Heima er bezt - 01.04.2002, Side 21
öðruvísi. Hann tók svo til orða. „Ég held það væri nú
best að við notuðum tímann meðan við bíðum hafgolunn-
ar, til þess að hitta karlinn hann Sörensen. Mér þykir lík-
legt að hann sé góður heim að sækja og þá er það bara
upplyfting fyrir okkur.” Mikið var ég þakklátur Guð-
mundi fyri r þessi orð og kannski var þá þessi langþráði
draumur minn að komast um borð í Grænlandið að ræt-
ast. Um þetta voru svo ekki höfð fleiri orð en piltarnir
lögðu út árar og réru að skipinu. Guðmundur hafði orð
fyrir okkur því hann var dálítið talandi á dönsku. Ég held
hann hafi spurt háseta sem var á þilfarinu eftir skipstjór-
anum, þvi eitthvað var hann að nefna kaptein. Ekki þurft-
um við lengi að bíða þess að kapteinninn kæmi því eigin-
lega með það sama kom maður út úr stýrishúsinu og
þrammaði í áttina til okkar. Ekki var hann neitt líkur því
sem ég hafði hugsað mér skipstjóra. Hann var að mér
sýndist kominn yfir miðjan aldur, líklega meðalmaður á
vöxt og mjög gildvaxinn. Klæddur var hann í mikla fær-
eyska peysu sem náði niður á læri, bláar buxur úr þykku
efni sem gyrtar voru í hvíta ullarsokka og náðu sokkarnir
upp að hné. Á fótum hafði hann tréskó og prjónahúfu á
höfði. Hann kom út að lunningunni til okkar og bauð
okkur upp í skipið. Við fórum raunar bara þrír um borð
því Jón vildi ekki yfirgefa bátinn. Þegar ég var kominn
inn á þilfarið fór ég náttúrlega strax að spá í það sem þar
var að sjá. Það var ekki vandi að sjá að þeir voru að draga
inn nótina. Við spilið stóðu tveir menn og settu kaðlana í
hankir og röðuðu þeim út við lunninguna. Aðrir tveir
voru að ganga frá eftir síðasta hal. Virtust vera búnir í að-
gerðinni og voru nú að smúla dekkið. Nokkrar tágakörfur
voru þar hjá þeim fullar af kola og ýsu sem sjálfsagt hef-
ur verið aflinn úr síðasta hali. Sörensen bauð okkur nú að
ganga niður í skipið og fá hressingu. Þar setti kokkurinn
fyrir okkur stóra brauðhleifa sem virtust nýlega komnir
úr ofninum því enn voru þeir volgir. Sörensen bætti síðan
við á borðið krús með ávaxtasultu og stórri skál með
rauðleitu smjöri og sagði, svo ég skildi, að þetta væri
besta danskt kúasmjör. Að síðustu rétti kokkurinn okkur
stórar leirkönnur og hellti í þær rjúkandi tevatni. Sören-
sen skar brauðið í þykkar sneiðar og tók svo eina og
smurði vel á hana danska smjörinu og setti sultu ofaná.
Þessa sneið rétti hann mér og tók ég það svo að hann
vildi vera viss um að ég yrði ekki afskiptur.
Ég notaði mér þessar veitingar vel, enda orðinn svang-
ur, hafði víst ekki borðað mikið um morguninn. Þegar ég
var orðinn vel mettur langaði mig að komast upp á þilfar-
ið og skoða mig þar betur um. Ég þakkaði skipstjóranum
fyrir mig en hann klappaði mér á kollinn og sagði eitt-
hvað sem ég skildi ekki, en fann á hreimnum i röddinni
að voru hlýleg orð.
