Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 19.01.2023, Blaðsíða 12

Fréttir - Eyjafréttir - 19.01.2023, Blaðsíða 12
12 | | 19. janúar 2023 hennar, svaraði í símann og var þá komið fram yfir kvöldmat heima. Ég fékk greið svör og síðan tók Sigurður Kristinsson á Löndum, svili hans, við símtólinu og sagði mér frá eldinum, gosnóttinni, ferðinni til Reykjavíkur, hvernig ástatt væri í Eyjum og hverjar horfur menn teldu vera. Hann vissi ekki hvar mamma hefði fengið inni, né hvar systur mínar eða bróðir væru. Allir hefðu bjarg- ast í land. Ég bað fyrir kveðjur og sagðist mundu hugsa mitt ráð. Ég var nokkuð dasaður eftir símtalið og gaf mér tíma til að jafna mig. Bankastjórinn lét færa mér kaffi og spurði hvort ég vildi koma heim með sér og vera hjá fjölskyldunni síðdegis. „Nei, takk, ég vil fara upp á herbergi og vera einn. Ég þarf að hugleiða hvað réttast er fyrir mig að gera.“ Fréttir að heiman, sannar og lognar Er það spurðist út á campus, háskólalóðinni, hvað gerst hefði í Vestmannaeyjum við Ísland viku margir sér að mér, spurðu frétta og höfðu falleg orð. Bæjarblaðið, LaGrange Daily News, hafði veð- ur af málinu og tók viðtal við mig. Það mun svo hafa verið á fimmtudagskvöld, 25. jan., sem ég sá fyrstu myndir í sjónvarpi og heyrði frásagnir af gosinu frá Eyjum. Mattox-hjónin, sem tóku á móti mér er ég kom vestur um haustið og ég hafði gist hjá mörgum sinnum, buðu mér heim í höll sína við Country Club Road til þess að horfa á sjónvarpsfréttir. Þar sá ég fræga ameríska frétta- menn skríða eftir svartri öskunni austur á bæjum, myndir af brunn- um húsum og öðrum brennandi, hrundum húsum og húsum sem voru komin á kaf í ösku. Að hætti fréttamanna var hvergi slegið af í dramatískum lýsingum. Mér varð nokkuð brugðið við að sjá gamlar slóðir. Þar átti ég mörg spor í grasi sem var nú orðið að svartri ösku- breiðu. Hvað yrði um byggðina? Ég bar mig næstu daga eftir dagblöðunum sem lágu frammi í stúdentamiðstöðinni. Atlanta Constitution var þeirra stærst. Næstu daga birti það fréttir af gosinu og voru þær ekki allar uppörvandi. Talað var við Sigurð Þórarinsson jarðfræðing en orð hans greinilega slitin úr réttu samhengi. Eyjan myndi brátt klofna í tvennt, menn byggju sig undir mikla sprengingu í gígnum og líklegt að eyjan hyrfi þá end- anlega. Til greina kæmi að varpa sprengju í gíginn til að breyta rennsli hraunsins og beina því til hafs. Fréttir af þessu tagi komu annað slagið, allt fram í mars en eftir það hvarf eldgosið úr fréttum vestra. Bréf og góður gestur Símtöl heim urðu ekki fleiri en brátt tóku að berast bréf frá ætt- ingjum og vinum þar sem sagðar voru fréttir af fólki og framvindu gossins. Tveir kunningjar mínir voru í námi vestra þennan vetur, Þorsteinn Óskarsson í Betel var í Kaliforníu og skrifaði mér um hugraunir sínar. Hann hafði fengið brenglaðar fréttir af gosinu fyrsta daginn eins og fleiri og velti nú fyrir sér hvað yrði um Vestmanneyinga ef Heimaey yrði óbyggileg, yrðu þeir kannski settir niður í Þorlákshöfn eins og einhverjum mun hafa dottið í hug? Slík var óvissan á þeim tíma. Þórólfur Þórlindsson skólabróðir minn var í Iowa og sendi mér hug- hreystandi bréf. Ég kom daglega við í póststofunni og spurði eftir bréfum; afgreiðslukonan var farin að kannast við mig og spurði stundum tíðinda. Mér til léttis var von á kærum æskuvini, Gunnlaugi Ástgeirs- syni, í heimsókn til mín er leið á febrúar, fyrsta Íslendingi sem ég sá í hálft ár. Hann var