Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 5

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 5
Framkvæmdafréttir nr. 725 3. tbl. 31. árg. 5 Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, flutti næst erindi um brúarvinnuflokka Vegagerðarinnar en saga þeirra er orðin ríflega 100 ára löng. Hann sagði rökin fyrir því að Vegagerðin haldi úti slíkum vinnuflokkum vera að nauðsynlegt þyki að stofnunin ráði yfir ákveðinni verkþekkingu til að geta samið við verkfræðistofur og verktaka. Þá séu flokkarnir hluti af viðbragðskerfi samfélagsins vegna náttúruhamfara. Hreinn rifjaði upp þrjú af verkefnum brúarvinnuflokka í kjölfar flóða þar sem brýr skemmdust eða eyðilögðust. Það voru Gígjukvísl á Skeiðarársandi 1974, Múlakvísl á Mýrdalssandi 1996 og Steinavötn í Suðursveit 2017. Brúarvinnuflokkarnir unnu þrekvirki við að koma á samgöngum aftur á mettíma með byggingu bráðabirgðabrúa. Einbreiðar brýr voru nokkuð til umræðu, eða þörfin fyrir að fækka þeim. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, hélt tvö erindi á ráðstefnunni. Annars vegar um einbreiðar brýr í fortíð og nútíð og hins vegar lauk hann ráðstefnunni með því að horfa til framtíðar varðandi hönnun og byggingu brúa, kolefnisspor í brúargerð og hvaða verkefni eru framundan í brúargerð. Þrír erlendir fyrirlesarar tóku þátt í ráðstefnunni. Fyrst á mælendaskrá var Anne Moloney, brúarverkfræðingur hjá danska fyrirtækinu Ramboll. Hún fjallaði um hönnun og byggingu nýrrar Storstrøm-brúar milli dönsku eyjanna Falster and Masnedø. Einnig fjallaði hún um það viðamikla verkefni sem snýst um að fjarlægja gömlu Storstrøm-brúna sem ekki er hlaupið að miðað við þær miklu umhverfiskröfur sem gerðar eru í dag. Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki, fjallaði um áskoranir verktaka í brúargerð. Hann tók sem dæmi þær hremmingar sem Ístak hefur lent í við byggingu brúar yfir Stóru-Laxá en tafir á aðföngum vegna Covid, mikil kuldatíð og krapaflóð í ánni gerði fólki erfitt fyrir. Þannig þurfti að rjúfa veginn að brúnni í talsverðan tíma, auk þess sem ákveðið var að byggja yfir alla brúna til að geta klárað steypuvinnu. Sannarlega ævintýralegar lýsingar. Reynir Georgsson á umsjónardeild Vestursvæðis Vegagerðarinnar fjallaði um byggingu brúar yfir Þorskafjörð sem nú er á lokametrunum. Hann minnti á að verkefnin takmarkist ekki alltaf við brúna eina heldur sé brúarsmíðin hluti af stærra verkefni. Einnig ræddi hann hversu mikil áhersla sé lögð í dag á verndun umhverfis við hönnun og byggingu brúa. Þeir Magnús Arason frá EFLU verkfræðistofu og Keith Brownlie frá BEAM arkitektum sögðu frá hönnun Öldu, brúar yfir Fossvog, en hönnunartillaga þeirra vann í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú. Skemmtilegt var að fá innsýn inn í grunnhugmyndina að hönnun brúarinnar.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.