Stuðlaberg - 01.04.2022, Qupperneq 21
STUÐLABERG 1/2022 21
sonnettur að uppbyggingu, en ég sleppti
ljóðstöfum og rími.
Þegar ég ímyndaði mér Jónas á tímum
loftslagsbreytinga ákvað ég hins vegar að
yrkja í sama hætti og hann og skal fúslega
viðurkenna að ég gerði það vegna þess að
mig langaði til að ná til eldra fólks með
kvæðunum. Margt fólk viðurkennir ekkert
sem ljóð nema það sjái í þeim þessi sérstöku
endurtekningarstílbrögð, ljóðstafi og rím. Gott
dæmi er maðurinn sem einhverra hluta vegna
las flokkinn minn Farsælda frón og líkaði vel,
var hrifinn af því sem skáldið teiknaði upp en
vildi samt fá annað skáld til að færa skrifin í
réttan búning með stuðlum og höfuðstöfum,
þá gætu þetta orðið ljóð, jafnvel ágætis ljóð.
Þú ert stjórnarformaður Boðnar. Hvað er Boðn,
fyrir hvað stendur hún og hvert er hlutverk hennar?
Boðn var stofnuð fyrir níu árum með það
markmið fyrir augum að halda málþing og
gefa út Són, tímarit um óðfræði. Þetta tímarit
heillaði mig snemma enda birtist þar margt
sem getur nýst skáldi en ég kom ekki að
starfi hjá félaginu fyrr en á síðasta ári. Það
er full þörf á svona félagi og tímaritinu þótt
það muni kannski aldrei seljast í þúsundum
eintaka. Boðn er líka bakhjarl vefsetursins
Braga sem hefur að geyma dæmi um ótrú
lega fjölbreytilega flóru af bragarháttum
frá ýmsum tímum. Ég er sannfærður um
að sú aðferð sem þar er notuð við að greina
sérkenni bragarháttanna gæti nýst fólki á
öllum aldri sem vil læra og tileinka sér fleiri
leiðir til tjáningar í bundnu máli.
Þú hefur lengi fengist við limrugerð. Hvað
kemur til að þú velur það form öðrum fremur?
Ég hreifst af limrum Kristjáns Karlssonar
þegar ég var ungur maður og fór þá að
bulla uppúr mér limrum. Það er eitthvað við
bragarháttinn sem höfðar til mín, hann er á
einhvern hátt bæði laus og bundinn. Upp úr
aldamótum datt sér í hug að safna saman í
bók þeim limrum sem ég átti undir heitinu
„Þaulhugsaðar endaleysur“ en þurfti að bæta
nokkrum við til að komast í bókarstærð svo
ég einsetti mér að yrkja eina limru á leið úr og
í vinnu. Hver göngutúr tók um 20 mínútur
og eftir nokkra mánuði hafði mikið bæst við
bunkann hjá mér en þá fór ég að taka þetta
alvarlega og sjá út einhverja meiningu og
heildarhugsun í allri vitleysunni.
Í „hefðbundinni“ limrugerð þykir það
góður siður að kynna til sögunnar persónu
og kenna hana við ákveðinn stað í fyrstu línu
en sprella svo og bulla um athafnir hennar í
næstu línum. Þegar ég var að safna saman í
bókina langaði mig til að halda þessum sið en
með breyttu sniði þó og kynna frekar persónu
til sögunnar í titli og stundum líka örnefni.
Ég ákvað síðan að nokkrar persónur skyldu
koma fyrir aftur og aftur út í gegnum bókina
og var undir sterkum áhrifum frá Þórarni
Eldjárn og sænskum vísnasöngvurum þegar
ég skáldaði þær upp og gaf þeim nöfn. Það
voru þó ekki nöfn persóna sem áttu að vera
aðalatriði þessarar bókar heldur greiningin á
atferli þeirra.
Þessi bók kom út undir heitinu Hálfgerðir
englar og allur fjandinn árið 2006 og síðan
Limrukver Antons Helga kom út árið 2006
og var endurútgefið 2012.