verða áfram leyndarmál. Hlutverki blaðamannsins lauk á því
sekúndubroti sem konurnar opnuðu hjarta sitt.
Við erum sífellt að skipta um hlutverk. Metsölubókin 11 mínútur eftir Paulo Coelho er
byggð á sannri sögu vændiskonu, sem kemst gegnum starf sitt með því að bregða sér í alls
konar hlutverk: „Förum með gát, núna bregð ég mér í hlutverk vændiskonu, vinkonu eða
skilningsríku móðurinnar, þótt innra með mér sé ég dóttirin sem þarf ástúð ..."
Sjálf leik ég mörg hlutverk á dag. Ég byrja mína daga á að vera í hlutverki læknaritara,
konunnar sem veit að „hvað tungan meiðir er torvelt að lækna". Ég get ekki - má ekki - og
vil ekki - segja neinum frá því sem ég upplifi í því hlutverki. Hinn hluta vinnudagsins skrifa ég
nær eingöngu það sem fer fyrir sjónir almennings. Þá er ég í hlutverki blaðamannsins, þess
sem hlustar, spyr og skráir. Blaðamaðurinn og læknaritarinn eru afar ólíkar konur.
Milli þessara tveggja hlutverka leik ég hlutverk dótturinnar, móðurinnar, vinkonunnar,
systurinnar, frænkunnar, nágrannans, fyrirlesarans ... Það getur verið lýjandi að skipta sér milli
hlutverka; leika kannski átta mismunandi hlutverk á sólarhring. Þess konar lífi lifum við flest.
Á námskeiðinu kenndi Edda Björgvins okkur meðal annars það að við getum sótt hlutverkin
sem við viljum vera í. í stað þess að vera pirraða, þreytta mamman get ég einfaldlega brugðið
mér í hlutverk glaða fyrirlesarans sem nýtur þess að segja frá föðurlandi sínu. Fýlupúkinn getur
vikið fyrir húmorísku konunni — það er mitt að velja. Hugsið ykkur hvað það verður gaman
að lifa þegar við höfum vanið okkur á að skilja leiðinlegu hlutverkin eftir heima. Þegar við
sækjum markvisst þá manneskju sem okkur sjálfum líkar best við því það er næstum öruggt
að það er manneskjan sem öðrum líkar við.
Hlutverkið sem þó hentar hverri manneskju best er að geta verið hún sjálf. Það eru stundirnar
þegar við sitjum með þeim sem við treystum fullkomlega, getum sagt sannleikann, getum
sagt frá leyndarmálum okkar, tekið út úr lífsreynslubankanum og deilt með öðrum án þess að
hugsa: „Hvað ætli hann/hún haldi um mig?" Ég hef verið svo lánsöm síðasta ár að hitta slíkt
fólk. Það er fátt sem er meiri hreinsun fyrir sálina en að geta sagt það sem manni býr í brjósti
við þann sem ekki fellir dóma. Þann sem veit að „hvað tungan meiðir, er torvelt að lækna."
cAmia %rÍ6tin&
Ritstjórn og auglýsingar: Borgartúni 23, 105 Reykjavík, s. 512 7575.
Dreifing: Heimur hf. s. 512 7575 netfang ritstjóra: annakm@heimur.is
Útgefandi:
Heimur hf.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður:
Anna Kristine Magnúsdóttir
Útlitshönnun:
Helga Guðný Ásgeirsdóttir
Ljósmyndir:
Áslaug Svava Jónsdóttir
Geir Ólafsson
Pavel Horejsi
Páll Stefánsson
Skjár 1
& úr einkasöfnum
Pennar:
Auður Haralds
Erna Margrét
Kristján Jónsson
Lízella
Margrét J. Pálmadóttir
Róbert Traustason
Sif Arnarsdóttir
Vilmundur Hansen
Þórunn Stefánsdóttir
Auglýsingastjóri:
Vilhjálmur Kjartansson
Framleiðslustjórn:
Helga Guðný Ásgeirsdóttir
Prentun: Oddi hf.