Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 18

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 18
18 Breytingar hjá fjölskyldum vegna sjúkdóma Eftir Helgu Sigfríði Ragnarsdóttur, félagsráðgjafa Þegar veikindi eða slys koma upp hjá fjölskyldum gerast þau stundum mjög skyndilega og svo harkalega að allt þaðan í frá verður eins og eftirleikur. Við veikindi lungnasjúklinga er framvindan oftast ekki þannig, heldur fara þau hægt af stað og ágerast síðan með tíma. Hvort heldur sem er, fylgja veikindum gjarna sams konar afleiðingar innan fjölskyldna og verða þær hér til umfjöllunar. Óvissa og kvíði Fyrir sjúklinginn felur greining um alvarlegan sjúkdóm í sér ógnun við eigið líf og heilsu. Hjá aðstandendum, hversu nánir sem þeir eru, er upplifunin önnur. Þeir þurfa ekki að óttast um þetta tvennt fyrir sjálfa sig en standa frammi fyrir tómarúmi og missi sem ekki er í sjónmáli að hægt sé að bæta upp. Greiningu fylgir bæði óvissa og kvíði fyrir alla í fjölskyldunni en það er eins líklegt að áfallið komi ekki fram á sama tíma, eða á sama hátt hjá hverjum og einum. Það getur aftur orsakað ákveðna gjá milli hlutaðeigandi og afleiðingarnar geta í slæmum tilvikum orðið langvinnar. Breytingar, sorg og reiði Í öllum tilvikum breytast framtíðarhorfur við greiningu. Breytingar á tekjum og afkomu eru oft sérstakur kvíðavaldur en þótt svo sé ekki, verður ljóst að tækifæri til að njóta lífsins eins og ætlað var verða líklega ekki eins góð og efni stóðu til. Þetta virðist kannski ekki stórvægilegt atriði og tekur oft tíma að síast inn en svona breytingum fylgir gjarna mjög mikil sorg og söknuður yfir því sem ekki verður. Reiði er eðlileg og sektarkennd einnig þótt auðvitað sé ekki við neinn að sakast. Við veikindi eins og lungnasjúkdóma þurfa aðrir stundum að taka á sig meiri vinnu til að afla tekna. Einnig fylgir breyting á framlagi við heimilisstörf, auk álags vegna beinnar umönnunar. Það að valda ekki lengur sínum fyrri hlutverkum er afar þungbært fyrir sjúklinginn. Sá sem þarf að taka á sig vinnuna getur einnig hæglega farið að upplifa sig sem fórnarlamb, ofurseldan aðstæðum og ráða ekki eigin lífi. Það eitt er viðurkennt sem mikill streituvaldur. Breytingum fylgja líka tækifæri Hér á undan hefur verið talið upp hve erfið verkefni koma upp við veikindi í fjölskyldum. Það má hins vegar ekki gleyma að segja frá því að breytingum á aðstæðum, þótt neikvæðar séu, fylgja tækifæri til vaxtar og þroska, til að takast á við áskoranir lífsins með ástúð og væntumþykju og gera þannig fjölskylduna heilli og sterkari en áður. Í lögum Lungnasamtakanna er yfirmarkmið að vinna að hagsmuna- og velferðarmálum sjúklinga og aðstandenda þeirra. Undir það gætu fallið mun betri tengsl og stuðningur við aðstandendur en verið hefur, enda ljóst að því betur sem aðstandendum líður í sínu hlutverki, þeim mun betur er hag sjúklinga borgið. Rætt hefur verið um stofnun stuðningshóps fyrir aðstandendur, þar sem þeir gætu reglulega spjallað og skipst á hagnýtum upplýsingum, ásamt því að styðja og hvetja hver annan. Gott væri að fá ábendingar úr hópnum um þetta, eða annað sem þætti henta. Vísnahornið Magnús Einarsson, félagi okkar í Lungnasamtökunum, hefur glatt okkur með kveðskap sínum hér í Vísnahorninu. Hann yrkir um málefni líðandi stundar á lipran og skemmtilegan hátt og hér látum við fylgja tvær vísur eftir hann sem ættu heldur betur að hvetja fólk til að mæta og taka þátt í félagsstarfinu okkar. Mættur er á merkan fund margir koma saman. Fræðsla, gleði og fróðleiksstund, feykilega gaman! Leiðin bæði létt og auð liggur á okkar slóðir. Sjóðheitt kaffi og smörrebrauð og samherjar allgóðir. Við viljum nota tækifærið og hvetja ykkur sem hafið gaman af því að setja saman vísur að senda okkur sýnishorn. Það er nokkuð víst að meðal félaga okkar í Lungnasamtökunum leynast allmargir hagyrðingar. Magnús og eiginkona hans, Sigríður Katrín.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.