Ég flýtti mér nú upp brattan stigann og þegar ég opnaði
hurðina út á þilfarið kom köld hafgolan á móti mér. Það
var auðfundið að hvesst hafði mikið meðan við vorum
niðri og töluverður báruslampandi kominn við skipshlið-
ina, enda lá báturinn okkar áveðurs við skipið. Jón hafði
nóg að starfa við að vernda bátinn fyrir hörðum skellum
við skipssíðuna. Ég vildi komast niður í bátinn honum til
aðstoðar, en það var ekki auðvelt því svo ókyrr var bátur-
inn. Þá bar þar að einn hásetann og var hann með tvö frí-
holt sem hann setti á milli bátsins og skipsins. Síðan
hjálpaði hann mér niður í bátinn. Nú vorum við miklu
betur settir og brátt komu svo piltarnir og Sörensen út að
lunningunni. Hann hafði leyst þá út með gjöfum og man
ég eftir gríðarstórum te- og reyktóbakspökkum sem hann
gaf þem. Jóni gleymdi hann ekki heldur því brauð og
ölflösku rétti hann niður til hans. Síðast henti hann
nokkrum stórum appelsínum niður til mín, þar sem ég sat
í skutnum, og ætlaðist víst til að ég gripi þær á lofti. Eitt-
hvað fór það nú í handaskolum hjá mér og lentu sumar í
austrinum en kom víst ekki mikið að sök. Ég var ákaflega
ánægður með að fá þessa fallegu ávexti sem ég hafði víst
varla smakkað áður og hlakkaði mikið til að gefa systkin-
um mínum að smakka þá með mér. Svo kvöddu bænd-
urnir skipstjórann og stukku niður í bátinn.
Þeir lögðu nú út árar og réru spölkorn frá skipinu en
Sörensen veifaði til okkar. Báturinn valt töluvert á
krappri vindbárunni en um hafsjó var ekki að ræða. Jón
fór aftur í skutinn og renndi stýrinu fyrir. Svo kallaði
hann nokkuð hvasst til piltanna: „Upp með frammastrið
piltar!” Þeir voru nú ekki lengi að framkvæma þá skipun
og pabbi setti útleggjarann í slíðrin fremst í stafninum og
batt fokkuna þar við, hún fylltist þegar af vindi og hélt
bátnum upp í kvikuna. Þá settu þeir út framseglið og Jón
bað Guðmund að setja ekki skautið fast . Svo vék hann
stýrinu örlítið til og sigldi liðugan vind upp undir landið.
Ég leit enn einu sinni til skipsins og sá að Sörensen stóð á
sama stað. Kanski hefur hann viljað fylgjast með því
hvernig íslendingum færist að sigla báti.
Ég fór svo að fylgjast með siglingunni því varla hafði
ég verið í bát á siglingu áður. Mér fannst hreyfingar báts-
ins miklu mýkri og líkast því sem hann svifi yfir hafflöt-
inn. Bárurnar sem eltu okkur urðu eiginlega að engu þeg-
ar þær komu undir bátinn og ég fann til sérstakar unaðs-
kenndar. Þá kom mér í hug vísubrot sem ég hafði heyrt
ömmu mína hafa yfir og er einhvernveginn svona.
Að sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi,
ýtar segja yndi mest
og að teygja vakran hest.
Ég hafði eiginlega aldrei skilið þessar þrjár unaðsemd-
ir, sem nefndar eru í vísunni, nema helst þá að ríða
vökrum hesti. Nú fékk ég að sannreyna að mikill unaður
fylgdi því líka að sigla fleyi í góðu leiði. Þá átti ég bara
eftir að skilja unaðinn við að sofa í meyjarfaðmi. Það lá
alls ekki ljóst fyrir dreng á ellefta árinu en samt var eitt-
hvað í undirvitundinni sem sagði mér að það væri einmitt
meyjarfaðmurinn sem gæti veitti karlmönnum mestan
unað.
Við komum upp undir landið rétt innan við Ána-
staðastapann sem er há klettabrík og sést langar leiðir af
sjó. Þarna var nokkurt var af landinu og næstum sléttur
Heima er bezt 165