Víkurfréttir


Víkurfréttir - 03.07.2024, Blaðsíða 14

Víkurfréttir - 03.07.2024, Blaðsíða 14
Keflvíkingurinn Arnór Sveinsson var á sínum tíma einn allra efni- legasti íþróttamaður á Íslandi. Hann var bæði efnilegur leikmaður í fótbolta og körfubolta ásamt því að hafa gífurlegan stökkkraft og hraða frá unga aldri. Stökkkrafturinn var eitthvað sem vakti athygli margra en Arnór sló meðal annars óformlegt landsmótsmet í lang- stökki þrátt fyrir að hafa aldrei æft neinar frjálsar íþróttir og hann var aðeins fjórtán ára gamall þegar hann keppti í troðslukeppni á Nettómótinu. Þrátt fyrir að hafa tekið körfuna fram yfir fótboltann þá var það fótboltinn sem átti hug hans til að byrja með. „Ég byrjaði ekki í körfubolta fyrr en um tíu ára aldur. Sem barn hafði ég miklu meiri áhuga á fótboltanum og Einar Einars, körfuboltaþjálfari, hafði enga þolinmæði fyrir mér á æfingum því ég var alltaf að negla alla niður. Eftir tíu ára aldur var ég á fullu í fótbolta og körfubolta og elskaði að vera í báðum íþróttum, ég var frekar ofvirkt barn og það voru íþróttirnar sem hjálpuðu mér gífurlega að losna við þá orku sem ég þurfti að losa mig við.“ Fann snemma fyrir athygli „Þegar ég fór að taka körfuna al- varlega var ég mjög bráðþroska og stækkaði hratt en hafði samt góða samhæfingu miðað við stærð og gat skotið boltanum mjög vel enda kenndi pabbi mér mjög snemma hvernig ætti að skjóta boltanum. Ég var því farinn að vekja athygli þegar ég var í kringum tólf ára, enda var ég farinn að troða þá og var stór, sterkur og hittinn. Þó að athyglin hafi byrjað að koma þá fann ég í raun ekkert fyrir neinni pressu fyrr en um átján ára aldur.“ Meiri pressa á að halda áfram í körfubolta Arnór var fimmtán ára þegar hann tók þá ákvörðun að setja takka- skóna á hilluna til þess einbeita sér að fullu á að ná langt í körfubolta. „Þegar ég var fimmtán ára, en þá var ég kominn í landsliðsúr- takið í fótbolta, fannst mér meiri líkur á að ná lengra í körfu og tók þess vegna körfuna fram yfir en í dag held ég að ég hefði getað náð jafnlangt eða mögulega lengra í fótboltanum. Það voru líka margir í körfunni að pressa á mig að fók- usera á hana enda var ég kominn í yngri landsliðin þar. Fótboltinn var frábær tími og lærði ég mikið, enda með góða þjálfara eins og Jóhann Birni og fleiri meistara. Þegar ég hætti í fótboltanum var ég kominn inn í meistaraflokk Keflavíkur í körfu. Ég man að goðsagnir eins og Gunni Einars og Maggi Gunn voru þá í liðinu en ég byrjaði að æfa á fullu með þeim sextán ára. Ég fékk þá fyrstu mínúturnar mínar sem var gífurlega skemmtilegt. Hjörtur Harðarson var þá þjálfari og hafði hann mikla trú á mér sem leikmanni. Síðan ákvað ég að prófa eitthvað nýtt, fór í Njarðvík og var á venslasamningi hjá Hamri í eitt ár. Mér leið vel í Njarðvík og lærði mjög mikið af mönnum þar, þá sér- staklega af Loga Gunnars. Logi var ótrúlega flottur leikmaður og góð fyrirmynd innan sem utan vallar og kenndi hann mér margt, bæði sem þjálfari minn í yngri flokkunum þar og sem liðsfélagi í meistara- flokki. Síðan fer ég aftur í Keflavík en ég hefði þá mögulega átt að fara annað þar sem mér fannst þeir sem þjálfuðu liðið ekki hafa nægilega mikla trú á mér. Ég á þó mörg eftirminnileg augnablik í Keflavík og það sem stendur mest upp úr er líklegast þegar ég rétt strauk nefið á Drungilas, leikmanni Þórs, í úr- slitunum á móti þeim og var ég þá rekinn út úr húsi í fyrsta og eina skiptið á mínum ferli.