Læknablaðið - 01.03.2023, Qupperneq 12
128 L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109
R A N N S Ó K N
skýr neikvæð tengsl á milli útsetningar fósturs fyrir kvikasilfri í
móðurkviði og vitræns þroska,5 sem var greinanlegur allt fram á
fullorðinsaldur.6 Svipuð tengsl sáust einnig hjá börnum frá öðrum
sjávarsamfélögum, svo sem meðal frumbyggja í Norður-Kanada,7
en veikari tengsl sáust í rannsóknum frá Seychelles-eyjum þar
sem neysla sjávarfangs var einnig mikil.8
Ofangreindar rannsóknir5,8 voru meðal annarra lagðar til
grundvallar þeim heilsuverndarmörkum sem Matvælaöryggis-
stofnun Evrópu (EFSA)2 og Umhverfisstofnun Bandaríkjanna
(US-EPA)9,10 hafa lagt fram. Mörk EFSA eru lögð til grundvallar
fæðutengdum ráðleggingum um fiskneyslu barnshafandi kvenna
sem mörg Evrópulönd hafa gefið út,12 þar með talið Ísland.13 Hér á
landi miðast útfærslan við að barnshafandi konur forðist neyslu
á hákarli, sverðfiski, stórlúðu og eggjum sjófugla, ásamt því að
takmarka neyslu á túnfisksteik og búra við eitt skipti í viku og
niðursoðnum túnfiski og hrefnukjöti við tvisvar í viku.13
Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um útsetningu fólks á
Íslandi en mælingar á kvikasilfri í blóði 50 barnshafandi kvenna
frá 2014-2015 benda til þess að styrkur kvikasilfurs sé töluvert
lægri en í Grænlandi, svipaður og í Noregi, en hærri en í mörgum
öðrum Evrópulöndum þar sem fiskneysla er ekki eins algeng.14
Engin athugun hefur farið fram á því hvort styrkur kvikasilfurs í
barnshafandi konum sé undir eða yfir heilsuverndarmörkum hér
á landi og hefur því ekki verið lagt mat á það hvort fæðutengdar
ráðleggingar Embættis landlæknis um fiskneyslu fyrir barnshaf-
andi konur frá 201813 hafi tilætluð áhrif.
Markmið
Tilgangur rannsóknar var að kanna styrk kvikasilfurs í hári hjá
barnshafandi konum á höfuðborgarsvæðinu og tengsl hans við
fiskneyslu, ásamt því að leggja mat á það hvort núverandi ráð-
leggingar um fiskneyslu barnshafandi kvenna þarfnist endur-
skoðunar.
Efniviður og aðferðir
Rannsóknin var hluti af slembidreifðri íhlutandi rannsókn sem
gerð var árið 2021 á Íslandi, Spáni, Portúgal, Grikklandi og
Kýpur, innan verkefnisins „Human Biomonitoring for Europe
(HBM4EU)“ sem styrkt var af Horizon 2020, rannsókna- og ný-
sköpunaráætlun Evrópusambandsins (hbm4eu.eu/). Markmið
rannsóknarinnar var að kanna hvort ítarleg fræðsla um opin-
berar ráðleggingar um fiskneyslu meðal barnshafandi kvenna í
löndum þar sem fiskneysla er tiltölulega mikil hefði áhrif á styrk
kvikasilfurs sem mældur er í hári. Viðmiðunarhópurinn fékk
sömu fræðslu og aðrar konur sem sækja mæðravernd (það er
„standard care“). Útreikningar sýndu fram á að 325 þátttakendur
þyrfti í hvern hóp til að greina mælanlegan mun milli hópa á
styrk kvikasilfurs (eða 650 samtals, 130 frá hverju landi). Áhrifa
íhlutunarinnar í heild verða gerð skil annars staðar en þessi grein
fjallar um mælingar á kvikasilfri í hári íslensku þátttakendanna
og tengsl þess við fiskneyslu.
