Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 26

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 26
26 Lungnasjúkdómar er samheiti yfir nokkra sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að draga úr virkni og getu lungna til að flytja súrefni um líkamann. Þeir eiga það líka sameiginlegt að langur tími líður frá því að sjúk- dómurinn tekur sér bólfestu og þar til einkennin koma í ljós og þegar það gerist er ferlið orðið óafturkræft, takmarkað hægt að gera til að hægja á því og ógerlegt að snúa því við. Þetta eru alvarlegir sjúkdómar; þeir leiða fólk oftast til dauða og þeim fylgir heilmikil vangeta til að takast á við viðfangsefni lífsins og njóta þess eins og heilbrigðir eru færir um. Sjást yfirleitt ekki utan á fólki Lungnasjúkdómar hafa ekki vakið mikla athygli í samfélaginu. Til þess liggja ýmsar ástæður; þeir sem hitta lungnasjúkling fá ekki tilfinningu af bráðri ógn. Það sést gjarnan ekki utan á fólki að það sé veikt og lungnasjúklingar eru heldur ekki áberandi í samfélaginu vegna þess að sjúkdómsbyrðin er þess eðlis að það er fyrirhöfn að fara út úr húsi og þess vegna tilhneiging til að halda sig bara heima. Sjálfskaparvíti? Síðan er það svo að vegna umræðunnar um tengsl lungnasjúkdóma og reykinga er það sjónarmið talsvert útbreitt að veikindi af þessum toga séu sjálfskaparvíti þeirra sem þá hafa. Þetta er misskilningur og þau mál þarf að skýra. Reykingar þóttu flottar Fyrst er það svo að þegar margir þeir sem núna líða fyrir afleiðingar lungnasjúkdóma voru að byrja sinn reykingferil, var engin fræðsla um skaðsemi reykinga. Þær þóttu eiginlega bara flottar og tóbaksauglýsingar, beinar og óbeinar voru úti um allt. Það var mikið reykt og þeir tiltölulega fáu sem ekki reyktu máttu búa við reykinn frá hinum án nokkurrar vorkunnar. Þeim datt ekki einu sinni í hug að kvarta svo sjálfsagt þótti þetta. Ýmsir umhverfisþættir skaðlegir Þótt okkur sé orðið vel ljóst núna að reykingar séu óhollar og hafi afar slæm áhrif á öndunarfæri fólks, eru ýmsir aðrir umhverfisþættir einnig skaðlegir og oft erfiðara að verjast þeim. Mengun loftsins sem við öndum að okkur er af ýmsum toga og margt ókannað þar. Könnun á afleiðingum mengunar frá eldgosum er til dæmis á byrjunarstigi. Erfitt að forðast ýmsar orsakir Einnig er rétt að halda því til haga að hluti lungnasjúkdóma á sér orsakir sem ekki er auðvelt að forðast og eru ekki tengdar reykingum. Lungnabólgur, bæði af völdum baktería og annarra örvera skemma lungu. Bráð berkjubólga getur líka skemmt lungu og kemur iðulega upp hjá börnum. Svokölluð lungnatrefjun er sérstakur, eyðileggjandi sjúkdómur; síðan fær fólk blóðtappa í lungu oft með slæmum afleiðingum og þótt sumar gerðir lungnakrabbameins séu taldar tengjast reykingum, á það alls ekki við um þær allar. Svo hefur nýverið bæst við þáttur sem hefur hjá ýmsum haft mikil og neikvæð áhrif á lungnaheilsu en það eru áhrif COVID sýkingar til lengri eða skemmri tíma. Mismunandi viðhorf til lífsstílssjúkdóma Núna er oft talað um lífsstílssjúkdóma. Þeir eiga það sam- eiginlegt að vera mjög tengdir ýmsum hegðunarbreytum og þess vegna hægt að segja um þá alla að þeir séu sjálfskaparvíti. Það er í raun merkilegt hve mismunandi viðhorf eru til hjartasjúkdóma, krabbameins og svo lungnasjúkdóma. Félagsfræðingar hafa sett fram kenningar um að það hversu líklegar „yfir“stéttir séu til að fá þennan eða hinn sjúkdóminn og virðingin sem borin sé fyrir sjúkdómnum standi í réttu hlutfalli. Hér verður ekki slegið neinu föstu um réttmæti þeirrar kenningar. Hér verður látið nægja að biðja þess að samfélagið beri sömu virðingu fyrir lungnasjúkdómum og öðrum erfiðum og lífshótandi sjúkdómum sem á okkur leggjast af ýmsum orsökum. Viðhorf til lungnasjúkdóma Eftir Helgu Sigfríði Ragnarsdóttur, félagsráðgjafa

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.