Upp í vindinn - 01.05.2009, Page 60

Upp í vindinn - 01.05.2009, Page 60
Nóróvírus faraldur hjá vatnsveitu í Mývatnssveit MARÍAJ. GUNNARSDÓTTIR, doktorsnemi DR.SIGURÐURMAGNÚS GARÐARSSON, prófessor, umhverfis-og byggingaverkfræðideild Háskóla Islands Hópsýkingar af völdum mengaðs neysluvatns eru algengar víða um heim og ekki aðeins í þróunarlöndunum heldur einnig í iðnríkjunum. Sem dæmi má nefna að skráðir vatnsbornir faraldrar í Svíþjóð voru 142 á árabilinu 1980 til 2003 þar sem 63 þúsund manns komu við sögu (Martin, 2006). Þetta eru að meðaltali um sjö faraldrar á ári. Algengar vatnsbornar hópsýkingar í iðnríkjum eru af völdum Campylobacter, nóróveiru, Giardia og Cryptosporidium (Gunnarsdóttir, 2005). Margar fleiri sjúkdómsvaldandi örverur berast með neysluvatni en hér eru nefndar. I leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunar- innar er fjallað um yfir þrjátíu sjúkdómsvaldandi örveruhópa sem geta borist með neysluvatni (WHO, 2004). Skráðir vatnsbornir faraldrar eru fáir hér á landi og þeir sem hafa orðið eru af völdum örveranna Campylobacter og nóróveiru (Gunnarsdóttir, 2005). Faraldurinn í Mývatnssveit Arið 2004 komu upp þrjár hópsýkingar af völdum nóróveiru hér á landi sem mátti rekja til neysluvatns þ.e. á Húsafelli, Mývatni og í sumarhúsabyggð á Suðurlandi (Geirsdóttir, 2004). Talið er að um 300 manns hafi veikst, aðallega ferðamenn og sumarhúsagestir (Atladóttir, 2006). Aðeins í einni af þessum þremur hópsýkingum, í Mývatnssveit, var staðfest að sama afbrigði af veirunni var í neysluvatni og í saur sjúklinga, þó að talið sé nær öruggt í öllum tilfellum að smit hafi borist með neysluvatni (Brynjólfsson, 2004). Samkvæmt lýsingum fulltrúa Heilbrigðis- eftirlits Norðurlands Eystra (Brynjólfsson, 2008) eru nánari tildrög faraldursins í Mývatnssveit þau að í byrjun ágúst 2004 kom upp faraldur í ferðamannahóp sem gisti á hóteli á Akureyri. Hópurinn hafði haft viðdvöl á hóteH í Mývatnssveit nóttina áður og borðað þar kvöldmat. Ferðamannahópurinn samanstóð af tuttugu og sex einstaklingum og af þeim veiktust tuttugu og einn. Hópurinn ferðaðist um landið í rútu. Fyrst var haldið að um matareitrun væri að ræða en síðan kom í ljós að faraldurinn átti upptök sín í neysluvatni. Upplýsingar komu fram um þrjá aðra hópa sem höfðu haft viðdvöl á hótelinu á tímabilinu 31. júlí til 3. ágúst auk íbúa í tveimur nálægum húsum, tengd sömu vatnsveitu og höfðu veikst á sama tíma. Einnig urðu starfsmenn hótelsins og aðstandendur þeirra veikir. Ennfremur kom í ljós að íbúar sumarhúss á veitusvæðinu höfðu oft veikst á síðastliðnum árum. Þessi endurtekna sýking var alltaf síðla sumars. Fjórða ágúst voru gefin út tilmæli um að sjóða allt vatn og eftir það voru engin ný tilfelli af nóróveiru. Hótelhaldara voru send tilmæli um úrbætur á vatnsveitu og voru þær að nokkru komnar í gagnið áður en hótelstarfsemi hófst vorið eftir. Sett var upp útfjólublátt geislatæki til að drepa sjúkdómsvaldandi örverur og siturlögn frá rotþró var færð niður fyrir hótelið og fjær rennslisstefnu grunnvatns. Vatnsveita og fráveita á svæðinu Vatnsveitan þjónar sumarhóteli sem hefur 37 herbergi og auk þess fimm íbúðarhúsum vestan við hótehð. Neysluvatn er tekið úr brunni sem grafinn var á bökkum Mývatns. Svæðið er á miklu gervigígasvæði sem er við sunnanvert Mývatn. Jarðlög á þessum stað eru því að mestu vikurgjall og hraun. Vikur er talinn hafa góða eiginleika til að sía frá mengun (Pang o.fl. 2003). Vatnsbrunnurinn er um þrjá til fjóra metra frá vatnsbakkanum þar sem er mikill grunnvatnsstraumur til vatnsins frá suðri á yfir 100 metra strandlengju (Geirsson, 2007). Grunnur brunnur var grafinn og plastdúkur var settur upp milh brunns og vatns til að varna innstreymi frá Mývatni. Læst dæluhús hýsir vatnstökumannvirki. 60 I ... upp í vindinn

x

Upp í vindinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Upp í vindinn
https://timarit.is/publication/1929

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.