Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 11

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 11
Framkvæmdafréttir nr. 725 3. tbl. 31. árg. 11 Magnús er fæddur í Reykjavík 1954 en hefur búið í Kópavogi stóran hluta ævinnar. „Það var frábært að alast upp í Hvömmunum í Kópavogi. Þetta var hverfi í uppbyggingu og fjöldi af börnum í hverju húsi. Ég á marga æskuvini frá þessum tíma þegar börn hlupu frjáls um, spiluðu fótbolta á öllum blettum sem fundust, upplifðu ævintýri í Hlíðargarðinum og skutust svo heim til mömmu í hádegismat,“ segir Magnús sem er elstur þriggja systkina. Bróðir hans er sex árum yngri og systir hans átján árum yngri. Stærðfræði- og eðlisfræðibraut í MR tók við eftir grunnskóla. „Menntaskólaárin voru nú einn skemmtilegasti tími lífsins,“ segir Magnús brosandi en á þessum árum kynntist hann tilvonandi eiginkonu sinni Bjarnveigu Ingvarsdóttur. Haustið 1975 skráði Magnús sig í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Þau Bjarnveig byrjuðu að búa og eignuðust dóttur sína, Svölu Birnu, árið 1976. Eftir útskrift lá leið fjölskyldunnar til Englands í framhaldsnám. „Við bjuggum í Durham í Norðaustur Englandi. Norðaustrið var rótgróið kolanámu- og iðnaðarsamfélag á fallanda fæti og atvinnuleysi mikið. Ástandið í Bretlandi var dálítið sérstakt á þessum tíma, Thatcher nýkomin til valda og mikið umrót í þjóðfélaginu. En við upplifðum Durham á mjög jákvæðan hátt, og þótti umhverfið bæði skemmtilegt og notalegt.“ Magnús stundaði MBA-nám við Durham University Business School. „Þetta var ekki algengt nám á þeim tíma, en ég vissi snemma að ég vildi heldur vera rekstrarmegin í lífinu en hönnunarmegin, og því var þetta nám tilvalið.“ Þau Bjarnveig eignuðust aðra dóttur úti í Durham, Eddu Elísabetu, á brúðkaupsdegi Karls og Díönu árið 1981. „Það var varla að hjúkrunarfólkið hefði tíma til að taka á móti henni,“ segir Magnús glettinn, en Edda litla fékk hins vegar silfurpening frá breska ríkinu að launum fyrir að fæðast á þessum merka degi. Svo bættist strákur í hópinn 1988 en hann heitir Valur. Börnin hafa öll á einhverjum tímapunkti verið í sumarvinnu hjá Vegagerðinni og eiga þau góðar minningar frá þeim tíma. Mælingamaður á Norðurlandi Eins og margir af kynslóð Magnúsar byrjaði hann ungur að vinna á sumrin. Hann var sendill í Reykjavík frá 12 ára aldri, eitt sumar í byggingarvinnu og annað sumar á sveitabæ í Englandi. „Þegar ég var orðinn sautján og kominn með bílpróf fannst mér tímabært að gera eitthvað merkilegra. Þá bauðst mér að gerast mælingamaður hjá Vegagerðinni.“ Magnús var mælingamaður ófá sumur og allan þann tíma á Norðurlandi. „Ég var bara tittur til að byrja með, en á þessum tíma voru mælingarnar svo sem ekki flóknar þannig að ég var fljótur að læra,“ segir Magnús og tekur fram að á þessum árum, í byrjun áttunda áratugarins, hafi Vegagerðin verið allt í öllu þegar kom að vegagerð. „Þar voru reknir margir vegagerðarflokkar og maður þvældist á milli þeirra. Stundum var maður í nýmælingum að stinga út leiðir sem tæknimenn voru með í huga, hina stundina var maður í framkvæmdamælingum að setja út línu og hæð jafnt og þétt meðan vegurinn var lagður.“ Mælingamennirnir voru yfirleitt tveir til þrír saman, þeir fengu borgaða dagpeninga og voru því upp á sjálfa sig komnir með að finna gistingu. „Oft fengum við inni í skúrunum hjá vinnuflokkunum, eða jafnvel í tjöldum, en stundum fundum við gistingu á sveitabæjum eða gistihúsum,“ segir Magnús en alltaf höfðu þeir svefnpoka með sér og voru því viðbúnir hverju sem er. Magnús Valur, starfslokaviðtal. Leyfa því að njóta sín. Þarf samt ekki að nota allar myndirnar af Magnúsi. ↑ Magnús Valur við Land Rover bifreið sem hann notaði við mælingavinnuna hjá Vegagerðinni á sumrin meðfram háskólanámi. ↙ Magnús Valur undirbýr opnun tilboða í Ólafsfjarðarmúlagöng í maí 1988.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.