formaður stúdentaráðs þetta skólaár og var sem slíkur á fundi í Washington. Hann notaði ferðina til að heilsa upp á frændfólk sitt vestra og gat komið því svo fyrir að á leið sinni til Florida kæmi hann við í Georgíu og yrði þar hjá mér eina helgi. Við Henry og Sam fórum á bílskrjóðnum þeirra á flugvöllinn í Atlanta og sóttum Gunnlaug. Það var aukarúm fyrir hann í herbergi mínu og hann stóð við tvo daga. Var þá margt skrafað og margar sögur sagðar, setið uppi langt fram á nótt. Hvað er mér fyrir bestu? Eftir fyrstu fréttir af gosinu fannst mér fátt annað fyrir hendi en pakka saman pjönkum mínum og koma mér heim hið fyrsta. Ég gaf mér þó tíma til að hugsa málið, hvað mér yrði fyrir bestu í þessu einkennilega ástandi sem að hefði borið. Tilfinningarnar toguðu heim en skynsemin tók á móti. Mig langaði mjög að vera með mínu fólki í þessum erfiðleikum, reyna að hjálpa til, fara til Eyja, sjá gosið, upplifa það og verða að liði í björgunarstarfinu þar. En hvar átti ég að búa heima? Fengi ég leyfi til að fara út í Eyjar? Hvernig átti ég að komast til Íslands? Mundi eitthvað muna um mig, yrði ég að einhverju gagni, gæti ég breytt einhverju? Ætti ég ekki líka að hugsa um sjálfan mig eins og um aðra? Færi ég heim yrði ég að kasta frá mér þessu frábæra tækifæri sem mér hafði hlotnast, að vera fyrir vestan í frjálsu námi fast að einu ári og veturinn væri mér þá ónýtur. Ég hafði mikla ánægju af dvöl minni í Georgíu, hún var mér mikilvæg reynsla og afar gagnleg. Ég kynnt- ist nýju fólki, breyttu landslagi og veðurfari, öðru skipulagi í skóla og umfram allt öðrum hugsunar- hætti, öðru lífsviðhorfi. Að fara heim yrði mikið brölt og mikil röskun fyrir mig og óvíst að það yrði til góðs. Að vera kyrr gæfi mér færi á að lifa mínu eðlilega lífi og ljúka námsárinu. Með því að velta kostum fyrir mér, draga ákvörðun, dofnaði ákafinn og ég færðist nær því að sitja kyrr þar vestra. Ég hef aldrei séð eftir því en oft hugsað til þess af hverju ég missti hér heima. Hæ, Nixon! Námi mínu lauk í endaðan maí og ég flaug til Íslands 1. júní 1973. Ég var sóttur í gömlu amerísku flugstöðina í Keflavík. Þegar ég gekk út þaðan var í mér eftir- vænting og morgunsvalinn var hressilegur eftir hitann vestra. Við ókum af bílastæðinu að aðal- veginum til Reykjavíkur en vorum þá stöðvuð af lögregluþjóni. Skömmu síðar sá ég blikkandi sírenuljós mótorhjóla og þar á eftir mikla bílalest. Var annað gos að bresta á? Ég fór út úr bílnum til að sjá betur hvað um væri að vera. Jú, þar fór sjálfur Nixon forseti á leið í gagnstæða átt. Hann hafði dagana áður setið innan um Kjarvalsmálverk á Klambratúni og skrafað um heimsmálin við Pompidou Frakklandsforseta, en var nú á leið heim í Waterga- te-leiðindin. Ég þóttist sjá forsetabílinn og forsetann og að hann veifaði til okkar. Ég veifaði á móti. Út í Eyjar, strax! Við höfðum ekki fyrr lokað úti- hurðinni í íbúðinni við Lækjar- götu í Hafnarfirði hjá mömmu en síminn hringdi. Það var til mín. Vestmanneyingar voru á stöðugum flækingi eftir gosið og stundum erfitt fyrir Póstinn að finna hvar menn bjuggu fyrst á eftir. Bogi Einarsson var skipstjóri á Herjólfi þegar búslóðaflutningar til Eyja hófust sumarið 1973 og sýndi mikið öryggi. Magnús Guðjónsson vörubílstjóri á Reykjum stóð í ströngu við búslóðaflutn- inga sumarið 1973, hætti m.a. bíl sínum og krana. Myndin er tekin miklu síðar og Magnús með nýrri bíl og öflugri krana.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.