Vesturbæjarblaðið - okt. 2023, Síða 16
16 Vesturbæjarblaðið OKTÓBER 2023
Sólarhringsvakt: 581 3300 & 565 5892
Komum til aðstandenda og ræðum skipulag sé þess óskað
Sverrir Einarsson
S: 896 8242
Jón G. Bjarnason
S: 793 4455
Jóhanna
Eiríksdóttir
Útfararstofa Íslands
www.utforin.is w Auðbrekku 1, Kópavogi
Útfararstofa Hafnarfjarðar
www.utfararstofa.is w Dofrahellu 9b, Hafnarfirði
Það er frumskylda hverrar borgarstjórnar að
sjá til þess að íbúar komist leiðar sinnar með
greiðum og öruggum hætti. Umferðartafir hafa
aukist í borginni á undanförnum árum, ekki síst í
Vesturbænum og Miðbænum.
Tafirnar kosta tugi milljarða
Of miklum tíma er sóað með umferðartöfum
í Reykjavík og ljóst að sá kostnaður nemur tugum
milljarða króna á ári. Er áætlað að a.m.k. 15
þúsund klukkustundum sé sóað í umferðinni á
höfuðborgarsvæðinu á hverjum degi. Það samsvarar
25 klukkustundum árlega á hvern borgarbúa. Flest
viljum við verja sem mestu af dýrmætum tíma
okkar með fjölskyldu og vinum en sóa honum ekki í
umferðarteppum.
Snjallvæðing og bestun umferðarljósa með hjálp gervigreindar hefur
sannað sig víða erlendis í því skyni að stytta tafatíma og auka öryggi.
Fjárfesting í sambærilegri snjallvæðingu í Reykjavík yrði fljót að skila sér
margfaldlega með greiðari umferð, fækkun slysa og minni mengun.
Miklir kostir snjallstýringar
Varlega áætlað gæti slík snjallstýring umferðarljósa bætt umferðarflæði í
Reykjavík um 15% og minnkað tafir strætisvagna um 20%.
Kostir slíkrar snjallvæðingar eru ótvíræðir. Í Reykjavík er hins vegar enn
notast við svonefnt klukkukerfi, gamla tækni sem ekki er hægt að segja að
byggist á snjalltækni nema að mjög takmörkuðu leyti.
Tillaga Sjálfstæðisflokksins
Í september sl. lagði ég fram eftirfarandi tillögu um málið á vettvangi
borgarstjórnar fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að gerðar verði úrbætur á stýringu umferðarljósa í Reykjavík í
því skyni að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun
í borginni.
Leitast verði við að nýta kosti tiltækrar tölvutækni betur en nú er gert
til að ná þessum markmiðum. Það verði m.a. gert með aukinni notkun
snjalltækni, sem stýrir viðkomandi umferðarljósum í þágu umferðaröryggis
og -flæðis gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda.
Gervigreind verði notuð til að besta stýringuna út frá gögnum, sem aflað
verði með skynjurum á umferðarljósum.
Í þessari vinnu verði hafður til hliðsjónar árangur þeirra borga á
Norðurlöndunum og fleiri nágrannaríkjum, sem hafa náð góðum árangri
við að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun með
slíkri snjalltækni.
Tillagan er nú til skoðunar í borgarkerfinu og verður vonandi til þess að
ráðist verði af heilum hug í snjallvæðingu allra umferðarljósa.
Minni tafir – meira öryggi
Með slíkri snjallvæðingu væri hægt að lágmarka umferðartafir í
borginni og auka umferðaröryggi. Skynjarar myndu t.d. tryggja að akandi
eða hjólandi vegfarendur þyrftu sjaldnast að bíða á rauðu ljósi ef engin
umferð væri á hliðargötunni. Einnig væri hægt að sjá til þess að gangandi
og hjólandi vegfarendur fengju forgang og kæmust alltaf örugglega yfir
gangbrautina (t.d. á Hringbraut) en ættu það ekki undir ósveigjanlegri
sekúnduklukku. Þá væri hægt að tryggja strætisvögnum víðtækan forgang
með slíkri tækni.
Bætum umferð
í Vesturbænum
með snjalltækni
Eftir Kjartan Magnússon borgarfulltrúa
Ástin, trú og tilgangur lífsins
er heiti bókar sem er að koma
út. Höfundur hennar er séra
Sigurður Árni Þórðarson fyrrum
prestur í Hallgrímskirkju og áður
í Neskirkju. Í tilefni útgáfunnar
verður örþing í Neskirkju þann 11.
nóvember nk. um kirkjuræður og
efni bókar innar sem hefst kl. 16.
Á eftir kl. 17 verður haldið upp á
sjötugs afmæli Sigurðar Árna. Hann
tekur aðeins forskot á sæluna og
tvinnar þessa atburði saman því
raunverulegur afmælisdagur hans
er á Þorláksmessu.
En hvað er Sigurður Árni að senda
frá sér. Hann hefur valið úr safni
sínu 78 prédikanir sem fluttar hafa
verið á helstu helgidögum ársins.
Ritið nefnist Ástin, trú og tilgangur
lífsins. Ritið er stórbók og forlagið,
Bjartur-Veröld-Fagurskinna, vandar
útgáfuna. Ragnar Helgi Ólafsson,
rithöfundur og grafískur hönnuður,
býr ritið til prentunar en hann er
tilnefndur til bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs í ár. Hallgríms kirkja
styður útgáfu þessa prédikanasafns
sem er úrval úr um eitt þúsund
stólræðum og hugleiðingum
höfundar á starfsferli hans sem prests.