Þátttakendur
Rannsóknin náði til heilsuhraustra barnshafandi kvenna á aldr-
inum 18-45 ára. Inntökuskilyrði voru einburameðganga og bú-
seta á Íslandi síðastliðin þrjú ár. Konurnar voru skráðar til þátt-
töku í gegnum mæðravernd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
og tóku 10 af 15 heilsugæslustöðvum þátt. Ljósmæður kynntu
rannsóknina við reglulega skoðun í mæðravernd og sáu um öfl-
un upplýsts samþykkis. Þær tóku einnig hársýni til greiningar á
kvikasilfri tvisvar á meðgöngu: við upphaf rannsóknar, sem mið-
aðist við meðgönguviku ≤22, og við lok rannsóknar, sem miðaðist
við að sýni væri tekið að minnsta kosti fjórum mánuðum síðar.
Rannsóknin var samþykkt af vísindanefnd Heilsugæslu höfuð-
borgarsvæðisins og vísindasiðanefnd (VSNb2021020046/03.01).
Gagnasöfnun
Strax eftir skráningu var íslensku þátttakendunum skipt tilviljun-
arkennt í íhlutunarhóp og viðmiðunarhóp (útfært með aðferðinni
„proc plan“ í forritinu SAS v9.2: support.sas.com/en/documenta-
tion.html). Haft var samband við konur í íhlutunarhópnum
nokkrum dögum eftir hársýnatöku og þær beðnar um að panta
tíma fyrir viðtal við fyrsta tækifæri. Íhlutunin fólst í viðtalinu
sem fór fram á fjarfundarforritinu Zoom með glærukynningu.
Farið var yfir ráðleggingar Embættis landlæknis um mataræði á
meðgöngu,13 með áherslu á fiskneyslu, sem þátttakendur fengu
einnig sendar rafrænt. Kynntar voru forsendur ráðlegginga um
fiskneyslu og ástæður þess að hvatt er til takmörkunar á neyslu
ákveðinna tegunda sjávarfangs. Til skýringar var farið yfir magn
kvikasilfurs í ólíkum fiskitegundum. Konunum gafst einnig færi
á að spyrja almennra spurninga um mataræði á meðgöngu. Í
heild tók viðtalið um 15 mínútur.
Allir þátttakendur voru einnig beðnir um að svara rafrænum
spurningalista við upphaf og lok rannsóknar þar sem lögð var
áhersla á fiskneyslu með tilliti til tíðni og tegundasamsetningar
síðustu fjóra mánuði. Fyrri listinn innihélt einnig almennar
spurningar sem sneru að hegðun og umhverfisþáttum sem gætu
haft áhrif á styrk kvikasilfurs.
Mælingar á kvikasilfri
Styrkur kvikasilfurs var mældur í hársýnum sem tekin voru
við upphaf og lok rannsóknar. Að meðaltali liðu 150 og 143
dagar á milli fyrri og seinni sýnatöku í viðmiðunar- og íhlutun-
arhópnum, og var munur fjölda daga milli hópa ekki marktækur
(p=0,77). Notað var hár vegna þess að sú sýnatökuaðferð er ein-
föld, er lítið inngrip og er algeng aðferð við eftirlit með fólki.15 Það
eykur möguleika á samanburði við aðrar rannsóknir og heilsu-
verndarmörk. Klipptur var þunnur hárlokkur upp við rót aftan á
hnakka og honum haldið saman með límbandi. Á límbandið var
teiknuð ör svo hægt væri að greina rótarendann. Fyrstu þrír cm
frá rót voru notaðir við greiningar, sem byggist á þeirri nálgun að
hár vex um rúman einn cm á mánuði16 og endurspeglar sá hluti
sýnis því útsetningu síðastliðna þrjá til fjóra mánuði, sem er það
tímabil sem spurningar okkar um fiskneyslu náðu yfir. Miðað
var við að seinni sýnataka færi fram eigi skemur en að fjórum
mánuðum liðnum.
Mælingar á kvikasilfri voru gerðar með atómgleypnimæl-
ingu á rannsóknarstofu Centro Nacional de Sanidad Ambiental
(CNSA), Instituto de Salud Carlos III í Madríd á Spáni samkvæmt
aðferð sem lýst hefur verið nánar annars staðar.17 Magngrein-
ingarmörk voru við 0,01 µg/g af hári og 3 mg af sýni voru notuð