“ Áfall leiddi til enda ferilsins Þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gamall hefur Arnór átt langan meistaraflokksferil en er nú hættur í körfubolta – en hvað varð til þess að hann ákvað að setja skóna á hilluna? „Ég lenti í miklu áfalli í nóv- ember 2021 sem varð til þess að ég hef lítið verið í körfu síðan þá. Ég var mættur á æfingu í íþrótta- húsinu í Keflavík og var að klæða mig úr hettupeysunni. Þá segir Þröstur Leó, liðsfélaginn minn: „Hvað er að sjá hendina á þér drengur?“ Þá var hún öll orðin rauð og þrútin þannig ég fór bein- ustu leið upp á spítala þar sem mér var sagt að ég væri með blóðtappa í öxlinni. Eftir það fór ég í Domus Medica og tók allskonar próf en þar segja þau að ég væri rifbeins- brotinn sem leiddi til þess að æð- arnar voru klemmdar. Það var samt ekki talin nákvæm niðurstaða svo ég var í raun ekki ennþá 100% viss hvað væri að mér. Ég fór svo til útlanda tveimur vikum seinna og þá fékk ég símtal frá Domus Medica og mér til- kynnt að ég væri með eitthvað sem kallast Thoracic Outlet Syndrome. Það lýsir sér þannig að það er lítið pláss í öxlinni fyrir bláæðarnar til að dæla blóði úr hendinni til hjarta. Fyrst gerði ég mér í raun ekki grein fyrir alvarleika málsins. Ég spurði lækninn minn: „Getum við ekki bara lagað þetta?“ og hann svaraði mér blákalt á ensku: „No it is broken.“ Ef ég færi í aðgerð gæti ég lamast í hendinni þannig ég ákvað að taka ekki sénsinn og þarf að lifa við það að vera lélegri í körfubolta og missa styrk í hend- inni en ég sætti mig betur við það heldur en að vera lamaður. Það var ótrúlega erfitt að kyngja þessum fréttum enda hafði lífið snúist um körfubolta frá því ég var krakki en á þessum degi leið mér eins og öll mín erfiðisvinna hafi verið til einskis. Þessi sjúkdómur er eitthvað sem ég verð alltaf með og ég þarf að lifa með honum, sem var mjög erfitt til að byrja með – en maður aðlagar sig og lærir að lifa með þessu.“ Fann nýja ástríðu í þjálfun „Ótrúlegt en satt þá er ég farinn að dýrka langhlaup sem ég gjör- samlega þoldi ekki þegar ég var í körfu og fótbolta. Aðaláhugamál mitt er hins vegar að þjálfa fólk og aðstoða það við að koma sér í betra líkamlegt ástand en sú nýja ástríða hefur gripið mig eftir að ég missti körfuna. Eftir að hafa hætt í körfu vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera í lífinu en sá á netinu auglýsingu um einkaþjálfaranám og hugsaði: „Af hverju ekki?“ Ég fór í Keili og bætti við mig fögum til að komast aftur í eitthvað frekara nám og reyna að vekja einhvern neista sem vantaði hjá mér – og það gerði námið hjá Keili svo sannarlega. Ég er nýbúinn að ljúka náminu og hef sett allan minn áhuga, orku og metnað í að verða eins góður þjálfari og ég get. Síðan ég byrjaði í þessu hef ég ekki verið mikið að væla yfir því sem kom fyrir mig eða verið að sakna körfunnar, enda er hausinn á mér á bólakafi í þjálfun og að koma sjálfum mér einnig í betra stand, bæði líkamlega og andlega. Mitt markmið í fram- tíðinni er að verða þjálfari í fullu starfi og að hafa góðan hóp af fólki sem treystir mér fyrir sinni heilsu – því í raun er ekkert mikilvægara en heilsan okkar.“ Viðtal: Jón Ragnar Magnússon Fann nýja ástríðu eftir að hafa þurft að hætta í körfubolta Mitt markmið í framtíðinni er að verða þjálfari í fullu starfi og að hafa góðan hóp af fólki sem treystir mér fyrir sinni heilsu – því í raun er ekkert mikilvægara en heilsan okkar ... Útskrift í einkaþjálfaranámi frá Keili. Langhlaup er nýja ástríðan. Arnór í leik með yngra landsliði Íslands. Ekkert mikilvægara en heilsan okkar, segir Arnór.Troðið í íþróttahúsinu í Keflavík. sport

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.