Víkurfréttir


Víkurfréttir - 23.05.2024, Blaðsíða 8

Víkurfréttir - 23.05.2024, Blaðsíða 8
Tíu ára farin að safna námsbókum því hún ætlaði að verða kennari Lóa Björg Gestsdóttir er nýr skólastjóri Heiðarskóla í Keflavík Lóa Björg Gestsdóttir, nýráðin skólastjóri Heiðarskóla í Keflavík, er fædd og uppalin í Keflavík. Hún segist hafa átt góðan vinahóp og frábæra fjölskyldu þegar hún var að alast upp. Lóa var mikið í íþróttum á yngri árum og tók þátt í öllum boltaíþróttum sem voru í boði í Keflavík á þeim tíma. Skiptir þá engu hvort um að að ræða handbolta, fótbolta eða körfubolta. „Það var mikið lán að fá að alast upp í því umhverfi,“ segir hún. Lóa var m.a. í gullaldarliðinu þar sem þær Annar María Sveinsdóttir og Björg Hafsteinsdóttir voru stóru stjörnurnar og hún rifjar upp að það hafi verið einstakt að sex æskuvinkonur sem halda mikið hópinn, Anna María Sigurðardóttir, Ásdís Þorgilsdóttir, Lilja Sæmundsdóttir, María Rut Reynisdóttir og Sigrún Haraldsdóttir, hafi náð því að verða saman Íslandsmeistarar í handbolta, fótbolta og körfubolta í yngri flokkum. „Það eru ekki margir sem geta státað af því saman,“ segir Lóa og brosir þegar hún rifjar upp þessi gömlu afrek. Byrjaði í Myllubakkaskóla Lóa Björg er eiginkona og móðir, eiginmaður hennar er Guðmundur Skúlason. Hún á tvo drengi sem eru orðnir fullorðnir og eru 22 og 26 ára gamlir. Hún hefur starfað víða en lang mest í skólaumhverfinu. Hún hóf ferilinn í Myllubakkaskóla þegar Vilhjálmur heitinn Ketilsson réði hana þangað. Þar var hún í eitt ár áður en hún fór í kennaranámið og kláraði það. Þaðan lá leiðin í Holtaskóla. Úr Holtaskóla var Lóa numin yfir heiðina í Sandgerði. Þar starfaði hún sem deildarstjóri við Sandgerðisskóla í átta ár með góðum leiðtoga. Í Sandgerði ákvað hún að söðla um og horfa á skólann utan frá og réð sig sem náms- brautastjóra til Isavia í fimm ár. Núna er Lóa á fjórða ári í Heiðar- skóla og orðin skólastjóri þar. Hvað var það sem dró þig í skólann? Þú ert komin með víð- tæka reynslu þar. „Ég var heppin með kennara þegar ég var yngri. Ég átti flotta kennara sem lögðu ekki bara rækt við námið, heldur einnig hvernig manneskjur við vorum og ólu okkur svolítið upp. Ég ákvað mjög fljótlega að ég ætlaði að verða kennari. Ég var að ég held tíu ára þegar ég byrjaði að safna námsbók- unum. Ég útskrifaðist sem stúdent á haustönninni og það var þá sem Vilhjálmur heitinn náði að plata mig til að vera forfallakennari eina önn. Þá var ekki aftur snúið, þetta heillaði mig algjörlega. Ég fór þá í kennaranámið en náði ekki að klára það alveg þar sem ég eignaðist drengina mína sem voru báðir miklir fyrirburar og ég þurfti að einbeita mér að því. Ég hitti svo Jónínu Guðmundsdóttur, sem þá var aðstoðarskólastjóri í Holtaskóla. Þá var verið að breyta skólanum þannig að hann varð fyrir nemendur í fyrsta til tíunda bekk en hafði áður verið gagn- fræðaskóli fyrir eldri nemendur. Ég var ráðin þangað og lærði mikið af því fólki sem þar var.“ Búin að vera mikil reynsla Nú ertu búin að vera í Heiðar- skóla í fjögur ár. Hvernig er að vera hér? „Bara gaman og þetta er búin að vera ótrúlega mikil reynsla. Ég kem hingað árið 2020 í kórónuveirufar- aldrinum. Ég kem inn um haustið en faraldurinn var búinn að vera frá því í mars. Fólk var í hólfum hér og þar og það tók því smá tíma að komast inn. En hérna er ofboðslega flott starfsfólk og góður starfsandi og það sem við gerum vel í Heiðar- skóla er að taka á móti nýju fólki. Hér er gott að starfa og fólk búið að vera hérna lengi. Hér líður bæði starfsfólki og börnum vel og það er það sem við horfum helst til. Þess vegna er gott að vera hér. Ég er að taka við sprotanum af Bryndísi Jónu Magnúsdóttur, sem hefur staðið sig frábærlega vel, og nú er bara að láta skólann skína skært áfram, eins og hann hefur verið að gera.