Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 32

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - Dec 2022, Page 32
32 Passaðu þig! Eitt það besta sem hefur verið sagt við mig Þegar fólk veikist af alvarlegum sjúkdómum veldur það ekki aðeins straumhvörfum í lífi viðkomandi einstaklinga, heldur gerbreytast aðstæður þeirra nánustu líka. Við höfum nokkrum sinnum náð tali af aðstandendum lungnasjúklinga til að varpa ljósi á þessar breytingar og er viðmælandi okkar að þessu sinni Ásrún Kristjánsdóttir, svæfingarhjúkrunarfræðingur. Eiginmaður Ásrúnar er Guðjón Vilbergsson, kvensjúkdómalæknir en hann gekkst undir lungnaígræðslu í maí síðastliðnum. Hún var svo elskuleg að líta inn til okkar nú á dögunum og segja sögu sína. Þegar við höfðum komið okkur fyrir hóf hún frásögnina með kankvísu brosi og eftirfarandi orðum: „Hann veikist og lífið breytist.“ Greindur með lungnatrefjun Það er ljóst frá byrjun samtalsins að Ásrún býr yfir þekkingu og styrk þeirra sem hafa reynslu af því að sinna sjúklingum. Þótt óneitanlega horfi öðruvísi við þegar um manns nánustu er að ræða og alvarlegur undirtónninn sé ekki fjarri, skýrir hún frá forsögu veikinda Guðjóns á sinn yfirvegaða hátt. „Hann var í rauninni heppinn að greinast í tæka tíð. Þegar hann fór í röntgenmyndatöku fyrir um fjórum árum til þess að láta athuga á sér nýrun, sást að lungun voru ekki sem skyldi og var honum því sagt að leita til lungnasérfræðings.“ Guðjón fór að þeim tilmælum og var rannsakaður og greindur með lungnatrefjun. Því næst var honum bent á að leita til annars sérfræðings á Landspítalanum sem hann og gerði. „Eftir það lendir hann svo bara á vergangi í heilt ár,“ bætir Ásrún við og segir að það hafi komið til af því að enginn hafi vitað hver ætti að sinna honum. Guðjóni fer að þykja biðin löng og fer að reyna að gera eitthvað í sínum málum. Dóttir þeirra sem er læknir er heldur ekki sátt, að sögn Ásrúnar. Upphófust því einhver samskipti milli lækna áður en hann komst almennilega inn í kerfið og fékk einhvern sem sinnti hans málum af alvöru. „Frá þeirri stundu hefur allt verið mjög gott, ákaflega vel um hann hugsað og allt í fína lagi,“ segir Ásrún og brosir. Farinn að grennast mikið Aðspurð hvort ekki hafi verið búið að bera á einhverjum einkennum hjá honum segir Ásrún að eftir á að hyggja hafi verið einkenni sem enginn hafi tekið sérstaklega eftir á þeim tíma. Hún nefnir að þegar fjölskyldan hafi verið á Ítalíu hafi borið á hóstaköstum hjá honum sem þau hafi tengt við neyslu á fæðu sem innihélt tómata. Þau héldu að þetta væri eitthvert ofnæmi en það gætu hafa verið einkenni. „Það var líka farið að bera á því að hann væri oftar þreyttur, auk þess sem hann var farinn að grennast mikið,“ segir hún og útskýrir að þar sem súrefnisskortur hafi áhrif á meltingarveginn þá gegni hann hlutverki sínu ekki sem skyldi og þess vegna séu lungnasjúklingar oft mjög grannir. Keyrir líffæraskiptin í gang Þegar dóttir þeirra, sem er barnalæknir í Gautaborg, kom heim spurði hún hvort ekki væri búið að ræða líffæraskipti við þau. Þau höfðu skynjað sívaxandi súrefnisþörf hjá Guðjóni sem kom hægt og bítandi. „Hann var samt vel lyfjaður og allt gert fyrir hann sem hægt var að gera nema aldrei talað við hann um líffæraskipti,“ segir Ásrún. „Það kom frá fjölskyldunni og honum sjálfum. Hann var náttúrulega alveg til í það því að hann sá að þetta var ekkert að ganga svona.“ Þau héldu þó að hann væri kannski orðinn of gamall en þarna var hann um sjötugt. Dóttirin var á öðru máli þar sem hún hafði lesið um líffæraþega á svipuðu reki. „Hún eiginlega kveikir á þessu og keyrir líffæraskiptin í gang.“ Finnur að eitthvað brestur Þegar Guðjón komst á biðlista eftir ígræðslu þurfti hann að bíða í um eitt og hálft ár. „Á þessum tíma hrakaði honum ansi skarpt,“ rifjar Ásrún upp en bætir svo við brosandi að í maí síðastliðnum hafi hann svo loksins komist í aðgerðina. „Hann stóð sig með prýði og þetta gekk alveg skínandi vel. Nema þegar ég sit þarna hjá honum á sjúkrahúsinu fær hann þetta heiftarlega hóstakast og finnur að það er eitthvað sem brestur.“ Í aðgerðinni hafði verið farið með tækin inn um op sem gert var milli rifja og búið var að sauma saman en hafði greinilega rofnað við hósta-

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.