Læknablaðið - 01.03.2023, Qupperneq 42
158 L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109
V I Ð T A L
„Ég held að engin okkar hafi eitthvað sérstaklega pælt í því hvað við þyrftum að vinna mikið.
Þrískiptar vaktir — ekkert mál. Sólarhringur eða þrír — ekkert mál. Ungt fólk hugsar ekki
svona lengur. Það hefur orðið mikil breyting,“ segir Ingunn Vilhjálmsdóttir sem útskrifaðist
úr læknadeild árið 1981 með þeim Hjördísi Smith og Ástríði Jóhannesdóttur. Allar urðu þær
gjörgæslu- og svæfingalæknar. Allar hafa nú lagt svæfingarnar í annarra hendur
■ ■ ■ Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
„Við svæfingalæknar
erum reddararnir“
„Fólk virkilega spáir í lífsgæði sín:
Hvernig er vinnutíminn minn? Hvernig
er lífsstíllinn og hvernig get ég varið
meiri tíma með fjölskyldunni minni?
Þetta hljómar eins og okkur hafi verið
alveg sama um fjölskylduna en það var
ekki þannig,“ segir Ingunn Vilhjálms-
dóttir. Hjördís Smith bætir við: „Eins
og Svíar myndu segja: Maður tekur það
vonda með því góða.“ Ingunn kinkar
kolli. „Já, svona var þetta bara. Ef þú
ætlaðir að verða læknir var þetta svona.
Og ef þú ætlaðir að verða sérfræðingur
fórstu til útlanda.“
Þær eru mættar til að fara yfir sviðið.
Segja það ekki hafa verið samantekin ráð
að fara allar í svæfinga- og gjörgæslu-
lækningar. Þær þekktust heldur ekki
áður en þær komu í læknadeild. En þær
útskrifuðust sama ár, þrjár af 8 konum
í 32 manna árgangi ‘81. Svo vörðu þær
lunganum úr starfsferlinum saman eftir
sérnámið. Fannst það mjög gaman, enda
andinn á deildinni afburðagóður.
Skytturnar þrjár
Ástríður Jóhannesdóttir hætti á Landspít-
ala nú um áramótin en þær Hjördís og
Ingunn fyrir árslok 2021. Skytturnar
þrjár, eins og Theódór Skúli Sigurðsson
samstarfsmaður þeirra lýsir þeim. „Já,
á það ekki vel við?“ Samsinna því. Þær
segja búið að manna plássin þeirra.
„Svæfingadeildin á Hringbraut hefur
orð á sér fyrir að vera samstæðasta og
skemmtilegasta vinnudeildin á spítalan-
um. Þetta hefur alltaf verið fjölskylda,“
segir Ingunn. Þær lýsa því hvernig lækn-
ar hafi endað sem svæfingalæknar því
það hafi verið svo gaman á deildinni.
Þeir geti ekki skilið á milli hvort fagið
eða deildin hafi ráðið úrslitum.
„Já, okkur tókst að stela mörgum sem
ætluðu í aðrar greinar en enduðu sem
svæfingalæknar. Ætluðu að verða barna-
læknar eða skurðlæknar en fannst svo
gaman hjá okkur.“
Návígið hafi verið mikið. „Nú þegar
ég lít til baka hefur maður umgengist
vinnufélagana meira en fjölskylduna,“
segir Ingunn. Þær hlæja. Samvinna hafi
einkennt deildina. „Við höfum alltaf
stutt hvert annað.“
En sakna þær spítalans? „Ég sakna
þess að vinna með öllu þessu unga fólki
sem er að koma heim. Við höfum unnið
nógu lengi með gömlu kollegunum. Sá
tími er búinn. Hann var góður. En allt
þetta unga fólk er fólk sem við höfum
alið upp og er að skila sér heim,“ segir
Ástríður.
Reynslan eykur álagið
Þær horfa til baka. Hvernig þekkingin
hlóðst upp með óvæntum afleiðingum.
„Ég var oft hrædd síðustu árin við
að lenda í einhverju klúðri,“ segir
Hjördís. „Eftir því sem þú færð meiri
reynslu sérðu hvernig hlutirnir geta svo
auðveldlega farið úrskeiðis, þrátt fyrir að
þú geri þitt besta og gerir allt samkvæmt
bókinni. Ég hafði það alltaf í huga. Það
gera fleiri kollegar,“ segir hún. Ingunn
bætir við: „Já, ég segi alltaf: Ég var
langöruggust þegar ég var búin að vera
deildarlæknir í þessu starfi í 6 mánuði,
því þá hafði ég ekki hugmynd um hvað
ég vissi lítið.“ Þær hlæja. „Nei, nei,“ segir
Ástríður. „Jú,“ segir Hjördís. „Það slær út
á mér svita stundum þegar ég hugsa um
allt sem hefði getað gerst.“ Ástríði þykir
nóg um: „Við megum ekki vera svo svart-
sýnar að við fælum fólk frá faginu,“ segir
hún. „Nei, nei,“ bæta þær tvær við. „Það
er frábært að hafa verið á svona góðum
vinnustað og fengið þann stuðning sem
maður þarf,“ segir Hjördís.