„Ég hef gaman af því að elda mat en ég
nota aldrei allt kryddið í kryddhillunni
í einn rétt. Þessi bók er eins og
kryddsafn. Best er að nota hana oft, í
smærri skömmtum eða eftir þörfum.
Tilgangur hennar er að krydda lífið og
næra ástina,“ segir Sigurður Árni eftir
að hafa hellt upp á gott expressó kaffi
og tyllt sér við borðstofuborðið.
Ræður betur geymdar í
bókum en á netinu
Hann segir að margar ræður
hafa verið ritaðar til varðveislu og
endurnýtingar. „Hómilíubókin sem
var rituð um 1200 er safn prédikana
sem veita innsýn í trúar heim og
kirkjuræður Íslendinga þess tíma. Með
útgáfuáherslu siðbreytingartímans
var farið að gefa út guðsorðabækur og
rit sem þjónuðu trúarlegri menntun
Íslendinga. Vídalínspostilla var
brautryðjandaverk og var gefin út
á fyrri hluta átjándu aldar og var
notuð á heimilum þjóðarinnar í tvö
hundruð ár. Í kjölfar Vídalínspostillu
kom út fjöldi af ræðusöfnum íslenskra
kennimanna á nítjándu og tuttugustu
öld. Í kirkjum er prédikað í öllum
messum og guðsþjónustum. Sumar
ræðurnar rata nú á netið og eru
varðveittar þar um tíma. Sá sarpur
er mikilvægur og þúsundir lesa
sumar ræðurnar á vefnum. En netið
varðveitir ekki vel. Heilu ræðusöfnin
hafa horfið þegar vandræði hafa
orðið með hugbúnað eða hýsingu.
Bókin er betri. Því er mikilvægt að
kirkjuræður séu gefnar einnig út á
prenti. Viðtakendur prédikana eru
ekki aðeins fólk í kirkju eða fólkið sem
ræðurnar voru fluttar fyrir heldur
líka lesendur og fræðimenn síðari
tíma. Prédikanir gegna ekki aðeins
hlutverki í heyranda hljóði messunnar
heldur nýtast áfram til íhugunar. Þær
eru einnig vitnisburður um afstöðu,
lífsvísdóm og tjáningu hvers tíma og
menningar. Ræður í þessu safni eru
dæmi um íhugun á sunnudegi í kirkju
á Íslandi á fyrstu áratugum tuttugustu
og fyrstu aldar.“
Sigurður Árni segir að breytingar
í trúarlífi, kirkjulífi, vísindum,
stjórnmálum og menningu hafi
áhrif á blæ, snið og áherslur í
kirkjuprédikun og nefnir dæmi.
„Ræður Jóns Þorkelssonar Vídalíns
flétta meistaralega saman kraftmiklar
siðferðiskröfur og konungstúlkun
Guðs í upphafi átjándu aldar.
Pétur Pétursson gaf út ræður sem
endurspegluðu breyttar menningar-
og vísindaaðstæður nítjándu aldar.
Páll Sigurðsson gaf út ræðusafn
sem kynnti ný viðmið í trúarefnum.
Miklar deilur urðu um merkilegu
postillu hans. Ræðusafn Haraldar
Níelssonar Árin og Eilífðin var gefið
út á þriðja áratug tuttugustu aldar.
Haraldur var boðberi sálarrannsókna
sem vísindalegrar aðferðar og
var sannfærður um að spíritismi
styddi guðstrúna. Þessi nálgun
litaði prédikanir og túlkun hans.
Jón Helgason túlkaði tvíhyggju
nýguðfræði og hlýlegt stórmenni
Jesú í postillu hans Kristur vort
líf. Sigurbjörn Einarsson útlistaði
snilldarlega spennuparið um nálægan
og kærleiksríkan Guð sem yfirgefur
aldrei fólk þó það sé á bullandi flótta.
Það er gott að elska
„Það er gott að elska“ söng
þjóðpopparinn Bubbi. „All you need
is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn
fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli.
Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást
til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs
og náttúrunnar. Á bak við ástarsögur
heimsins og okkur öll er ástarsaga
Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur
getum við komist að mörgu um Guð,“
segir séra Sigurður Árni Þórðarson.
Ástin, trú og tilgangur lífsins
Bókin Ástin, trú og tilgangur
lífsins.
- ný bók eftir séra Sigurð Árna Þórðarson
Séra Sigurður Árni Þórðarson.
Kjartan
Magnússon.
Gleðidagur í Dómkirkjunni!
Mag. theol. Daníel Ágúst Gautas on var
vígður sem æskulýðsprestur Grensáskirkju og
Fossvogsprestakalls.
Megi Drottin blessa séra Daníel Ágúst í lífi og starfi.
Á myndinni eru sr. Guðný Hallgrímsdóttir,
séra María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir, sr. Daníel Ágúst
Gautason, sr. Pálmi Matthíasson, biskup Íslands Agnes
M. Sigurðardóttir, sr. Kristján Björnsson vígslubiskup,
sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, sr. Sveinn Valgeirsson og
sr. Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur.