Sjómannablaðið Víkingur - 01.09.2023, Blaðsíða 17
ÚR TIMBRI Í TREFJAPLAST
Fjórða bátinn keypti Svavar ásamt bróð-
ur sínum Guðlaugi árið 1971 og var það
þilfarsbáturinn Gylfi EA-628. Hjá þeim
bræðrum fékk hann nafnið Eyfirðingur
ÞH-39.
Fimmti bátur Svavars var opin trilla sem
hann keypti 1974 frá Húsavík og fékk sá
bátur nafnið Hugrún ÞH-240 en í dag-
legu tali kallaður Sýsli því af sýslumanni
var hann keyptur. Sýsli var með drátt-
arspil sem létti vinnuna við netadrátt en
fram til þess tíma var það handaflið eitt
sem kom netunum inn fyrir borðstokk-
inn.
Árin 1979 og 1980 var Svavar með
síldarnet út af Hringsdalnum og fékk á
þessum árum um 400 til 500 tunnur af
síld sem að mestu fór til frystingar í
beitu. Seinna árið saltaði hann í 154
tunnur þegar nóg var komið af beitu-
síldinni. Þessar tunnur seldi Svavar til
útlanda og fékk greitt í nýkrónum eftir
áramótin.
Sjötta bátinn keypti hann 1986 og var
þar kominn einn af svonefndum DAS
bátum, smíðaður í Bátalóni. Báturinn
fékk nafnið Hugrún ÞH-240. Bátur þessi
er nú til sýnis á Sjóminjasafni Grenivík-
ur.
Allir bátar Svavars fram til 1997 höfðu
verið af timbri gerðir en sá sjöundi var
úr trefjaplasti og af gerðinni Víkingur
700. Báturinn sá fékk nafnið Hugrún
ÞH-240. Bát þennan lét Svavar bæði
lengja og dekka.
Áttundi og síðasti bátur þessa sæfara hét
Daney EA-240 og komst í eigu kappans
árið 2009. Bátinn seldi Svavar árið 2022
og lagði þar með árar í bát og hætti öllu
útgerðarstússi enda Elli kerling farin að
minna á sig.
Þilfarsbáturinn Gylfi EA-628. Hjá þeim bræðrum,
Svavari og Guðlaugi, fékk báturinn nafnið Eyfirð-
ingur ÞH-39.
Árið 1997 eignaðist Svavar sinn fyrsta plastbát, Hugrúnu ÞH-240, sem var jafnframt sjöundi bátur Svavars.