Stuðlaberg - 01.06.2014, Page 34
34 STUÐLABERG 1/2014
Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
Darraðarljóð frá elztu þjóðum;
heiftar-eim og ástar-bríma,
örlaga-hljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum – geymir í sjóði.
Það eru nokkur ljóð sem hafa fylgt mér
lengi og þetta er eitt þeirra. Mér er mjög
minnisstætt þegar við lásum í menntaskóla
kvæðið Til Vestur-Íslendinga. Magnús
Guðmundsson, Magnús góði eins og hann var
kallaður, kenndi mér íslensku í sjötta bekk.
Hann kenndi af ástríðu og tilfinningahita
og þegar hann las kvæðið fyrir okkur komst
hann við. Við lestur hans á erindinu sem
hér er á síðunni, var eins og saga lands og
þjóðar birtist í leiftursýn. Mér hefur alla tíð
verið þessi stund hugleikin og hún skildi eftir
tilfinningu eða tengingu við sögu þjóðarinnar
sem mér er kær.
Tuttugu árum síðar og rúmlega það fór
ég í fyrsta sinni til Vesturheims í heimsókn í
Íslendingabyggðirnar í Kanada. Í þeirri ferð
opnuðust augu mín fyrir því að það væri
til annað Ísland, ef svo má að orði komast,
vestan hafs. Þar hitti ég fjölda manna, karla og
kvenna, sem höfðu lifandi áhuga á öllu sem
íslenskt var og í þeim hópi voru margir sem
aldrei höfðu komið til gamla landsins. Gömul
kona, borin og barnfædd í Kanada, rétt eins
og foreldrar hennar, spurði mig á íslensku:
„Hvað er að frétta að heiman?“ Hún hafði
aldrei til Íslands komið.
Ég hugsaði oft til þessa ljóðs Matthíasar
og þá sérstaklega til þessa erindis í þessari
„Hvað er að frétta að heiman?“
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra velur sér ljóð
eftirminnilegu ferð minni. Harðæri og
ótíð höfðu leikið Ísland grátt og stór hluti
þjóðarinnar hafði fengið nóg og vildi láta
reyna á gæfuna í fjarlægu landi. Það hefur
verið sárt að horfa á eftir vinum og frændum
og ósk skáldsins um að þeir varðveiti tunguna
er einlæg og heit. Reyndar er það með
ólíkindum hversu mjög Íslendingarnir vestan
hafs hlýddu þessu kalli og áhugi þeirra á
uppruna sínum og sögu er enn lifandi og
mótandi afl öllum þessum árum síðar.
Reyndar er það svo að mér þykir nokkuð
erfitt að tína til uppáhalds ljóð, tónverk,
skáldverk eða önnur listaverk. Smekkurinn
breytist, vonandi vex þroskinn eitthvað með
árunum og síðan er hitt að manni líkar best
við orðsnillina í einu ljóðinu, efnistökin í öðru
eða hughrifin í því þriðja. En þetta ljóð valdi
ég sökum þess hversu lengi það hefur fylgt
mér og hvernig það dýpkaði upplifun mína
þá þegar ég ferðaðist í fyrsta sinn um slóðir
landa okkar í Vesturheimi.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.