Skinfaxi - 01.04.2018, Qupperneq 27
SKINFAXI 27
Selfoss:
Byggt yfir íþrótta-
svæðið á 10 árum
Fljótlega eftir sveitarstjórnarkosningar í sumar hóf nýr bæjar-
stjórnarmeirihluti í Árborg að vinna með hugmyndir að upp-
byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæði Ungmennafélags
Selfoss. Samkvæmt skipulagstillögu er gert ráð fyrir að hægt
verði að byggja upp íþróttamiðstöð í nokkrum áföngum á tíu ár-
um. Gangi allt eftir verður fullbyggð íþróttamiðstöð um 22.000
fermetrar og nemur heildarkostnaður miðað við núverandi áætl-
un rúmum fimm milljörðum króna.
Markmiðið með uppbyggingunni er að koma sem mestu af
starfsemi Umf. Selfoss fyrir á einum stað og að sem fyrst verði
farið í byggingu á fjölnota íþróttahúsi sem myndi nýtast knatt-
spyrnu- og frjálsíþróttadeild auk annarra íþróttagreina sem mætti
koma fyrir í húsinu. Einnig verði byggt heilsárshús fyrir frjálsar
íþróttir, knattspyrnu, fimleika, lyftingaaðstöðu og fleiri greinar
auk upphitaðs gervigrasvallar með flóðlýsingu.
„Sveitarfélagið er í miklum vexti og íþróttalífið líka. Við gerum
ráð fyrir því að pláss verði fyrir flestar íþróttagreinar á svæðinu
á Selfossi allt árið um kring, fyrir iðkendur og almenning og að
það fullnægi þörfinni í einhverja áratugi. Ég lít svo á að með
þessu sé sveitarfélagið að styrkja heilsueflingu og ekki aðeins að
bæta aðstöðu fyrir iðkendur heldur líka fyrir almenning á öllum
aldri,“ segir Helgi S. Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar
Umf. Selfoss og forseti bæjarstjórnar Árborgar. Hann telur gott
hljóð í íbúum sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðra framkvæmda,
ekki síst þar sem búið sé að marka stefnuna til næstu ára.
Í fyrsta áfanga framkvæmdanna er gert ráð fyrir helmingi af
fjölnota íþróttahúsi með tartan-braut sem nær allan hringinn.
Helgi segir að um þessar mundir sé verið að ljúka við hönnun
hússins og megi vænta að verkið verði boðið út fljótlega eftir
áramótin. Hinn helmingur hússins verður jafnframt síðasti áfangi
verkefnisins. Gert er ráð fyrir að hann verði að veruleika í kring-
um 2028–30 og verður með honum þá búið að byggja yfir og
tengja saman allt íþróttasvæðið á Selfossi.
Grafarvogur:
Fjölnishöllin risin
Nýtt alhliða íþróttahús Fjölnis í Egilshöll var tekið í notkun í Graf-
arvogi í nóvember sl. í tilefni af 30 ára afmæli félagsins. Fast-
eignafélagið Reginn byggði íþróttahúsið og mun sjá um rekstur
þess. Húsið hefur verið rúmt ár í byggingu en skóflustunga að því var
tekin í apríl árið 2017.
Nýja íþróttahúsið er 2.500 fermetrar og er horft til þess að með því
fjölgi valkostum í íþróttaiðkunum á vegum Fjölnis í Egilshöll. Í húsinu er
rými fyrir tvo handbolta- og körfuboltavelli auk þess sem Borgarholts-
skóli fær aðstöðu fyrir afreksíþróttabraut, ásamt öðru íþróttastarfi. Egils-
höll sjálf er stærsta afþreyingar- og íþróttamiðstöð á Íslandi en hún er
um 31 þúsund fermetrar. Þar eru knattspyrnusalur, skólaíþróttasalur,
skautahöll, skotæfingasvæði, kvikmyndahús og keiluhöll auk fimleika-
húss og nú er þar alhliða íþróttahús. Á síðasta ári kom 1,4 milljón manna
í húsið og jafngildir það rúmlega 3.800 manns á hverjum degi.
Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, sagði í ávarpi við vígslu íþrótta-
hússins að iðkendum hefði fjölgað svo mikið að stofnendur félagsins
hefðu ekki getað ímyndað sér það. Fjölnir sé nú orðið eitt af fjölmenn-
ustu íþróttafélögum landsins. Jón Karl sagði undirbúning að byggingu
íþróttahússins hafa tekið mörg ár en nú sé komin aðstaða sem sé til
fyrirmyndar. Húsið heitir Fjölnishöllin.
Jón Karl Ólafsson (t.h.) var kampakátur þegar hann vígði Fjölnishöllina
í Grafarvogi í nóvember sl. Hér er hann með Guðmundi L. Gunnars-
syni, framkvæmdastjóra Fjölnis.
Sveitarfélagið Árborg er í miklum vexti og þarf því að stórbæta íþróttaastöðuna á Selfossi.