Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 33

Stuðlaberg - 01.01.2012, Blaðsíða 33
STUÐLABERG 1/2012 33 Hann langaði heim Kristinn E. Andrésson bókmenntafræðing- ur ritaði eftirmæli um Jóhann í Morgunblaðið. Þar komst hann meðal annars svo að orði: „Það er sannleikur að Jóhann sárlangaði til Íslands. Öll hugsun hans og líf snerist um íslensk efni, fyrst og síðast. Hann lifði ekki á Íslandi, en hann lifði Ísland. Hann átti land og þjóð rist í hjarta sínu. Hvert orð hans átti íslenska merkingu. Svo nábundinn var hann hólmanum sem ól hann. En hvað hafði hólm- inn að gefa honum? Jörðin? Lækningu, ef til vill. En þjóðfélagið? Dauða og ekkert annað. Það átti og bauð hæli fyrir sjúklinginn, nafn- lausan þegninn. En fyrir skáldsálina, fyrir Jóhann Jónsson, átti „móðirin“ engan hjarta- stað. Hún gat boðið sjúklingnum að koma heim og deyja, en hún gat ekki boðið skáldinu að koma heim og lifa. Og Jóhann langaði til að lifa – og langaði heim. En heimför til Íslands gat hann ekki réttlætt fyrir sjálfum sér nema með því einu að hann ætti þar kost á að lifa, þ.e. að yrkja. Þann kost gat Ísland ekki veitt honum. Þess vegna kom hann ekki heim.“ Tregi heillar mannsævi Skömmu eftir að Jóhann Jónsson lést skrifaði Halldór Laxness, skólabróðir hans og vinur, það sem hann nefndi stutta hugleið- ingu. Hún birtist í „Fótataki manna“ ári síðar undir heitinu „Vinur minn“. Halldór komst m.a. svo að orði: „Við vorum eins og tveir ei- lífir menn; á milli okkar brann ljós heimsins … Það vorum við sem sköpuðum heiminn. Við dáðumst að fegurð hans í skini morgunsins. Við gerðum haustið að vori, nóttina að degi, þokuna að sólskini.“ Það var ekki fyrr en árið 1952, tuttugu árum eftir að Jóhann Jónsson lést, að verk hans voru gefin út, undir heitinu „Kvæði og ritgerðir“. Halldór sá um útgáfuna. Í inngangi sagði hann: „Á Jóhanni Jónssyni höfðu vinir hans og félagar meiri vonir festar til skáld- skaparafreka en á flestum mönnum er í þann tíma óxu upp … En þó að Jóhann Jónsson lifði eigi það að verða sá veruleiki þar sem rætast skyldu draumar vina hans þá hygg ég þó sönnu nær að þetta verklitla skáld hafi í nokkr- um smákvæða þeirra er hann orti í æsku, og hélt áfram að fága fram á banadægur sitt, og loks í Saknaðarkvæði sínu, tjáð gullinn trega heillar mannsævi með innvirðulegra hætti en allmörg hinna stórvirkari skálda vorrar kyn- slóðar.“ Síðan eru liðin sextíu ár og ljóð Jóhanns Jónssonar eru enn í miklum metum. Jónas Ragnarsson tók saman. Helstu heimildir: Jóhann Jónsson: Söknuður. Vaka, júní 1928, bls. 129-131. Kristinn E. Andrésson: Skáldið Jóhann Jónsson. Morgunblaðið, 13. september 1932, bls. 5-6. Haukur Þorleifsson: Frá útför Jóhanns Jónssonar skálds. Morgunblaðið, 9. október 1932, bls. 8. Halldór Kiljan Laxness: Fótatak manna. Sjö þættir. Þorsteinn M. Jónsson, 1933. Jóhann Jónsson: Kvæði og ritgerðir. Halldór Laxness sá um útgáfuna. Heimskringla, 1952. Matthías Johanneesen: Svo kvað Tómas. Almenna bókafélagið, 1960. Upphaf ljóðsins „Söknuður“ í eiginhandar- riti Jóhanns Jónssonar í Handritadeild Lands- bókasafns Íslands, Háskólabókasafns. JR

x

Stuðlaberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.