“ Það er talað um að allir skólar hafi sinn brag. Hvernig er Heið- arskóli? „Heiðarskóli er kjarnaskóli. Ég er að kynnast því núna í Reykjanesbæ að skólastjórnendasamfélagið er svo öflugt. Þetta eru sjö grunn- skólar. Við vinnum mikið saman og leitum ráða hjá hvort öðru. Það er gott og heillar mig mikið. Það sem Heiðarskóli hefur er háttvísi, hugvit og heilbrigði og það eru lyk- ilorð skólans. Við vinnum með það. Við erum heilbrigð og tökum þátt í Skólahreysti og stefnum alltaf hátt. Það er hátt hlutfall nemenda í Heiðarskóla sem stunda íþróttir eða tómstundir. Við erum líka skapandi skóli. Bygging skólans er einföld, það liggur ein gata í gegnum skólann. Öðru megin eru bekkjarstofurnar og beint á móti þeim eru verk- greinar. Stofurnar eru stórar og við viljum halda skapandi starfi hátt á lofti og að geta skilað verkefnum á margskonar máta. Í hugvitinu erum við tækni- skóli. Það er hröð tækniþróun og vil þurfum að halda okkur á þeim vagni. Í háttvísi erum við uppbygg- ingarstefnuskóli og byggjum á þeirri stefnu. Það skiptir öllu máli að börnunum líði vel. Við vitum að ef okkur líður ekki vel þá vegnar okkur ekki vel. Börnunum þarf að líða vel til að vegna vel í námi og skóla. Það skiptir máli.“ Ekki að taka U-beygju Ertu að fara að breyta einhverju? „Ég er ekki að fara að taka U-beygju, það er alveg á hreinu. Hérna er flott og gott starf. En með nýjum stjórnanda koma nýjar áherslur. Það skiptir mig máli að hafa gildi sem manneskja. Ég fylgi mínum gildum í stjórnun og í lífinu og ég vil efla hvern leið- toga innan skólans, hvort sem það er starfsfólk eða nemendur og það mun ég leggja áherslu á. Það hefur líka verið gert áður og við höldum áfram því starfi sem hér hefur verið og er flott. Svo sái ég mínum fræjum. Í dag eru nemendur Heiðar- skóla 447 talsins og hefur fjölgað um 40 í vetur en þegar skólastafið hófst síðasta haust voru nemendur 407 talsins. Það hafa því bæst við samtals tvær bekkjadeildir í vetur. Barnafólki í skólahverfinu er að fjölga, hverfið er að yngjast. Eins og staðan er núna verða um 460 nemandi sem sækja skólann næsta haust. Það þýðir að í haust verður þremur bekkjardeildum meira í skólanum en síðasta haust. Lóa segir að skólinn sé núna að glíma við húsnæðisskort og þá þurfi að hugsa aðeins út fyrir kassan og huga vel að nemendum og starfsfólki. Þá er hluti af fjölgun- inni börn sem eru að koma frá Grindavík. Þau koma inn með allskonar líðan, eðlilega eftir það sem þau hafa gengið í gegnum. Lóa segir allt gert til að taka vel á móti þeim og öllum nýjum nemendum Heiðarskóla. Skólahreysti hluti af skólastarfinu Úrslitin í Skólahreysti eiga eftir að fara fram og það var saga til næsta bæjar að Heiðarskóli komst ekki í úrslit að þessu sinni. Hvernig brugðust nemendur við því? „Það voru alls konar tilfinningar en við erum staðráðin í að vera í úrslitum á næsta ári. Skólahreysti er líka orðin hluti af skólastarfinu. Þetta er valgrein hjá okkur og að velja þetta ótrúlega margir. Svo er alltaf undankeppni í skólanum þar sem nemendur keppast um að komast í keppnislið skólans. „Keppnin er hörð og það er mikill metnaður hjá íþróttakennurum okkar fyrir þessu. Það er súrt að vera ekki með núna í úrslitum en Holtaskóli heldur uppi heiðri Reykjanesbæjar. Við höldum öll með Holtaskóla að þessu sinni.“ Nú er sumarið að koma og skólinn að klárast á næstu dögum. Lóa segir braginn breytast í maí. Nemendur vilja komast út úr húsi og allir eru farnir að vaka lengur. Hún segir að núna þurfi að hugsa út fyrir boxið og breyta skóla- starfinu síðustu vikurnar. „Það má líka læra stærðfræði úti. Það þarf ekki að sitja inni í stofu til þess. Það er búið að vera gaman síð- ustu vikur að horfa á starfsfólkið að breyta skólastarfinu í takti við vorið,“ segir Lóa Björg Gestsdóttir, nýr skólastjóri Heiðarskóla. Lóa Björg Gestsdóttir var á dögunum ráðin skólastjóri Heiðarskóla í Keflavík. Viðtal og mynd: Hilmar Bragi Bárðarson 8 // VíKurFrÉttir á SuÐurNESJum

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.