Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - dec. 2022, Side 14

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - dec. 2022, Side 14
14 Meðferð Helstu meðferðir við lungnakrabbameini eru eftirfarandi: skurðaðgerðir, geislameðferð og lyfjameðferð. Hér er einungis stiklað á stóru en hægt er að fá frekari upplýsingar í fræðigreinum og vefsíðum sjúklingasamtaka. Hvaða meðferð er beitt hverju sinni fer eftir tegund krabbameinsins, útbreiðslu þess og ástandi hvers og eins sjúklings. Miklar framfarir hafa orðið í meðferð við lungnakrabbameini á síðustu árum. Um þriðji hver sjúklingur sem greinist með lungnakrabbamein hérlendis fer í skurðaðgerð með lækningu að markmiði en það þykir hátt hlutfall á heimsvísu. Skurðaðgerðir hafa breyst mikið og eru nú holsjáraðgerðir algengari en áður en þá eru minni skurðir gerðir á brjóstkassa og aðgerðin gerð í gegnum holsjártæki. Stundum er þó nauðsynlegt að framkvæma hefðbundna skurðaðgerð. Á mynd 6 má sjá algengustu skurðaðgerðir sem gerðar eru við lungnakrabbameini. Geislameðferð er beitt bæði í læknandi og líknandi tilgangi við lungnakrabbameini, stundum er hún gefin ein og sér en stundum samhliða krabbameinslyfjameðferð. Við geislameðferð er hár geislaskammtur gefinn á æxlið í lunganu og stundum á meinvörp í eitlum í nálægð við æxlið en á sama tíma reynt að takmarka geislaskammt á nálæg líffæri, eins og mænu, vélinda, hjarta og aðra hluta lungans og takmarka þannig aukaverkanir eins og hægt er. Einnig er geislameðferð stundum gefin á meinvörp og þá oft til þess að minnka verki. Lyfjameðferð við lungnakrabbameini hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum. Lyfjameðferð skiptist í þrennt: lyfjameðferð sem viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð, lyfjameðferð með geislameðferð eða lyfjameðferð einvörðungu. Hvaða meðferð er beitt hverju sinni fer eftir tegund krabbameinsins, útbreiðslu en einnig eftir því hvort sértæk lyfjaskotmörk séu til staðar á æxlisfrumunum. Ósértæk krabbameinslyf eru lyf sem eru gefin með það að markmiði að hefta skiptingu krabbameinsfrumna. Þau eru yfirleitt gefin í æð með nokkurra vikna millibili og hafa þekktar fyrirsjáanlegar aukaverkanir eins og hárlos, slappleika, niðurgang og áhrif á hvít blóðkorn og blóðflögur. Jafnframt eru komin nýrri ósértæk krabbameinslyf sem eru ónæmisörvandi og hjálpa ónæmiskerfinu að þekkja krabbameinsfrumur en til þess að sú meðferð hjálpi þarf ákveðið prótein að vera til staðar á yfirborði krabbameinsfrumunnar sem heitir PDL1 og er hægt að skima fyrri því í vefjasýni úr æxlinu. Sértæk krabbameinslyf eru nýrri gerð lyfja og beinast þau að stökkbreytingum, svokölluðum lyfjaskotmörkum. Á rannsóknarstofu í meinafræði eru rannsóknir gerðar á vefjasýni úr æxlinu til að skoða hvort til staðar séu helstu meinvaldandi stökkbreytingar í lungnakrabbameini og þá eru gefin sértæk lyf gegn þeim stökkbreytingum. Mikil framþróun á sér stað á þessu sviði krabbameinslækninganna og eru bundnar vonir við að þær geti bætt horfur sjúklinga með lungnakrabbamein. Að lifa með lungnakrabbameini Það að greinast með krabbamein breytir lífi hvers og eins og þeirra nánustu mikið. Það getur valdið streitu og vanlíðan og mikilvægt er að fá góðan stuðning. Mikilvægastur er stuðningur fjölskyldu og vina. Ráðgjafaþjónusta krabbameinsfélagsins vinnur mikilvægt starf til stuðnings þeim sem greinast með krabbamein en einnig fjölskyldum þeirra. Jafnframt er hægt að fá stuðning fagaðila sjúkrastofnanna og hjálparsamtaka eins og Ljóssins, Krafts og víðar. Mikilvægt er að hlúa vel að heilbrigðum lífsháttum á meðan erfiðri meðferð stendur, eins og að borða hollt, hreyfa sig reglulega og anda að sér fersku lofti. Góður svefn og slökun er einnig mikilvæg og að hætta reykingum skiptir miklu máli. Að lokum Mikill árangur hefur náðst í að minnka reykingar hérlendis og er algengi reykinga á Íslandi með því allra minnsta í heiminum. Það hefur skilað sér í lækkandi nýgengi lungnakrabbameins á Íslandi og von er á að það muni lækka enn frekar á næstu misserum. Miklar framfarir hafa átt sér stað í greiningu og meðferð lungnakrabbameins hvort sem litið er til skurðmeðferðar, geisla- eða lyfjameðferðar og hefur bætt horfur þeirra sem greinast með lungnakrabbamein. Ítarefni: Innlendar heimasíður: www.krabb.is - Heimasíða krabbameinsfélagsins, m.a. upplýsingar um Ráðgjafarþjónustu KÍ www.ljosid.is - Upplýsingar fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein www.kraftur.is - Endurhæfingarmiðstöð fyrir sjúklinga sem greinast með krabbamein www.persona.is - Upplýsingar um þunglyndi, kvíða, samskipti og fleira www.hondin.is - Upplýsingar um sjálfhjálp, virðingu, mannúð og fleira Erlendar heimasíður: www.cancer.dk - Heimasíða dönsku krabbameinssamtakanna www.lungcanceralliance.org - Lung Cancer Alliance www. Lungcancer.org - Lung Cancer Online www.longkankernederland.nl Mynd 6. Skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins: a. Blaðnám,b. Fleygskurður, c. Lungnabrottnám a). b). c).

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.